12.03.1946
Neðri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (4772)

193. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Fyrrv. stjórn hafði fengið þetta frv. í hendur og sent það til hæstaréttar til umsagnar, og hæstiréttur hafði látið í ljós, að það gengi í berhögg við stjórnarskrána. Ég hef ekki fengið þetta skriflegt frá hæstarétti, en með því að þetta lá fyrir, taldi ég ekki rétt að leggja frv. fram.

Lóðamálin eru mikið vandamál. Það er mjög hvimleitt fyrir bæjarfélögin, að öll verðhækkun á lóðum rennur í vasa einstakra manna án þess að fá nokkuð að gert. En ef gengið er út frá því, að aðalatriði frv. brjóti í bága við stjórnarskrána, er þýðingarlaust að afgreiða frv. eins og hér er lagt til. Það verður því að leita annarra ráða til þess að bæta úr því öngþveiti, sem í þessum málum ríkir. Nú er stjórnarskráin í endurskoðun. Það var lengi ráðgert, að þær till., sem fram kæmu í því sambandi, yrðu lagðar fyrir þetta þing. Á meðan taldi ég ekki rétt að koma fram með frv. um þetta mál, áleit réttara að bíða þar til ákvæði fengist í stjórnarskrána, sem tryggði það, að verðhækkun á löndum og lóðum ætti að vera eign þess opinbera. Nú er hins vegar ekki útlit fyrir, að stjórnarskránni verði breytt á þessu þingi, og er þá til athugunar, hvort ekki mætti ná sama tilgangi og ætlazt er til í frv. án þess að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég er alveg á sama máli og flm. þessa frv., að það er nauðsyn úrbóta, en tel mér hins vegar ekki fært að samþ. frv. óbreytt, vegna þess að það brýtur í bága við stjórnarskrána.