26.04.1946
Neðri deild: 122. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (4744)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 451 um breyt á l. um ræktunarsjóð Íslands, felur í sér tvö og eiginlega þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi er það, að hækkað verði stórkostlega það fjárframlag, sem þessi stofnun skal hafa til umráða. Í öðru lagi eru ákveðnir lægri vextir en áður, og í þriðja lagi er verksvið stofnunarinnar gert miklu víðtækara en verið hefur með því að ákveða, að hún geti lánað til margvíslegri starfsemi á sviði landbúnaðarins með tilliti til þeirra framkvæmda, sem stofnað er til í sambandi við hann, en verið hefur.

Landbn. hefur haft þetta mál til meðferðar og skilað áliti sínu fyrir nokkuð löngu. Nefndin vonar, að frv. nái fram að ganga með þeim breyt., sem hún flytur till. um á þskj. 724.

1. brtt. er við 4. gr. Það er breyting til samræmingar við frv. um nýbyggðir og landnám, og þarf ekki fleiri orð um hana.

2. brtt. er við 5. gr. Það er, að við bætist n málsgr. á undan síðustu málsgr. Við ákvörðun lána skal stjórn sjóðsins taka tillit til, hvað mikil önnur veðlán hvíla á eigninni. Það getur hugsazt, að á eigninni hvíli fleiri lán, og er þá sjálfsagt, að slíkt sé athugað, þegar ný lán eru veitt.

3. brtt. er við 8. gr. Þar er í fyrsta lagi bætt við 2. lið orðunum „ásamt tilheyrandi lóð og lóðarréttindum.“ — Í öðru lagi er ákvæði um ábyrgð, þ. e., að ábyrgð hrepps- eða sýslufélags komi ekki til greina, nema félagssamtök eigi í hlut.

4. brtt. er við 16. gr. Þessi brtt. er í samræmi við frv. um nýbyggðir og landnám, þ. e. fellt úr, að sýslumönnum sé skylt að láta í té ókeypis veðbókarvottorð o. s. frv. Þótti rétt að fella þetta niður, þar sem það gat valdið miklum óþægindum og töfum.

5. brtt. er við 20. gr. Það er um gildistöku laganna, og er hér lagt til, að hún verði 1. jan. 1947. Það er líka í samræmi við 1. um nýbyggðir og landnám.

Það skiptir ef til vill ekki miklu máli, hvort þetta frv. verður samþ. nú eða á síðara þingi, en f. h. landbn. óska ég fremur, að það verði samþ. nú. Að vísu er það ekki á okkar valdi hér í þessari deild, hvort frv. kemst í gegnum Ed. — Ég læt svo þessi orð nægja.