21.11.1945
Neðri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (4653)

99. mál, æfinga- og tilraunaskóli

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af menntmn. d. að beiðni hæstv. menntmrh. Frv. er samið af milliþn. í skólamálum. Menntmn. hefur ekki rætt frv. að neinu ráði og raunar næstum ekki, og hafa einstakir nm. því óbundnar hendur um afstöðu til þess á síðari stigum. En n. mun taka það til rækilegrar athugunar — eins og önnur frv., sem hjá henni eru, — að lokinni 1. umr.

Um málið vil ég að öðru leyti taka fram, að í lögum um Kennaraskóla Íslands, frá 14. apríl 1943, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofna skal, svo fljótt sem því verður við komið, æfingaskóla í sambandi við kennaraskólann með öllum ársdeildum venjulegra barnaskóla.“ Þetta frv. er flutt fyrst og fremst til fullnægingar á þessu ákvæði l. um Kennaraskóla Íslands. Eins og öllum er kunnugt, hlýtur undirbúningur kennaraefna að öðrum og verulegum þræði að vera fólginn í því, að þeir fái raunverulega æfingu við kennslustarf. Þessar æfingar fyrir kennaraefni hafa verið í kennaraskólanum um alllangt skeið, en við slæmar aðstæður, eins og kemur fram í því, að sett var í l., að „stofna skyldi svo fljótt sem því verður við komið“ sérstakan æfingaskóla fyrir kennaraskólann. — En þetta er ekki nema annar höfuðtilgangur frv. Hinn er að koma á fót rannsóknarstofnun í uppeldismálum og leiðbeiningastofnun fyrir kennara almennt. Við ætlumst til þess, að í þessum skóla fari fram tilraunir um nýjungar í kennslutækni, og miðað einnig við það, að skólanum verði falið að gefa út leiðbeiningarrit fyrir kennara og aðra uppalendur, eftir fyrirlagi fræðslumálastjóra, þar sem árangur af tilraunum skólans í kennslu sé birtur.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál á þessu stigi, en óska, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til 2. umr. og lýsi yfir, að menntmn. mun taka frv. til rækilegrar meðferðar á milli 1. og 2. umr.