12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (4771)

193. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af 4 manna nefnd, sem skipuð var af félmrh. 1943 í tilefni af samþykkt Alþingis. Þessu frv. fylgir ýtarleg grg., og sé ég því ekki ástæðu til að rekja hinar ýmsu greinar þess.

Ástæðan til þess, að við flm. höfum tekið upp þetta frv., er sú, að við töldum, að sá dráttur, sem orðið hefur á að það kæmi fram, væri óþolandi. Og þess vegna töldum við rétt, að það kæmi fyrir þingið nú. Það var gerð fyrirspurn til félmrh., hvort stjórnin mundi leggja frv. fyrir þingið, en hann svaraði, að það væri til athugunar, en síðan er liðinn alllangur tími, og ekki hefur heyrzt neitt frá ráðh. um málið.

Aðalefni þessa frv. er það, að umráðaréttur yfir löndum og lóðum í bæjum og kauptúnum verði færður úr höndum eigenda og í hendur stjórna viðkomandi bæjar- eða hreppsfélaga. Í öðru lagi að öll leiga skuli ákveðast eftir mati. Og í þriðja lagi, að sérstakur verðhækkunarskattur skuli settur á alla þá verðhækkun, sem orðið hefur á löndum og lóðum, að frádregnum þeim umbótum, sem gerðar hafa verið og valdið verðhækkuninni.

Meginatriði þessa máls eru löngu kunn og öllum ljóst, hversu bagalegt það er fyrir bæjar- og hreppsstjórnir, hversu takmarkaðan yfirráðarétt þær hafa yfir löndum og lóðum, auk þess sem mjög hefur verið erfitt að fylgja settu skipulagi með þessu fyrirkomulagi. Af þessu hefur leitt það, að allmargir sveitarstjórar hafa orðið að leita til Alþingis um eignarnámsheimildir. Alþingi hefur orðið við þessum tilmælum í sumum tilfellum, en ekki öllum. Oft hefur matið orðið svo hátt í þessum eignarnámsheimildum, að bæjarfélögunum hefur verið ókleift að framfylgja þeim. Það er því eðlilegt, að leitað sé eftir því, hvort meiri hl. Alþ. vill ekki fá þessu breytt, þannig að bæjarfélögin geti haft nauðsynleg ráð á löndum og lóðum, en þetta frv. miðar að því. Mér er kunnugt um, að í kaupstað, sem ég þekki vel til, eiga 5 landeigendur 1/3 hluta af bæjarlandinu, en kauptúnið 2/3 hluta. Landið er óskipt og vegna þess hafa þessir fimm landeigendur fullnaðarákvörðunarrétt á úthlutun lóða. Þessir fimm menn geta því komið í veg fyrir, að framfylgt sé því skipulagi, sem mikill meiri hluti þorpsbúa óskar eftir. Landeigendurnir telja sér oft hagnað að því að geyma að ráðstafa góðum lóðum, vegna vonar um, að þær hækki í verði, þó að það sé hins vegar til mikilla örðugleika fyrir skipulag bæjarins eða þorpsins. Og það hafa áreiðanlega margir sömu sögu að segja og stjórnendur þessa þorps. Það verður ekki dregið lengur að setja lög um, að bæjarstjórnirnar fái yfirráðarétt yfir löndum og lóðum. — Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta nánar nú, en óska eftir, að málinu verði vísað til allshn.