27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (4753)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Það er ekki langt síðan hv. þm. Mýr. talaði um þetta mál og bar þá eðlilega fyrir brjósti, hvort málið næði fram að ganga eða ekki. Ég tók undir ósk hans hvað þetta snerti eiginlega fyrir hönd þeirrar stofnunar, sem staðið hefur að samningu frv., nýbyggingarráðs. Ég hafði ekki ástæðu til þess þá að ætla, að hv. þm. Mýr. væri að mæla af yfirdrepskap einum. Það, sem studdi einnig þessa ætlan mína, var það, að hv. þm. ásamt hv. 2. þm. Skagf. hafði ritað undir nál. á þskj. 723 þann 9. apríl án ágreinings og n. öll gert sameiginlegar till., þar sem vilji hv. þm. líka var tekinn til greina. Ég hélt því, að hv. þm. Mýr. væri alvara í þessu máli, eins og öðrum hv. nm. En nú sé ég, að mér hefur skjátlazt í þessu efni. Þær óskir, sem hv. þm. Mýr. bar fram og ég tók undir, hafa ekki verið af heilum huga mæltar, þegar hann daginn eftir ber fram stórfelldar brtt. í þessu máli. Þá var yfirlýst, að nýbyggingarráð hefði gjarnan viljað setja till. nokkuð hærra í þessu efni, ef ekki hefði vaknað nokkur ótti um það, að of háar kröfur gætu orðið til þess að tefja málið algerlega. Nú hefur það sýnt sig, að jafnvel frv., eins og frá því var gengið af nýbyggingarráði og hv. þm. Mýr. ásamt öðrum í landbn., hefur ekki fengið eins góðar undirtektir á þessu þingi og margir hefðu óskað. En hv. þm. Mýr. er þetta ekki nóg. Hann óskar eftir því ásamt 2 öðrum hv. þm. að leggja frekari stein í götu málsins með því að koma nú á síðustu stundu með yfirboð. Öllum öðrum gæti ef til vill verið sæmra að koma þannig aftan að áhugamáli, sem borið er fram af heilum hug fyrir bændastétt landsins, öllum öðrum en form. Búnaðarfél. Íslands, frá honum hefði maður ekki getað vænzt þessa. Eins og ég sagði áðan, tók ég af heilum hug undir óskir hv. þm. í gær um, að frv. um ræktunarsjóð næði fram að ganga á þessu þingi. Og ég vil gjarnan leggja fram mitt lið til þess. En það er sýnilegt, að eitthvað annað vakir fyrir hv. þm. nú en að málið nái fram að ganga og að um það ríki friður. Það getur verið, að sá andi, sem vakti fyrir honum í gær við vantraustsumr., sé of ríkur í huga hv. þm., þegar hann í dag rýkur í að koma með yfirboðatill. í málinu, sem vitaskuld ýta ekki undir framgang málsins. Hv. þm. sagði m. a., að hann og tillögubræður hans vildu ekki afskipti nýbyggingarráðs framar af þessum málum. Það má vel vera, að hann líti svo á, að nýbyggingarráð sé ekki fært um að skipta sér neitt af slíkum málum. En minnist hv. þm. Mýr. þess, að nýbyggingarráð hefur borið gæfu til þess að koma málinu þetta áleiðis og er nú að fá samþ. á Alþ. frv. um landnám og nýbyggðir í sveitum. Og þótt hann líti með smáum augum á þessa bráðabirgðastofnun, eins og margir hans flokksbræður gera, og hann vilji fella hana burt úr l. með þessum brtt., þá læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Ég vil benda hv. þm. Mýr. á, að þessari bráðabirgðastofnun hefur verið falið það verkefni að sinna landbúnaðarmálum eins og öðrum málum, og hyggjum við gott eitt til að halda því starfi áfram. Nýbyggingarráð hefur hingað til ekki sýnt það, að það vildi mismuna sveitunum í till. sínum og öðrum aðgerðum. Það fer því harla illa í munni forsvarsmanns bænda, sem hv. þm. þykist vilja vera, að gera lítið úr því starfi, sem nýbyggingarráð hefur innt af höndum í þessu efni. — Það er harla einkennilegt, þegar hv. þm, eru búnir ágreiningslaust að skrifa undir nál. og boða þar ekki neinn fyrirvara, heldur koma samhliða öðrum með till. til breyt., sem Alþ. fellst á, en svo rísa þeir hinir sömu menn upp og koma með yfirboð. Og þetta er gert til þess og ekki annars en að vekja ágreining um málið á þeim tíma, sem ef til vill hefði verið einhver leið til að vinna að því að fá samkomulag um málið á Alþ. Ég verð að láta það uppi, að ég harma þessa framkomu hv. þm. Mýr. Og ég er viss um, að þeir, sem unnu að þessu í nýbyggingarráði og þar á meðal framkvæmdastjórn Búnaðarfél., munu líka harma þessa framkomu, sem sýnilega stjórnast ekki af öðru en pólitískum ástæðum, kosningum, en er ekki borið fram til þess að verða þessu máli til liðs.