29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (4680)

116. mál, vegalagabreyting

Flm. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í grg. með þessu frv., þá er það flutt samkv. beiðni hreppsnefndaroddvitans í Öxarfjarðarhreppi. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það. Þetta er ekkert stórmál, en getur þó verið dálítið þýðingarmikið fyrir suma hreppa á landinu, þar sem mikið er af hreppavegum. Og í Öxarfjarðarhreppi er mikið af þeim.

Það gjald, sem nú er greitt af hverjum verkfærum karlmanni í sveit til endurbóta á hreppavegum, er nú heimilt að hafa hæst 5 kr. á mann, en var fyrst 2 kr. Þetta fyrirkomulag er orðið mjög úrelt. Upphaflega var þetta vinnukvöð, þannig að hver verkfær karlmaður skyldi vinna einn dag kauplaust að endurbótum á hreppavegum á ári. Síðar var þessu breytt þannig, að menn gátu leyst sig frá þessari kvöð með því að borga 2 kr. gjald, sem síðar var hækkað í 5 kr., og þetta mun hafa verið venjulegt dagkaup, fyrst 2 kr. og síðar 5 kr. En eins og allir sjá, er þetta eftir núgildandi peningaverði orðið svo lágt gjald, að það skiptir í raun og veru ákaflega litlu, hvort gjaldið er greitt eða ekki. En þó svo færi, — sem ég þó vona, að ekki verði, — að hv. þm. samþ. ekki þetta frv., þá held ég, að það væri réttara að fella gjaldið alveg niður, því að það borgar sig varla að innheimta gjald, sem af hverjum manni nemur ekki nema 45–50 mínútna vinnu. Það verður lítið unnið fyrir það.

Þetta er ákaflega einfalt mál, og ég vona, að hv. þm. fallist á að heimila hreppsn. að ákveða hreppavegagjaldið fyrir eitt ár í senn, samkv. því, sem lagt er til í þessu frv., þar sem það á við. Það eru að vísu til hreppar á landinu, þar sem engir hreppavegir eru og þess vegna er þetta haft í heimildarformi, en ekki ákveðið þannig, að það sé skyldugreiðsla, því að ekki er miðað við, að þetta verði skylda annars staðar en þar, sem hreppsn. sjá ástæðu til þess að leggja þetta gjald á. Ég veit t. d. um einn hrepp í Mýrasýslu, þar sem enginn hreppavegur er til, og það væri ósanngjarnt að ákveða, að hreppsbúar þar borguðu hátt hreppavegagjald. Þess vegna er þetta í heimildarformi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en óska þess, að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til hv. samgmn.