01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (4738)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var fyrir 132 dögum hér á þingi, sem lagt var fram frv. um sama efni og þetta. Það er búið tvisvar sinnum að kalla eftir því frá landbn., og alltaf hefur verið sagt, að það hafi verið beðið eftir þessu frv. Nú er það komið, bráðum fyrir mánuði, og enn þá sefur landbn., og það er fyrst nú, að þetta frv. kemur til umr. í d. Nú vil ég mjög alvarlega beina því til landbn. að láta þennan ómennskubrag ekki lengur líðast, að sofa svona á frv., heldur fari n. að vinna að því, því að ekki er að vita, hvað lengi þetta þing kann að standa. Ég veit, að í þessu frv. eru mörg ákaflega mikilsverð atriði fyrir menn, sem þurfa að fá lán úr ræktunarsjóði, sem eru svo að segja þau sömu í báðum frv., og það má ekki líðast að halda áfram að sofa á málinu. Ég vil þess vegna ákveðið og eindregið skora á n. að vanrækja ekki lengur, eins og hún hefur gert, skyldur sínar, heldur taka málið fyrir og reyna að koma því áfram á þinginu.