13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (4708)

140. mál, nýbyggingarráð

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, taldi ég það heppilegra fyrir margra hluta sakir, að þessu máli yrði komið til n., áður en rætt yrði um fiskveiðasjóðinn. — Umr. hafa nú farið nokkuð á víð og dreif og einnig út á nokkuð aðra leið en bein málefni stóðu til, en þó hafa umr. verið í alla staði hóflegar. Ég vildi því mega segja hér nokkur orð.

Ég vil biðja hv. 2. þm. S.-M. afsökunar á Því, er ég sagði í síðustu ræðu, að sjútvn. flytti bæði þessi frv. Það er aðeins meiri hl. sjútvn., sem flytur þetta frv., sem er til umr., en ekki öll n. Það er alveg rétt, að í l. um nýbyggingarráð er talað um heildaráætlun og aðalverkefni. Að vísu er unnið að þessu jafnt og þétt, en þetta er verk, sem lengi er hægt að sitja yfir, og ef allar framkvæmdir ættu að bíða eftir, að því yrði lokið, er ég hræddur um, að einhver yrði langleitur.

En nýbyggingarráð hefur fleiri verk að inna af höndum en staðsetja vélar og tæki og hafa milligöngu um kaup. Nýbyggingarráð telur það hlutverk sitt að taka tillit til óska og fyrirspurna, sem því berast. Ég vil játa það, að þrýstingurinn á ráðið utan frá hefur verið svo mikill, að ráðið hefur orðið að verja miklu af tíma sínum til að veita ýmsar upplýsingar varðandi vélar og skip. Þessi þrýstingur hefur kallað eftir afgreiðslu á þeim. Þess vegna hefur ráðið ekki getað „planlagt“ fyrir sig eins og skyldi. En það virtist mér hv. 2. þm. S.-M. leggja aðaláherzluna á, að til væri 5 ára áætlun. Auðvitað væri það bezt. En þótt gagnrýni sé nú beint að ríkisstj. og nýbyggingarráði í dag fyrir það að hafa ekki lokið við áætlanir sínar á öllum sviðum, áður en ráðizt er í að veita fyrirgreiðslur á framleiðslutækjum, þá hygg ég, að gagnrýnt hefði verið eigi að síður, þótt áætlanir hefðu verið gerðar, en þá dálítið á annan veg. Gagnrýni hefði alveg eins komið fram, þótt nýbyggingarráð hefði setið í skrifstofu sinni og gert áætlanir um fiskiskip, flutningaskip, vélar til landbúnaðar o. fl. Þá hefði tæplega verið hægt annað en áfellast okkur, ef við hefðum ekki sinnt fyrirspurnum um atvinnutæki og annað slíkt. Og í sambandi við það vil ég vísa til þess, sem nýbyggingarráð hefur komið fram með og talað var um í eldhúsdagsumr. Hér er um afskaplegt átak að ræða, gerð kaup á fjölda mótorbáta, flutningaskipa og togara, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það hér. Allar þessar framkvæmdir hefur þjóðin heimtað, hún hefur viljað fá þetta framkvæmt. Fiskimennirnir hafa ekki spurt: Hvaða áætlun hafið þið í huga? Þeir hafa sagt: Ég hef í huga að kaupa fiskibát, skip eða vél, innanlands eða erlendis frá. Þessar óskir hafa verið um aðgerðir, en ekki áætlun. Þessar óskir um aðgerðir hafa því takmarkað störf nýbyggingarráðs, og því hafa störf okkar meira miðazt við það að greiða úr fyrirspurnum um þessi mál en undirbúa áætlanir. Og þó að hv. 2. þm. S.-M. segi, að hin réttu l. ættu að sitja í fyrirrúmi, þá er ég viss um það, að við erum báðir sammála, að óskir manna og vilji þjóðarinnar verður að hafa sín áhrif. En í sambandi við allar þessar viðræður í nýbyggingarráði um útvegun framleiðslutækja til sjós og lands hefur ætíð verið spurt: Hvernig verður með lánin? Hvað ætlið þið að gera? Óskir manna um fyrirgreiðslu á útvegun tækja og ábending um nauðsyn hefur farið saman, og enn fremur hefur borið á góma að útvega mönnum aðgang að ódýrum stofnlánum með hagkvæmum vaxtakjörum. Það er þetta, sem kom okkur til að gera till. til ríkisstj. um útvegun á lánsfé. Ég veit vel, að okkar till. í því efni hafa sætt gagnrýni hjá þjóðbankanum, en þó ekki meiri en svo, að í fyrsta bréfi hans var öll gagnrýni hans dregin saman í 7 punkta, en enginn þeirra var sama eðlis og það, sem hv. 2. þm. S.-M. lagði áherzlu á, — sem sé hækkun á verðbólgu vegna till. nýbyggingarráðs. Hv. þm. sagði, að það væri byrjað á öfugum enda að framfylgja því ætlunarverki, sem 1. um nýbyggingarráð gera ráð fyrir. En það þýðir það, að hann álítur, að það sé byrjað á öfugum enda, þegar byrjað er á framkvæmdum, áður en áætlanir liggja nákvæmlega fyrir. Honum finnst, að það sé að byrja á öfugum enda að útvega vélar og skip. E. t. v. má um þetta deila, en nýbyggingarráð hefur valið þetta hlutskipti, þó að það liggi undir ámæli hjá einhverjum fyrir að hafa byrjað á öfugum enda og leggja sem mest lið til útvegunar báta og fyrirgreiðslu með flutningaskip og láta það ekki bíða eftir, að lokið væri öllum áætlunum um nýbyggingar víðs vegar á landinu og fyrir þjóðina í heild. Nýbyggingarráð leit svo á og lítur svo á enn í dag og sér nú miklu skýrar en hægt var að koma auga á í fyrstu, að rétt hafi verið að hefjast þegar handa um útvegun framleiðslu- og flutningatækja, enda er það í samræmi við óskir þeirra, sem til okkar hafa komið. Ég held, að það sé því hæpin fullyrðing hjá hv. þm., að þarna sé byrjað á öfugum enda. Við höfum ekki vanrækt hitt hlutverkið, og ég veit, að því er enn ekki lokið af okkar hálfu, en eftir því, sem frá hefur liðið, held ég, að fleiri og fleiri hafi séð, að það var rétt að byrja þegar í stað að leggja kili að skipum og útvega á annan hátt framleiðslutæki. Því fyrr sem byrjað var á því, því fyrr koma þessi tæki mönnunum í hendur, og að því er fiskiskipin snertir sérstaklega, þá vita það allir, og ég geri ráð fyrir, að hv. 2. þm. S.-M. hljóti að hafa á því svipuð skil og ég, að fiskiskipin hafa þeim mun betri horfur á að skila afborgunum og arði í hönd þeirra, sem þau reka, því fyrr sem þau geta komizt í þjónustu landsmanna, eins og viðhorfið er nú á sviði matvælaöflunar yfirleitt og eins og markaðshorfur eru nú með fisk. Þetta vildi ég sagt hafa um þann öfuga enda, sem hv. þm. orðaði það svo. Nú er svo komið, að ef við t. d. hefðum beðið með alla samninga þangað til í dag að festa þessa togara, þá væri það í stað þess, að togararnir eiga að koma frá því í nóvember 1946 til jafnlengdar 1947, að áreiðanlega væri óhætt að stilla vísinn eitt, ef ekki tvö ár aftur á bak, því að svo mikil eftirspurn hefur verið eftir plássi á skipasmíðastöðvunum, bæði þegar samið var um þessi skip og hefur farið vaxandi síðan, og þess vegna held ég, að hafi verið, — ég er alveg sannfærður um það nú, að það hefur verið rétt spor stigið um Svíþjóðarbátana af fyrrv. stj. og eins af núv. hæstv. stj. um togarana og önnur skip og það hafi ekki verið eftir betra að bíða, og vonin um, að það geti orðið til hagnaðar fyrir þjóðina, sé ekki sízt bundin við það, að skipin komi til landsins og geti farið að vinna fyrir sér, áður en of mikið framboð verður á ýmsu því í markaðslöndunum nú, sem nú er lítið framboð á eða minna framboð á og þess vegna hærra verð.

Hv. þm. lagði að minni hyggju fullmikla áherzlu á það, hvað skarð í heildaráætlunina væri til mikils trafala, vegna þess líka, að allir vita það, að þó að oft megi segja, að allt sé í heiminum hverfult, þá er sá hverfulleiki jafnvel meiri nú en hann hefur oft verið áður. Það er flest vafið í reyk um skipun mála, ekki einasta hér, heldur og annars staðar, og áætlanir, sem gerðar eru í dag og geta verið á fullri skynsemd byggðar og tillit tekið til allra aðstæðna, sem kunnar eru, geta reynzt algerlega ótryggur grundvöllur að byggja á eftir nokkra mánuði, að ég ekki segi nokkur ár, svo að við megum þess vegna ekki líta of mikið á eintómar áætlanir og of smáum augum á raunverulegar aðgerðir, eins og mér fannst hv. þm. hafa tilhneigingu til.

Hann talaði um, að með frv. um breyt. á l. um nýbyggingarráð, sem hér liggur fyrir, þar sem farið er fram á, að skylda sé lögð á hendur Landsbankanum, væri gengið út á óvenjulega leið. Það skal játað, að það er rétt, sem hv. þm. sagði í því efni, það er óvenjuleg leið. En ég vil um leið benda á, að það er óvenjulegt tiltæki í framkvæmd í þessu efni, hin svokallaða nýsköpun hér á landi, ekki einasta hjá einstaklingunum, heldur líka hjá ríkisstj. sjálfri. Það er óvenjulegt, að ríkisstj. festi kaup á jafnstórum flota af nýtízku togurum og hér hefur átt sér stað, og ég hika ekki við að fullyrða, að ef miðað er við mannfjölda, þá mun það vera eitthvert hið stærsta tilþrif til framfara og atvinnubóta, sem nokkur ríkisstj. hefur gert fyrir eina þjóð með einum samningi. Þegar þess vegna er talað um þetta, sem er rétt, að hér sé gengið út á óvenjulega leið, þá hélt ég réttlætisins vegna, að menn ættu að hafa í huga, að það er óvenjulega stórt átak, sem hér þarf að hlaupa undir bagga með.

Hv. þm. minntist á aðrar leiðir í þessu efni, og ég skal á engan hátt bera á móti, að hans till. í því efni séu vel athugunarverðar, en hvorug þeirra er í rauninni frumleg. Hin fyrri, útboð ríkistryggðra skuldabréfa, er þegar fyrir hendi í till. nýbyggingarráðs í því máli, sem hér er næst á eftir dagskrá, frv. til l. um efling fiskveiðasjóðs. Þar er gert fyrir lánum, sem eru skuldabréfalán, en vitaskuld er ekki gert ráð fyrir opinberu útboði á þeim. Ég hygg líka, að það muni reynast svo, að þrátt fyrir þau lánskjör, sem nýbyggingarráð hefur gert ráð fyrir og munu þykja alltof rímileg, þá muni flestir þeirra, ef ekki allir, sem í stór fyrirtæki ráðast nú í dag, þurfa að grípa til annarra leiða, annaðhvort sinna eigin fjármuna eða fá að láni viðbótarfé hjá öðrum til þess að geta staðið undir fyrirhuguðum kaupum sínum, jafnvel þó að till. nýbyggingarráðs gangi fram hvað lánsfjárútvegun snertir.

Hin leiðin, sem hv. þm. benti á, að semja við bankann eða bankana um fé í þessu skyni, mun líka hafa borið á góma, ekki í sölum Alþ., heldur í sambandi við þetta mál. En henni fylgir sá, sérstaki ágalli, að þá yrði sami lántakandi að parti til skuldunautur fiskveiðasjóðs og að parti til skuldunautur einhvers banka, sem lánaði honum út á svipað veð. Þó er ekki þar með sagt, að þessar leiðir séu ekki athyglisverðar hvor fyrir sig og kannske í stærri stíl en upp á þeim hefur verið stungið, en það kemur þá til umr. í n., sem við eigum báðir sæti í, hvort hollt verði að fara þessar leiðir í stað þeirra, sem frv. stingur upp á.

Þegar við vorum að leggja niður fyrir okkur frumdrögin að þessu, sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, að því er snertir fjáröflunina, þá var sennilega sama hugsunin ríkjandi í hugum okkar og verið hefur í hugum landsmanna yfirleitt, að þjóðin ætti nú í fyrsta sinn í lífi sínu miklar erlendar innstæður, og Alþ. hefur ákveðið að binda hluta af þessum erlendu innstæðum til öflunar framleiðslutækja fyrir framtíðina með það fyrir augum, að þjóðin væri betur víggirt gegn atvinnuleysi í framtíðinni, — ég segi, þegar við vorum að hugsa um þessi mál og við það bættist, að á okkur var mjög sótt af ýmsum þeim, sem hafa hug á því að hefjast fljótt handa í þessum efnum, þá virtist okkur það vera hugsanleg og ekki óeðlileg leið, að innlendu framtaki væri opnuð leið að því að fá lánaðar þessar erlendu innstæður að parti til sinna áhugamála, m. ö. o., að reynt yrði að breyta þessum erlendu innstæðum í framleiðslutæki til notkunar innan lands. Fyrsta uppástungan í þessu efni var það, að lánuð væri íslenzkum aðilum fyrir milligöngu seðladeildarinnar erlend valúta, vitaskuld með lánskjörum, sem samsvöruðu því, sem væri sanngjarnt, sérstaklega miðað við það, að þessi erlendi gjaldeyrir væri lánaður í bönkum ytra fyrir litla vexti. Þetta hefur verið meginhugsunin í þessum lánafrv., að fá þennan hluta, sem Alþ. hefur ákveðið, að binda skuli til kaupa á vélum og framleiðslutækjum, að fá hann yfirfærðan á hendur réttra íslenzkra aðila, náttúrlega fyrir milligöngu lánsstofnana innan lands, en þessi hugsun, sem mátti kalla svona byrjun á þessu, fékk þó á sig nægilega gagnrýni til þess, að við sáum, að breyta þurfti þessu svo, að það, sem lánað væri hinum innlendu aðilum fyrir milligöngu seðladeildarinnar, væru íslenzkir peningar, en ekki erlendur gjaldeyrir, enda er frv. líka í því formi.

Ég skal ekki mikið fara út í þá gagnrýni, sem Landsbankinn hefur látið þessar till. sæta, vegna þess sérstaklega, að bréf Landsbankans, sem gagnrýnir þessa lánshugmynd eða þá hugmynd nýbyggingarráðs og andsvör nýbyggingarráðs við gagnrýni Landsbankans, er nú í höndum hvers einasta þm., svo að hver og einn hefur aðgang að því að kynna sér allt það, sem skrifað hefur verið á móti málinu, og þær varnir, sem af hálfu nýbyggingarráðs hafa verið fram færðar og eru til að styðja málstað þessa frv.

Að því er snertir þá fyrirspurn, sem hv. 2. þm. S.-M. beindi til mín eða setti fram um það, hvaða ágreiningur það væri, sem væri nú ríkjandi um fjáröflunarleiðirnar, þá skal ég aðeins leyfa mér að vísa um það til hæstv. ríkisstj., með því að það er fram tekið í grg., að það er innan hennar, sem ríkir ágreiningur um fjáröflunarleiðirnar, og það er hún, sem ber að svara og leysa úr spurningu hv. þm., ef henni virðist það rétt. En ég vil f. h. þeirra, sem upphaflega hafa staðið að þessu máli, benda Alþ. og n., sem fær mál þetta til meðferðar, á það, að í okkar augum er það ekki höfuðatriði málsins, hversu fjárins er aflað, heldur hitt, að þetta lánsfé verði fyrir hendi og verði vaxtað eins og við höfum stungið upp á og að með þessum forsendum eigi íslenzkir aðilar aðgang að þeim lánum, sem við höfum í öðru frv. leyft okkur að stinga upp á, að opnuð yrðu fyrir þá.

Hv. þm. Borgf. gerði fyrirspurn um, hvort þörf væri á tveimur frv. og hvort það væri ekki um sömu peninga að ræða í 4. gr. frv. um fiskveiðasjóð Íslands, sem kemur hér á eftir, og þá, sem ræðir um í 2. gr. frv. á þskj. 314, sem hér liggur fyrir. Ég vil svara þessu og segja: Jú, það er að vísu svo, að það er sama féð, sem gert er ráð fyrir, að fiskveiðasjóður fái. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þótt hér sé ekki að ræða um nema eina stofnun, þá getur verið að ræða um aðra, eða m. ö. o. um fleiri en eina stofnun, því að í nýbyggingarráði hafa líka verið til umr. og má segja í smíðum till. um lán til hins aðalatvinnuvegar landsmanna, og það gæti farið svo, að honum yrði líka ætlað að eiga einhvern stuðning frá þjóðbankanum á svipaðan hátt eða eftir sömu grundvallarreglum eins og um er að ræða í frv. um fiskveiðasjóð Íslands. Ég ætla því. að ég hafi með þessu leyst úr þeirri gátu, ef það hefur verið gáta hjá hv. þm., að einmitt af formlegum ástæðum var nauðsynlegt, að það væri sérstakt frv. til breyt. á l. um nýbyggingarráð í þessu efni, og að það fullnægði ekki þeim fyrirætlunum, sem eru í ráði, að binda það eingöngu við fiskveiðasjóð Íslands. Þetta vona ég, að sé nægilega skýrt, því að það geta orðið sem sé fleiri lánsstofnanir en fiskveiðasjóður Íslands, sem þurfa á einhverjum aðgerðum að halda, sem gætu orðið til að veita viðskiptavinum þeirra aukið lánsfé.

Þá var fyrirspurn frá hv. 2. þm. N.-M. um frv., og sagði hann, að það væri undarlegt, að verið væri að skora á menn o. s. frv. Ég get ekkert að því gert, upp á hverju þeir finna, sem skora á hv. þm., en hann er nú það skýr maður, að hann ætti að geta sagt sér það sjálfur, að hafi verið skorað á hann að fylgja fram einhverju frv. frá nýbyggingarráði um einhver lánskjör handa sjávarútveginum, þá liggur það nokkuð augljóst fyrir, að það er það frv. eða þau frv., sem hér liggja fyrir, því að um bæði þeirra er þess getið í grg., að þau séu samin af nýbyggingarráði, svo að ég vona, að fylgi hv. þm. við þetta mál þurfi ekki að fara forgörðum af misskilningi.

Hv. þm. Borgf. gerði og eina fyrirspurn, sem sé varðandi það, hvers vegna í því frv., sem hér liggur fyrir, væri felld úr ein tekjuöflunarleið, sem er í l. um fiskveiðasjóð Íslands. Það er eðlilegt, að hv. þm. spyrji að því, og ég skal skýra frá því, að í því upphaflega frv., sem nýbyggingarráð sendi ríkisstj., þ. e. a. s. í till. sínum til ríkisstj. var ekki gert ráð fyrir af nýbyggingarráði, að neinir tekjustofnar, sem eru í l. fyrir fiskveiðasjóð, féllu niður. En áður en ráðh. lagði þetta mál fyrir Alþ., leitaði hann upplýsinga um það hjá nýbyggingarráðsmönnum, a. m. k. flestum, hvort við gætum ekki fallizt á einstakar minni háttar breyt., áður en það væri lagt fram, og ég fyrir mitt leyti féllst á það, þar á meðal, að þessi 1/8%, sem fiskveiðasjóður fær nú, yrði felldur niður. Hæstv. ráðh. sagðist þurfa á þessum litla tekjustofni að halda, sem hefur að vísu verið dálítill, en þó ekki bústinn tekjustofn fyrir fiskveiðasjóð, til að standa undir kostnaði, sem ég satt að segja man ekki í bili, hver var, hvort það var í sambandi við fiskimálasjóð eða eitthvað annað, en viðvíkjandi sjávarútveginum var það samt, og ég fyrir mitt leyti vildi ekki gera það að ágreiningsatriði, en það verður hægt að fá það upplýst nákvæmlega, það mál verður athugað í sjútvn. aftur, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. muni eins og ég, þegar hann heyrir ástæðuna fyrir því, geta sætt sig við það atriði, því að það er ekki í mínum augum svo mikið atriði, að ég vildi tefja fyrir, að frv. yrði lagt fram af þeim ástæðum. Því að það er út af fyrir sig ekki svo í mínum augum, að ég vilji fyrir nokkurn mun tefja fyrir málinu, enda er sjálft frv. lagt fram af þeim ástæðum. —Skal ég svo ekki fjölyrða meira um þetta í bili.

Það verður sjálfsagt hægt að deila lengi um þessa fjáröflunarleið. Ég sé, síðan við tókum málið til meðferðar, að það er ósköp líkt með það eins og hagfræðinga og lögfræðinga, að þeir líta ekki alltaf sömu augum á silfrið. Þeir virðast hafa mismunandi sjónarmið, og oft á tíðum á það sér stað, að annar hópurinn álítur það gott og gilt, sem hinn telur vafasamt eða jafnvel ótækt. Hins vegar verður ekki hjá því komizt, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. verða að finna leið í þessu máli. Það er ekki hægt að vinna að svo stórkostlegum nýsköpunaráformum sem hér er unnið að og þing og stjórn hafa verið sammála um að láta fylgja fram, án þess að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja framgang þeirra. Það getur verið, að sumir vilji minni hraða í framkvæmdunum, aðrir vilji meiri hraða, og sér í lagi getur það vel verið, þegar menn standa gagnvart einhverri staðreynd eða verklegum framkvæmdum, að þá hafi stjórnarandstaðan sérstaklega dálitla tilhneigingu til að segja: Það þurfti að gera þetta strax. Það mátti ekki gera þetta fyrst. Það mátti selja alla togarana, áður en kaupin voru gerð eða um leið og þau voru gerð. Svona hlutir hljóta alltaf að koma fram, og er ekkert við því að segja. Hitt er vitað, að nú hefur verið, bæði af einstaklingum og af hálfu þess opinbera, stofnað til ákaflega mikilla kaupa á þessum framleiðslutækjum og öðrum tækjum til landsins, sem krefjast þess, að opnaðar séu allt aðrar gáttir og víðari framtaksmönnum í þjóðfélaginu, til þess að fá lánsfé með viðunandi kjörum til að geta staðið undir kaupum og rekstri tækjanna. Um þetta geri ég ráð fyrir, að við hljótum allir að vera sammála, þó að ýmsum þyki þessi leið betri en hin, og það verður þá verkefni sjútvn. að finna samkomulag í þessu efni fyrir Alþ. í heild eða meiri hl. þess, sem verður að leysa þetta mál. Hjá því verður ekki komizt.