04.03.1946
Neðri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (4764)

187. mál, húsaleiga

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Á þessu stigi málsins vil ég ekki tefja það neitt með því að gera grein fyrir ástæðunum fyrir flutningi þessa frv. Því að fyrir utan það, sem segir í grg., þá mun það verða gert, þegar nefndin hefur fjallað um málið. Aðeins vil ég taka fram, að þetta mál hefur verið til meðferðar á þessu þingi í öðru formi. Því að það voru fluttar um það tvær þáltill. í sameinuðu þingi, og var önnur samþ., sem var um að skora á ríkisstj. að láta þegar rannsaka áhrif húsaleigulaganna og um afnám þeirra. Og hinni þáltill. var vísað sömu leið, til hæstv. ríkisstjórnar. En við umr. um málið kom þá greinilega í ljós, að hv þm. yfirleitt — ekki aðeins í þessari hv. d., heldur og í hv. Ed. — voru þeirrar skoðunar, sem fram kom bæði í umr. og við atkvgr., að húsaleigulögin yrðu að athugast og að eðlilegt væri, að undirbúningur hæfist nú þegar undir afnám þeirra. Þetta frv. kemur því ekki í bága við skoðun hæstv. Alþ., heldur er beint áframhald af þeirri skoðun, sem birt var við meðferð málsins í því formi, sem ég nú hef lýst. Það kom þar fram, sem eðlilegt er, að húsaleigul. væru skoðuð og hefðu alltaf verið skoðuð sem styrjaldarráðstöfun. Þær ráðstafanir voru margar, sem gerðar voru vegna styrjaldarinnar. En ég held, að það sé varla ágreiningur um, að ein hin harkalegasta af þeim sé húsaleigul. Nú er það svo, að auk þess sem húsaleigul. eiga að koma í veg fyrir þjóðfélagsleg vandræði og hafa vafalaust gert það, þá snerta þau mjög persónulega marga menn. Sumum vinna þau tjón, en öðrum eru þau verndun. Og það þarf ekkert að efast um það, að strax og við þessum l. verður rótað, munu koma fram margar raddir til mótmæla, einmitt raddir þeirra manna, sem þau hafa fært vernd og fjárhagslega hagsmuni, alveg eins og uppi eru nú háværar raddir um afnám þeirra frá mönnum, sem hafa haft óþægindi og fjárhagslegt tjón af setningu þeirra. Enginn þessara manna var spurður ráða, þegar þessi 1. voru sett, og það verður enginn heldur spurður um það, þegar þau verða afnumin. Það verður að sjálfsögðu alveg skoðað sem hreint þjóðfélagsmál, hve lengi þau verði látin standa og hvenær þau verða afnumin. En við flm. frv. lítum svo á, að þetta hafi verið svo mikilvæg ráðstöfun, að það muni fara bezt á því og valda minnstri röskun, að þau séu afnumin stig af stigi. Og sökum þess, að þál., sem samþ. var hér á Alþ. í sameinuðu þingi, og hin þáltill., sem vísað var til ríkisstj., hljóðuðu báðar um, að ríkisstj. skyldi rannsaka málið og leggja fyrir Alþ. árangurinn af þeirri rannsókn, — sem líklegt þykir, að leiða muni til þess, að l. verði afnumin, — sökum þess að þessi rannsókn mun tak, nokkuð langan tíma, þó svo sé til orða tekið í þál., að ríkisstj. skuli gera þetta tafarlaust, þá sýnist okkur flm. þessa frv., að ekki sé rétt að fresta því að afnema nú þegar þau atriði 1., sem hafa valdið mestum ágreiningi og óánægju, af því að það hlítur að liggja fyrir að afnema l. algerlega fyrr eða síðar.

Þessi atriði, sem á að breyta samkv. þessu frv., á þskj. 486, sé ég ekki ástæðu til að rekja hér, því að að sjálfsögðu verður frv. rætt og athugað grein fyrir grein við 2. umr. Ég hef þess vegna ekki fyrir okkar hönd flm. aðrar óskir fram að bera á þessu stigi málsins en þær, að málinu verði vísað til n. Ég er ekki alveg viss um, hvar í n. þetta mál á heima, en sjálfsagt annaðhvort allshn. eða félmn., og við flm. munum sætta okkur við hvora þeirra n. sem er. g vildi skjóta því til úrskurðar hæstv. forseta, í hvorri þessara n. þetta mál mundi frekar eiga heima.