01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (4737)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 451 um breyt. á ræktunarsjóðsl., er samið af nýbyggingarráði og flutt af landbn. þessarar d., sem hefur þó á því þann fyrirvara að mega fylgja þeim breyt., sem fram kunna að koma við frv.

Aðalbreyt., sem þetta frv. hefur að geyma, eru þær í fyrsta lagi, að samkv. 3. gr. er ætlazt til, að ríkissjóður leggi fram hálfa milljón á ári í næstu 10 ár til ræktunarsjóðs, og í öðru lagi, að Búnaðarfélag Íslands og nýbyggingarráð skuli í sameiningu gera rannsókn á núverandi ástandi og þróun landbúnaðarins og áætlanir um þær aðgerðir, sem nauðsynlegastar eru á næstu 10 árum, o. s. frv. eins og hv. þdm, geta séð í 4. gr. þessa frv.

Lán þau, sem hér er um að ræða og ræktunarsjóður á að veita samkv. þessu frv., er ætlazt til, að verði til talsvert víðtækari starfsemi en áður var samkv. l. eins og þau eru nú. Þau verkefni, sem sjóðnum eru ætluð, eru ákveðin í 5. gr. þessa frv. Samkv. henni veitir ræktunarsjóður stofnlán til jarðræktar, peningshúsa og geymsluhúsa og annarra mannvirkja við landbúnað, þar með talin jarðyrkja, vermirækt og loðdýrarækt, enn fremur til mannvirkja í þágu landbúnaðarins, svo sem mjólkurvinnslustöðva, kjötfrystihúsa, ullarverksmiðja, skinnaverksmiðja, þvottahúsa, viðgerðarstöðva landbúnaðarverkfæra, rafstöðva fyrir sveitir og landshluta og einstaka sveitabæi, svo og til bústofnsauka og til kaupa á vélum, sem notaðar eru við landbúnað.

Með þessum hætti er svið þessarar stofnunar mikið og margvíslega útvíkkað frá því, sem áður hefur verið, enda er ætlazt til, að afl það, sem stofnunin hefur yfir að ráða, verði miklu meira en áður hefur verið. Þá er heimilt samkv. þessari sömu gr., að upphæð lána megi vera að nokkru leyti 50% kostnaðarverðs og að nokkru leyti 66,7% af kostnaðarverði.

Samkv. 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að veitt sé bráðabirgðalán, þangað til kemur að því, að framkvæmd er lokið og lánið getur komizt í það horf, sem ætlazt er til samkv. 5. gr.

Þá er það sú breyt., sem er einna mest á l. frá því, sem nú er, en það eru vaxtagreiðslurnar. Samkv. frv. er ætlazt til, að vextirnir verði 2,5%, en nú samkv. ræktunarsjóðsl. eru þeir 4–5%. Tryggingarnar, sem ætlazt er til að taka fyrir þessum lánum, voru áður, eins og kunnugt er, veð í fasteigninni, afgjaldskvöð og eigin ábyrgið, og það verður samkv. þessu frv. á sama hátt, nema við er bætt, að lána megi út á veð í vélum og verkfærum, sem keypt eru, og sömuleiðis út á veð í tilteknum flokki búfjár, sem þó er ætlazt til, að verði tryggður, en því miður virðist okkur, að það þurfi talsvert nýrrar athugunar við, vegna þess að tækifæri er ekki eins og nú standa sakir til að tryggja búfé svo sem skyldi.

Þá er eitt stórt ákvæði þessa frv., að það er ætlazt til, að framlag verði veitt til ræktunarsjóðs úr seðladeild Landsbankans, allt að 10 millj. kr. Út í það skal ég ekki mikið fára, en ég geri ráð fyrir, að þetta ákvæði verði nokkuð að fara eftir því, hvernig fer með það frv., sem fyrir Alþ. liggur um eflingu fiskveiðasjóðs og lánveitingar til sjávarútvegsins.

Lánstíminn samkv. þessu frv. er ætlazt til að verði 5–25 ár, en var samkv. l. nú, eins og þau hafa verið, 5–35 ár. Önnur ákvæði frv. eru miklu smærri en þau, sem ég hef nú nefnt. Eins er það, sem ég skal aðeins víkja að hér, sem er nýtt ákvæði samkv. 13. gr. þessa frv., en það er að gera þrengri skilyrði fyrir því, hvernig uppsögn láns megi haga. Þar er eitt atriði, 2. liður, sem ég fyrir mitt leyti mundi ekki geta samþ., og eins er með fleira í þessu frv., en það hefur n. ekki tekið ákvörðun um, en það er, að lán sé uppsegjanlegt, ef eigendaskipti verða, og getur það rekið sig óþægilega á við önnur ákvæði sömu gr.

Ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að fjölyrða meir um þetta allvíðtæka frv. Ég geri ráð fyrir, enda þótt landbn. flytji það, að það sé rétt að þessari umr. lokinni, að frv. sé vísað til n. beinlínis til athugunar, því að hún hefur flutt frv., eins og tekið er fram í grg., án þess að því fylgi nokkur skuldbinding frá henni um að fylgja því óbreyttu fram.

Að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið.