26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (4673)

101. mál, lax- og silungsveiði

Jörundur Brynjólfsson:

Örfá orð vil ég segja út af ræðu hv. þm. Mýr. Mér virtist hann ætla að bjarga veiði í ánum með því að leyfa enn þá hættulegri veiði í fjörðunum. Mér virðast þetta alleinkennileg rök. Ég sé enga takmörkun þess, hvaða veiðitæki má nota, og ætla, að úr því geti orðið þau tæki, sem hættuleg hafa reynzt annars staðar.

Hv. þm. Mýr. hljóp yfir það, sem ég benti á að laxinn fer margar ferðir upp að ströndinni og því meiri líkur til að veiða hann þar heldur en þar, sem hann fer einungis ákveðnar ferðir, auk þess sem vissir kaflar í ám eru friðaðir. Það væri miklu fremur ástæða til að takmarka veiðina meir en nú er heldur en að rýmka til. Sem betur fer er það stöðugt að færast í það horf, að eingöngu verði leyfð stangarveiði í ám, enda væri allt annað að stíga spor aftur á bak.