27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (4751)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Bjarni Ásgeirsson:

Eins og ég gat um í gær, þá var á sínum tíma gerð aths. við þetta frv. af stjórn Búnaðarfél. Íslands og gerðar við það nokkrar till. til breytinga. Og eins og ég boðaði þá, höfum við nú 3 þm., hv. 2. þm. Skagf., þm. Borgf. og ég, lagt fram brtt. við málið á þskj. 996, sem felur í sér þær breyt., sem Búnaðarfélagið óskaði eftir. — Það er fyrst við 3. gr., þar sem farið er fram á, að árlegt framlag úr ríkissjóði, ½ millj. kr., eins og ákveðið er í gr., hækki upp í 1 millj. kr. og verði samtals 10 millj. Og hefur sams konar breyt. verið gerð við 9. gr., að í staðinn fyrir 10 millj. kr. skuli sjóðurinn fá 20 millj. kr. Enn fremur leggjum við til, að 4. gr. verði felld niður. En 4. gr. frv. er um það, að nokkurs konar ræktunaráætlun verði samin af Búnaðarfélagi Íslands og nýbyggingarráði. Við vitum, að jafnan er ástæða til þess að ger áætlun um ræktun landsins um lengri tíma. En það er vafasamt, hvort rétt sé að setja inn í frv., að n., sem er til bráðabirgða og lítil líkindi eru til að verði varanleg stofnun í þjóðfélaginu, skuli annast samningu slíkrar áætlunar, ef henni skal komið á fót. Okkur finnst ekki rétt að blanda inn í frv. bráðabirgðastofnun, sem ekki er hægt, eins og áður er sagt, að gera ráð fyrir að verði til langframa. — Þá er enn fremur brtt. við 12. gr. um það að lengja ofurlítið lánstímann, eða úr 5–25 ár, eins og er í frv., upp í 8–25 ár, og fyrir 5–12 ár komi 8–12. Er það sá skemmsti tími, sem hægt er að nefna. Allir vita, að lán til landbúnaðarins koma ekki að notum nema til nokkuð langs tíma. — Þá er brtt. við 13. gr. um að 2. tölul. falli niður. Teljum við ekki ástæðu til að hafa þau ákvæði, sem þar eru upp talin. — Mun ég svo ekki tefja málið frekar og skal ekki hafa orð mín fleiri og legg þessar brtt. fram.