01.03.1946
Neðri deild: 78. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (4760)

178. mál, endurreisn biskupsstóla að Skálholti og Hólum

Flm. (Sigurður Þórðarson) :

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um endurreisn hinna fornu biskupsstóla. Ég býst ekki við, að hafa þurfi langa framsögu fyrir því. Frv. gerir ráð fyrir, að þarna verði aðsetur vígslubiskupanna, og er til þess ætlazt, að þeir verði meira starfandi sem slíkir en nú er. Gert er ráð fyrir, að þarna verði reistir bústaðir fyrir þessa biskupa og aðalviðgerð fari fram á Hólakirkju og byggt verði kirkjuhús í Skálholti. Ekki þykir annað sóma en þjóðfélagið sýni þessum fornmerku stöðum tilhlýðilega virðingu, og það er alls ekki vansalaust, að þeir skuli vera í svo mikilli niðurníðslu sem nú eru þeir, einkum Skálholt. Í Norðendingafjórðungi eru uppi háværar kröfur um það, að stóll verði settur á Hólum, og því verður varla lengur unað, að Hólar séu prestlausir og dómkirkjan þar annexíukirkja, enda er frv. þetta flutt samkv. ósk héraðsfundar í Skagafirði.

Þetta mundi að sjálfsögðu hafa allmikinn kostnað í för með sér. En ég býst ekki við, að lengur verið skotizt undan viðgerð á Hólakirkju og ekki hægt að láta þetta merkilega hús óviðgert. Einnig er til þess ætlazt, að þegar þessum aðgerðum verður lokið, verði fluttir þangað hinir fornu gripir, sem dómkirkjurnar áttu, en eru nú geymdir á söfnum. Eins og kunnugt er, voru biskupsstólarnir mjög ríkir fyrr á árum. Þegar þeir voru lagðir niður, rann svo fé þeirra í hendur Dana. Svo átti að heita, að þetta væri endurgreitt með ríkissjóðsframlagi Dana til Íslendinga. En hver og einn verður að greiða sínar skuldir og þá ekki ríkissjóður vor síður en aðrir. Stólarnir eiga þetta fé raunverulega hjá ríkinu. Það er ekki talið vansalaust, að þessi fornu setur séu í niðurníðslu. Ég hef ekki komið að Skálholti, en mér er sagt, að þar sé öllu verr við haldið en á Hólum og ekkert minni þar á forna frægð, en þó verður ekki komizt hjá viðgerð á Hólakirkju. Það hefur tæplega verið haft nægilegt eftirlit með kirkjunni þar, og það er t. d. mjög torskilið, að slíkt skuli geta að höndum borið, að maður í Reykjavík kom þangað og gróf upp bein Jóns Arasonar og hafði þau burt með sér. Þá er það mjög óviðkunnanlegt, að hér í Landakoti skuli svo kallaður Hólabiskup sitja. Eins og Alþ. er kunnugt, er nú áformað að reisa búnaðarskóla í Skálholti, en um það er deilt, hvar hann skuli standa. Hv. þm. S.-Þ. lýsir óánægju sinni yfir því í þskj., að honum skuli ekki hafa verið fyrirhugaður staður heima á sjálfum staðnum í Skálholti, því að það mun vera ákveðið, að skólinn verði reistur utan túns, en ef vígslubiskupssetur yrði reist þarna, virðist vel mundu séð fyrir húsakosti heima á staðnum. En hvernig sem á málið er litið, sýnist sjálfsagt að endurreisa stólana og búa sæmilega að þessum stöðum. Og ég veit, að Alþ. muni taka vel undir þessa málaleitun, enda verður það að teljast nauðsyn, að minning þessara staða sé ekki fótum troðin. Í sambandi við kostnaðinn, sem af þessu hlytist, vildi ég segja það, að taka verður tillit til þess, að ríkið skuldar þessum setrum raunverulega langtum meira fé en hér er farið fram á.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta öllu meira, því að ég býst við, að hv. þm. hafi kynnt sér málið. Ég hef ekki farið hér út í þá mikilsverðu hlið málsins, að ýmsir hafa talið það óviðunandi, að einhver valinn kirkjuhöfðingi hefði ekki umsjá með staðnum á Hólum. Ég ætla, að n. sé sammála um það, að vígslubiskup taki þetta að sér.