18.02.1946
Neðri deild: 69. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (4728)

170. mál, byggingareftirlit ríkisins

Flm. (Jón Pálmason) :

Eins og fram er tekið í grg., er frv. þetta flutt vegna þess, að komið hefur í ljós, að byggingareftirlit ríkisins er alveg ófullnægjandi, og játaði hv. 2. þm. S.-M. það svona hálfpartinn. Ég held, að eins og nú er, sé allsendis ófullnægjandi trygging fyrir því, að ekki sé meira opinberu fé en þyrfti eytt í byggingum. Það má um það deila, hvort stofnun þessi ætti að standa undir húsameistara ríkisins. En eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. S.-M., mætti ætla, að eins gott væri að skipta þessu.

Í Búnaðarbankanum er Teiknistofa landbúnaðarins, og á hana verðum við bændur að treysta, en það er engin trygging fyrir því, að eftirlitið með framkvæmdunum sé nógu gott.

Eins og fram er tekið í grg., eiga að vera tengsl við l. um byggingarsamþykktir í sveitum, þannig að fulltrúar byggingaeftirlitsins gætu um leið verið starfsmenn samþykktar héraðanna.

Varðandi það, sem hv. 2. þm. N.-M. spurði, hvort til þess sé ætlazt, að byggingareftirlitið hafi með höndum eftirlit með þeim byggingum, sem ríkið styrkir en ekki á, þá svara ég já. Varðandi það, hvort þetta væri ekki í mótsögn við eða rækist á l. um ættaróðul., þá er því að svara, að skv. l. um byggingarsamþykktir er beinlínis til þess ætlazt, að slíkt eftirlit sé haft. Varðandi það atriði, að kostnaðurinn af eftirlitinu leggist á byggingarnar er það að segja, að ég tel það mjög hagkvæmt fyrirkomulag. Þar gildir það sama og við hafnargerðir og því um líkt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira, en vænti skilnings hv. þm. á því, að hér er um mjög aðkallandi mál að ræða. Hér er farið fram á, að ekki sé stórfé kastað á glæ vegna tryggingar- og eftirlitsleysis.