13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (4705)

140. mál, nýbyggingarráð

Eysteinn Jónsson:

Á dagskránni í dag eru tvö frv., sem hanga að nokkru leyti saman. Það er frv. um nýbyggingarráð og frv. um fiskveiðasjóð. Mér þykir fara bezt á að ræða bæði þessi frv. í senn og skýra þá um leið, af hverju ég er ekki flm. að þessu frv., heldur að hinu. Vænti ég, að hæstv. forseti leyfi mér að ræða bæði málin nú þegar.

Vil ég þá fyrst ræða um það, sem nú er kallað fjárfesting. Eins og kunnugt er, eru nú uppi miklar áætlanir um framkvæmdir hjá útveginum, bæði um bátakaup og fiskiðnað. Til þessa þarf mikið fjármagn. Sama er að segja um landbúnaðinn. Þar er þörf lánsfjár til aukinnar ræktunar, áhaldakaupa og bygginga. Ef við litum á aðrar framkvæmdir, má t. d. minna á raforkumálin, sem munu nema tugum milljóna. Sömuleiðis samgöngumál, vega, brúa og hafnargerðir. Nú síðast í dag er lagt fram frv. um eina vegarlagningu, sem á að kosta um 20 millj. kr. Til alls þessa þarf stórkostlegar lántökur, og er okkur nokkur vandi á höndum, því að þótt við eigum mikið fé, þá er takmarkað, hvað hægt er að gera á stuttum tíma.

Út af þessu vil ég taka fram, að það er illa farið, að ekki skuli hafa verið gerð áætlun um, hvað hægt er að framkvæma með því fé og þeim vinnukrafti, sem hægt er að komast yfir. Margir höfðu ætlað, að nýbyggingarráð mundi láta gera slíka áætlun. Úr því hefur þó ekki orðið. Starf þess hefur hnigið í aðra átt, eða að því að útvega einstök tæki o. fl., og skal það ekki rætt hér, en ljóst er, að slíka áætlun hefði þurft að gera, og jafnframt er nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir, hvernig fjár verður aflað til þessara framkvæmda og kaupa, en til alls þessa þarf mestpart lánsfé. Þetta hefur verið látið undir höfuð leggjast. Og nú er búið að festa kaup á miklu af tækjum án þess að menn hafi aðstöðu til að gera upp við sig, að hverju má ganga í þessu efni. Ég vil aðeins láta þetta koma fram, þó að ég sjái ekki ástæðu til að halda um þetta neinn eldhúsdag. En það er nauðsynlegt, að menn geri sér ljóst, að hér er nokkur vandi á höndum og þessi mál eru nokkuð seint á ferð og mega ekki tefja úr þessu.

Um það atriði, hvernig á að afla lánsfjár, þá ber fyrst að athuga, hversu fjárfrekar framkvæmdirnar eru og bjóða síðan út lán og ákveða þá fyrirfram, hvaða lán verða boðin út. Það sjá allir, hve hættulegt er að láta keppa um féð á frjálsum markaði. Gert er ráð fyrir, að fiskveiðasjóður hafi til ráðstöfunar 120 millj. kr., en ekki eru fyrir hendi neinar skýrslur um, á hverju þessi upphæð er byggð. Á þessu fæst kannske skýring við athugun málsins í n.

Með þessu frv. er enn þá augljósara, hve mikil þörf er heildarathugunar, sem fjáröflun í þessu skyni hlýtur að byggjast á. Ég geri ráð fyrir, að erfitt muni að fá sæmileg lán hér innanlands og þurfi þess vegna að grípa til sérstakra ráðstafana til að afla fjárins. Nú tel ég það neyðarúrræði að skylda þjóðbankann til að veita löng og stór lán. Undanfarið hefur verið mikil þörf fjár í stríðslöndunum, en ég held þó, að þar hafi yfirleitt verið reynt að komast hjá að skylda þjóðbankana til að veita slík lán, og hafa þar einkum verið farnar tvær leiðir. Annars vegar hafa verið boðin út lán af miklum krafti til að fá menn til að láta fé af hendi, og hins vegar hefur verið gripið til þess að taka lán í þjóðbönkunum til skamms tíma. Hefur þessi leið verið valin til að raska ekki hagkerfunum og koma í veg fyrir viðskiptaörðugleika.

Ég álít, að við eigum í lengstu lög að reyna að fara þessar leiðir. Í öðru lagi væri reynandi að fá menn til að kaupa skuldabréf og bjóða þau út með miklu harðfylgi. Ríkisstj., sem telur sig hafa mikið fylgi, ætti að bjóða þetta út sem nýsköpunarlán og skírskota til þegnskapar manna að kaupa slík ríkistryggð skuldabréf. Þetta er leið, sem ég bjóst við, að nýbyggingarráð og ríkisstjórn mundu fara, og vil ég í því sambandi skírskota til þess, að í stjórnarsamningnum er talað um skylduþátttöku manna í fyrirtækjum. Að vísu er þar ekki bent á útboðsleiðina, en hún liggur þó beint við og mundi vafalaust fær, ef stjórnin tæki jafnframt kontrol á lánamarkaðinum. Komið getur til mála að semja um hluta af þeim lánum, sem þarf, en í hinu er augljós hætta, að skylda þjóðbankann til að veita slík stór lán.

Við getum hugsað okkur að setja þetta dæmi þannig upp: Á móti innstæðum okkar erlendis standa eignir manna hér. Nú er það auðsætt, að sé hinn erlendi gjaldeyrir notaður án þess að festa jafnframt það fé, sem menn eiga hér inni, getur svo farið, þegar eftirspurn eftir því fé eykst, að auka verði seðlaveltuna, og yrði þá hálfu verra að láta verðbólguna sjatna.

Ég endurtek, að ég tel leið þessa varhugaverða og l. óþörf og ekki undir nokkrum kringumstæðum skynsamlegt að ganga þessa braut. Það er óskynsamlegt að fara að bjóða út lán fyrir nýbyggingarráð og það með miklu lægri vöxtum, ef annað dugir ekki, og semja þá um viðbótarlán við bankana. Ég dreg ekki í efa, að bankarnir mundu lána talsvert fé með aðgengilegum kjörum. Menn mega ekki leggja árar í bát allt of snemma. Ég held, að menn séu þeirrar skoðunar, að það þýði ekkert að bjóða út lán, menn kaupi ekki bréfin. Íslendingar eru óvanir að kaupa skuldabréf. Nú hafa tímarnir breytzt mikið, nú er mikið til af lausu fé, og því hefði átt að reyna það, hvort þjóðin vildi ekki kaupa ríkisskuldabréf fyrir sparifé sitt. Ég er meira að segja hissa á, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki fara þessa leið. Þarna gafst henni tækifæri á að vekja athygli á nýsköpunaráformum stjórnarinnar.

Ég vil nú ekki tefja þessar umr. með of löngu máli, en ég vil þó leyfa mér að spyrjast fyrir út af því, sem stendur í grg. frv.: „Ríkisstjórnin er sammála um, að tryggja beri sjávarútveginum stofnlán með hagkvæmum vaxtakjörum. Hins vegar er ágreiningur innan stjórnarinnar um það, á hvern hátt afla skuli lánsfjár í þessu skyni. Mun verða reynt að ná samkomulagi um það, meðan þingið fjallar um málið.“ — Auðvitað verður mál þetta athugað gaumgæfilega í sjútvn. deildanna, en æskilegt væri að fá að vita, hvaða úrræði hv. stuðningsmönnum stj. hafa dottið í hug. Ég lýsi því yfir, að við stjórnarandstæðingar erum fúsir til samvinnu um þetta mál og að ræða þær leiðir, sem til greina koma að afla fjárins, enda verður mál þetta ekki afgr. fyrr en eftir þinghléið. — Þó að ég hafi bent á aðrar leiðir en frv. gerir ráð fyrir, ætlast ég ekki til, að um þær verði neinar kappræður, heldur vildi ég aðeins sýna aðrar brautir.