22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (4778)

200. mál, tollskrá o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. á þskj. 609, og er hún við 2. gr. frv. 4. j., en þessi 4. tölul. er um það, að ríkisstj. hafi heimild til að endurgreiða aðflutningsgjöld eða hluta af aðflutningsgjöldum á efni í umbúðir um innlendar framleiðsluvörur, sem fluttar eru til útlanda til sölu þar, og af vörum, sem notaðar eru í vörur þessar til þess að gera þær söluhæfari eða til þess að þær geymist betur. En síðan segir í frv., í j-lið þessa 4. töluliðar: „Nú eru búnar til hér á landi umbúðir þær og aðrar vörur, sem nefndar voru, og skal þá ekki lækka aðflutningsgjöldin af þeim meir en svo, að vörugerðir þær, sem búa hér til þessar vörur, hafi hæfilega tollvernd fyrir vörur sínar að dómi ráðuneytisins.“

Ég álít að þetta sé mjög hæpið, í fyrsta lagi vegna þess, að óeðlilegt sé að fara eftir mati ríkisstj. á hverjum tíma, hvað sé hæfileg tollvernd fyrir þessar framleiðsluvörur, og ríkisstj. hafi heimild til þess að ákveða þannig tollana. Það er líka mjög vafasamt, eins og nú er háttað í okkar atvinnumálum, að gera ráð fyrir verðtolli á umbúðum og efni í umbúðir um íslenzkar útflutningsvörur, þar sem útflutningsverzlunin er ekki þannig á vegi stödd, að ástæða sé að fara inn á þessa braut.

Eftir tilmælum frá hv. form. fjhn. vil ég taka þessa brtt. aftur til 3. umr. Mér hefur skilizt á öðrum mönnum í n., að þeir vildu geta athugað þetta á milli 2. og 3. umr., og vænti ég, að orðið geti samkomulag í n. um þessa brtt. og að hún taki þessa brtt. til greina. Ég mun því taka hana aftur til 3. umr.