13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (4704)

140. mál, nýbyggingarráð

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., stendur í nánu sambandi við næsta dagskrármál, sem ræðir um breyt. á l. um fiskveiðasjóð Íslands. Allar umr., sem um þetta mál kunna að snúast, munu því í sjálfu sér vera bundnar hinu síðara frv. Ég tel því síður ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Það er, ef svo mætti segja, afleiðing af þeim till.; sem gerðar eru í frv. um fiskveiðasjóð. Annars er þetta mál flutt af sjútvn. fyrir tilmæli atvmrh., eins og raunar einnig síðara málið. En í höndum hans og ríkisstj. í heild var málið undirbúið af nýbyggingarráði. Á síðasta þingi var sú hugmynd staðfest að leggja til hliðar ákveðna fjárhæð, sem skyldi varið til kaupa á framleiðslutækjum og til nýsköpunar atvinnulífsins, samkv. nánari ákvörðun nýbyggingarráðs. Þessi hugmynd var formlega viðurkennd, þegar l. um að taka 300 millj. kr. frá í þessu skyni voru sett af Alþ. Þótt það yrði ofan á, að ekki var lagt meira til hliðar en hér um ræðir, þá er það vitað, að uppi voru raddir í þjóðfélaginu, og komu þær opinberlega fram, sem töldu þetta fé ætti að vera allmiklu meira en raun varð á. Nú er það svo, að 1. gr. l. um nýbyggingarráð gerir ráð fyrir því, að á sérstakan reikning sé lögð þessi upphæð, sem ég nefndi. Það dróst lengi að leggja þetta fé til hliðar, en nú er það búið. Frv. það, sem hér liggur fyrir, vill gera þá breyt. á þessari 1. gr. l., að við hana bætist: „Reikningur þessi nefnist nýbyggingarreikningur, og skal hann færður sem sérstakur eignarliður á efnahagsreikning seðladeildarinnar.“ — Svo kemur 2. gr.: „Seðladeildinni skal skylt, gegn ríkistryggðri innieign hjá þeim stofnunum, er með sérstakri löggjöf er falið að sjá atvinnuvegum landsmanna fyrir lánum til kaupa á atvinnutækjum erlendis, að lána þeim íslenzkan gjaldeyri í réttu hlutfalli við þá gjaldeyrisnotkun úr nýbyggingarsjóði, er leiðir af lánum þessara stofnana.“

Gert er ráð fyrir, að þessi lán, sem seðladeildin veitir þessum stofnunum, séu tryggð af ríkinu og seðladeildin sé alltaf ríkistryggð fyrir því fé, sem hún leggur fram í þessu skyni. — Enn fremur segir svo í sömu gr. þessa frv.: „Lán seðladeildarinnar sé sem næst sami hundraðshluti af beinni gjaldeyrisnotkun við kaup framleiðslutækjanna og lán stofnananna nema af heildarframkvæmdum þeim, sem lán eru veitt til.“ — Í b-lið sömu gr. frv. segir: „Vextir af hinum ríkistryggðu innieignum skulu vera 0,5% hærri en meðalvextir af hinum erlendu innstæðum nýbyggingarreiknings á því almanaksári, er lánið er veitt, þó aldrei lægri en 1,5%.“ — Þetta hefur breytzt dálítið í meðförum af eðlilegum ástæðum, síðan nýbyggingarráð gerði sínar frumtill. til ríkisstj. Nýbyggingarráð hafði í sínum till. miðað við, að erlendu innistæðurnar væru á einhverjum vöxtum. En nú hefur svo skipazt, eftir því sem mér er hermt, að einhver hluti — jafnvel mikill hluti — erlendu innstæðnanna sé nú á engum vöxtum. Þess vegna er ekki hægt að miða eingöngu við prósenttölu, sem er hærri en hinir erlendu vextir, sem í sumum tilfellum eru engir. Þess vegna varð að setja ákvæði um lágmark slíkra vaxta, sem seðladeildin fengi hjá innlendum lánsstofnunum, og þá var ákveðið 1½%.

Ég held, að bezt sé að orðlengja ekki frekar um þetta mál, því að það yrði í öllum aðalatriðum það sama og það, sem ég mundi segja til framdráttar máli því, sem kemur hér á eftir. Það yrði þá að endurtaka það í umr. um frv. um fiskveiðasjóðinn, sem er, eins og áður er sagt, nátengt þessu máli. Og þessi frv. hljóta því að verða nokkurn veginn samferða.

Það er fullt samkomulag um, að sjútvn. athugi þessi mál milli umr. Vildi ég því mælast til, að málunum yrði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr., og legg ég þann skilning í það, að frekari athugun á þessum frv. fari fram í sjútvn. milli 1. og 2. umr.