27.04.1946
Neðri deild: 128. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (4754)

177. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Pétur Ottesen:

Ég er ekki vel upplagður til að tala vegna raddarinnar. Ég get þó ekki algerlega setið undir þeim ummælum, sem hv. þm. Vestm. hefur viðhaft í sambandi við þetta mál. Og að því leyti, sem hv. þm. snýr skeytum sínum að flm. brtt., sem eru í landbn., þá snýr það ekki síður gegn mér, því að ég á fullkomlega minn bróðurpart í, að þessar till. komu fram. Og skal ég færa rök fyrir því, að það er ekki að ófyrirsynju gert. Þetta mun bezt sjást, ef maður ber saman störf hv. þm. í nýbyggingarráði fyrir sjávarútveginn annars vegar og landbúnaðinn hins vegar. Ég tek það ekki til mín, þegar hv. þm. er að tala um yfirdrepskap og um að verið sé að koma aftan að einhverjum. Ég viðhef hér engan yfirdrepskap og er ekki að koma aftan að neinum. Ég flyt málið af heilum hug og vegna fullrar nauðsynjar þess atvinnuvegar, sem njóta á góðs af þessari löggjöf. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Vestm. hefur athugað, hvernig ástatt er með þennan sjóð, þegar hann og nýbyggingarráð leggur til að gera till. til úrbóta. Ég skal segja honum, hvaða fé þessir sjóðir yfir höfuð hafa yfir að ráða til útlána. Ræktunarsjóðurinn hefur yfir að ráða einni millj. og 800 þús. kr. Það er allt féð til að sinna hinni miklu og brýnu þörf landbúnaðarins. Byggingarsjóðurinn hafði hins vegar yfir að ráða, þegar hv. þm. fór að gera sínar till., 1 millj. kr. til þess að sinna því mikla uppbyggingarstarfi, sem nú liggur fyrir hendi í sveitunum. Það hefur ekki verið hægt að framkvæma nauðsynlegar umbætur sökum skorts á efni. Meginhluti alls byggingarefnis hefur lent í kaupstöðum, en sveitirnar farið varhluta af. Hverjar eru svo umbæturnar, sem þm. Vestm. hyggst að gera? Ja, það er að auka starfsfé ræktunarsjóðs um ½ millj. og leggja 2½ millj. í byggingarsjóð, en nú eru veittar 300 þús. eða með vísitölu um 620 þús. Þá er lagt til, að veittar verði 2½ millj. til landnáms ríkisins, en til fjárframlaga í því skyni hefur verið 250 þús. kr. heimild, en ekki notuð af ríkisstjórninni og með því móti gengið mjög á rétt landbúnaðarins. Í frv. er gert ráð fyrir, að stofnlánasjóður verði 10 millj. kr., en hann er nú 3 millj. og 400 þús., en 1. júlí 1947 verður hann nál. 5 millj. kr. Viðbótin er því ekki nema 5 millj. kr. Í nál. frá landbn. talar hv. þm. A.-Húnv. (JPálm), sem nú er orðinn nokkurs konar fylgihnöttur kommúnista, um það, að sjóðurinn muni hafa 60–70 millj. til umráða. Ég skil ekki þá útreikninga, því að ég get ekki fengið meira en 55 millj. út úr þessu, auk þess sem þessi upphæð er ekki komin fyrr en að 10 árum liðnum. Það hljóta allir menn að sjá, sem nokkurt skyn bera á sveitabúskap, hversu þörfin er mikil fyrir lánsfé til eflingar landbúnaðinum. Það má kannske virða hv. þm. Vestm. það til vorkunnar, að hann hefur verið fjarlægur þessum atvinnuvegi alllengi, en þm. A.-Húnv. ætti þó að sjá og vita um þörfina og greina hvað þessi viðbót, sem hér um ræðir, nær skammt til að mæta þörfum landbúnaðarins. Ef þetta er svo borið saman við það, sem ætlað er sjávarútveginum, þá komumst við að raun um, að það er tæpast 1/10 hluti, og geta allir séð, hvað slíkt er ranglátt. Og ég vil algerlega mótmæla því, að þýðing landbúnaðarins sé ekki nema þetta brothlutfall af þýðingu sjávarútvegsins. Það blasa við möguleikar í íslenzkum landbúnaði. Með hagnýtingu náttúrugæðanna er hægt að margfalda framleiðsluna, auk þess sem með því verður hægt að flytja út landbúnaðarvörur og afla með því erlends gjaldeyris. Ég tel allt of lítið tillit tekið til þessa atvinnuvegar, því að mitt brjóstvit segir, að áður en langt um líður verði landbúnaðurinn ekki síðri fyrir okkar þjóðfélag en aðrir atvinnuvegir. Ég tel því, að nýbyggingarráði hafi verið mjög mislagðar hendur, þegar það gerði tillögur um lánasjóð til landbúnaðarins. Til bátakaupa eru ætlaðar 7 millj. kr. utan 100 millj. kr. Það má gera ráð fyrir, að þessar 7 millj. kr. verði beinn styrkur, en í nál. því er hér um ræðir, er talinn eftir 3 millj. kr. styrkur til ræktunar. Þetta vil ég láta koma fram til að draga mesta gustinn úr þm. Vestm.

Brtt. eru á fyllstu rökum reistar, og ég þekki dómgreind og víðsýni þm. Vestm. illa, ef hann við íhugun fellst ekki á, að svo sé. — Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vænti þess með skírskotun til þess, er ég nú hef sagt, að leiðrétting fáist á þessu, eins og brtt. fara fram á. Það má vera, að það hafi sært þm. Vestm., að lagt er til að fella niður 4. gr. frv., þar sem ræðir um skipulagningu á starfsemi landbúnaðarins. Þessi skipulagning á verzlun landbúnaðarvara hefur verið framkvæmd og það af litlum skilningi. Og þar sem ekki er neitt slíkt ákvæði um starfsemi sjávarútvegsins í sambandi við stofnlánadeild til hans, undrar mig mjög, að nýbyggingarráð skyldi bera fram slíka till., sem gerir svo upp á milli þessara atvinnuvega.

Mér virtist hv. þm. Vestm. vera með hótanir vegna þess, að við leyfðum okkur að flytja brtt., sem við teljum nauðsynlega bót á frv. Ég hef fylgt og stutt þau frv., sem fram hafa komið til hagsbóta sjávarútveginum, og ég finn jafnar skyldur við landbúnaðinn, og ég tel mig ekki þurfa að biðja þm. Vestm. afsökunar á því að gera það, sem þingmannsskylda mín býður mér að gera. Það er bæði óviðeigandi og viðurstyggilegt að vera með hótanir um að refsa landbúnaðinum með því að láta þetta frv. ekki ná fram að ganga, en slíkt er ofarlega í hugum þeirra manna, sem telja það óviðeigandi að koma með nauðsynlegar brtt. En það skulu þessir herrar vita, að þó að slíkt sé hægt að nota um stundarsakir, þá er skammgóður vermir að míga í skó sinn. (JJós: Þetta er vísvitandi rangfærsla, ég hef ekki verið með neinar hótanir). Það voru ekkert annað en hótanir, en vonandi hafa þessi alvöruorð mín haft þau áhrif, að hv. þm. falli frá að framkvæma þessar hótanir.