14.12.1945
Neðri deild: 53. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (4712)

140. mál, nýbyggingarráð

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að það er í sjálfu sér ekki þörf á því fyrir okkur, hann eða mig, að rökræða mjög miklu meira en komið er í þessu máli, sem hér er á dagskrá. Við eigum báðir sæti í þeirri n., sem tekur það til meðferðar. Ég skal ekki heldur, vegna þess að ræða hv. þm. gaf ekki tilefni til margra aths. af minni hálfu, eyða of miklum tíma í það að tefja fyrir málinu með miklu skrafi. Við erum báðir sammála um það, að hlutverk nýbyggingarráðs sé hvort tveggja, að greiða fyrir ýmsum erindum, sem því berast um útvegun á ýmsum tækjum, og eins hitt, að vinna að heildaráætlun, og þetta hvort tveggja hefur verið tekið til meðferðar. En vitaskuld hefur ráðið orðið að láta undan, eins og ég sagði síðast, talsverðum þrýstingi, þannig að tími þess hefur farið, máske meira en sumir álíta góðu hófi gegna, í þessi störf, að standa í viðtölum við menn um framfaraáætlanir þeirra, hlusta á rök og slíkt fyrir veigaminni framförum á þessu stigi eða öðrum og heyra menn úr ýmsum pörtum landsins bera fram sín vandkvæði og þar í því sambandi haft nokkra viðleitni í frammi að hjálpa þeim. Þetta höfum við leitazt við að gera með samvizkusemi. Og með því að talsverð vinna hefur verið í það lögð að greiða fyrir þeim, sem til okkar hafa komið, getur hver maður skilið, að þetta getur tekið alla starfskrafta ekki stærri stofnunar, getur vel tekið þá alla, og í sumum tilfellum endist ekki fundartíminn og viðtalstíminn til að ráða fram úr slíkum efnum. Og svo er ekki fyrir það að synja, að segja má, að seta tveggja ráðsmanna á Alþ. auki ekki áhrifin á starfskraftana í ráðinu, eins og hvarvetna, þar sem menn eiga að sinna verkefnum á tveimur stöðum. En það hefur hingað til verið látið óátalið, að menn, sem eru í starfi, sitji líka á þingi, og er ekki neitt nýtt. Ég segi þetta ekki af því, að hv. þm. hafi gefið mér til þess tilefni, en ég get játað það, að það var meiri tími til að vinna að ýmsum störfum fyrir sjálft ráðið og hefði notazt miklu betur tíminn, sem þingið situr ekki. En að því er áætlunina snertir, vil ég fullvissa hv. þm. um það, að að henni er unnið, en það er þannig lagað, að það verður að taka sérplön, ef svo mætti segja, viðvíkjandi ákveðnum verkefnum.. Og að því er snertir þetta mál, þá veit ég, af hv. þm. geta skilið það, að það má mikið vinna bak við útbúnað frv. og þeirra skjala, sem að baki því liggja, þ. e. frv. um fiskveiðasjóð o. fl., sem er þessu fylgispakt.

Hv. þm. sagði réttilega, að sér fyndist, að það hefði átt að vera fyrsta verkefnið að sjá fyrir lánsfjáröflun og jafnvel lánsfjárveitingu í nýbyggingarráði. Það má nú kannske segja, að fyrsta verkefnið ætti að vera að skipuleggja og gera áætlanir, en inn í þær áætlanir mætti fella þessa lánsfjáröflun. Í sjálfum lögunum er ekki beinlínis kveðið svo að orði, að það sé verkefni nýbyggingarráðs að sjá fyrir útvegun lánsfjár. En því verður þó ekki neitað, að þau verkefni, sem því er falið að koma í framkvæmd, þau kalla samhliða, eins og viðurkennt er, á einhverja hugsun um það, hvort útvega megi fé til þessara hluta, jafnvel þó að tilefni gæfist ekki, eins og ég lýsti fyrr, svo að segja daglega í sambandi við fyrirspurnir og ábendingar þeirra aðila, sem ráða leita og vilja afla sér einhverra nýrra tækja. Þó að ekkert væri annað, gefa þær viðræður við ýmsa menn nægilegt tilefni, þó að hvergi væri annars staðar að finna, til að inna af hendi það verk, sem við höfum gert, einmitt í því skyni að benda á leiðir til lánsfjáröflunar og lánsfjárveitingar. En að því er snertir þetta frv., hnjóta margir um það, og þessi hv. þm. er ekki sá fyrsti, sem hnýtur um þetta skylduákvæði, eins og þar er komizt að orði í 2. gr., að seðladeildinni sé skylt að lána lánsstofnunum, sem sjá atvinnuvegunum fyrir peningum. En í þessu sambandi vildi ég vekja athygli á því, að í frv. til l. um nýbyggingarráð, eða réttara sagt í aths. við það, sem fram var lagt á síðasta þingi, segir, að fjár til þessara þarfa skuli, að svo miklu leyti sem það fæst ekki með sköttum, aflað með lántökum, e. t. v. skyldulánum. Það getur vel verið að í þetta megi eins leggja þann skilning, að skyldulána til framfara skuli afla beinlínis hjá þegnunum sjálfum. Mér er ekki vel ljóst, hvaða aðferð ríkisvaldið mundi geta haft í slíkum tilfellum, til þess að skylda Pétur og Pál til þess að leggja fram fé í atvinnufyrirtæki, sem þeir sjálfir eiga ekki frumkvæði að að stofna eða óska eftir að vera með í. Ég hef satt að segja aldrei getað skilið, að þetta væri farsælleg leið til úrlausnar. Það kann að vera leið til lausnar, en heppilega tel ég hana ekki vera. Ég er þvert á móti á þeirri skoðun, að þegar um atvinnufyrirtæki er að ræða, þá eigi þeir menn, sem hafa áhuga fyrir því fyrirtæki, sem um er að ræða, hvort heldur er til sveita eða það snertir útgerð eða iðnað, þá eigi þeir einstaklingar í þjóðfélaginu, sem vilja fórna starfi sínu og fjármunum, að hafa styrk til þess arna frá því opinbera, en ekki hitt, að menn, sem ekki láta í ljós neinn áhuga á að taka þátt í atvinnufyrirtækjum, séu skyldir til að láta fé af hendi í einhver fyrirtæki, sem þeim kannske er þvert um geð að leggja fram fjármagn til. En ég veit samt sem áður, að það er alveg rétt, að jafnvel þeir, sem hafa lagt blessun sína yfir þessa skyldulánahugmynd hjá einstaklingum, þeir hrökkva við, ef henni er ætlað að ná til stofnana eins og þjóðbankans.

Ég skal svo ekki þreyta öllu frekari umr. um þetta mál, en vil taka undir það, sem hv. þm. sagði um það óviðurkvæmilega í því, að hæstv. ráðherrar, — að ég ekki tali um þann hæstv. ráðh., sem þetta mál er flutt fyrir, skuli láta sig vanta í d., þegar jafnþýðingarmikið mál er um að ræða og hér er. Þetta er að vísu ekki alveg nýtt fyrirbrigði hér á hæstv. Alþ., að ráðh. láti sér fátt um finnast, þó að mikilsverð mál séu rædd, en því er ekki að neita, að mér sýnist sá misbrestur, sem verið hefur á í þessu efni, heldur fara vaxandi en minnkandi, og ég er sammála hv. þm. um það hvað ádeilu hans snertir í þessu efni, að ég tel þetta ekki miða að því að auka álit hins háa Alþ. hjá þjóðinni, heldur þvert á móti, ef þessi hæstv. stj. gerir sér það að reglu að vera fjarverandi jafnvel þegar hin þýðingarmestu mál eru rædd.