22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (4779)

200. mál, tollskrá o.fl.

Pétur Ottesen:

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs, er sú, að ég flutti 6. febr. s. l. frv. til l. um breytingu á tollskránni. Þessu frv. var þegar vísað til n., og hefur engin afgreiðsla orðið mér vitanlega í n. að öðru leyti en því, sem máske kemur fram í því frv. um breyt. á l. um tollskrána, sem hér liggur fyrir. En ef svo er, þá eru sumar breyt. að mínum dómi ákaflega ófullnægjandi til þess að mæta þeim óskum, sem komu fram í því frv., sem ég flutti um þetta efni. En þar sem form. n., hv. 4. þm. Reykv., sessunautur minn, hefur sagt mér, að þetta mál muni verða tekið rækilega til athugunar á ný nú, þ. e. a. s. á milli 2. og 3. umr. málsins, þá vænti ég, að sú athugun leiði til þess, að í n. fáist samkomulag um það að verða við þeim beiðnum, sem felast í þeim brtt., sem ég flutti á þskj. 272, og skal ég að svo stöddu ekki láta frekar aðgert í þessu máli.

Ég vil aðeins taka það fram til þess að upplýsa málið, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá sölusamtökum hraðfrystihúsanna, að einmitt tollur sá, sem er t. d. á pappakössum, utan um fisk til útflutnings, verði felldur niður. Enda ef miðað er við þá pökkun á fiski, sem hefur verið á heimsmarkaðinum, þá nemur hann hvorki meira né minna en 47 kr. á hverja smálest. Þetta eru vitanlega sárar búsifjar fyrir eigendur hraðfrystihúsanna og alla þá, sem eiga allt undir því, að hraðfrystihúsin geti starfað til hagnaðar fyrir sig og þjóðfélagið í heild.

Ég vænti þess, að n. taki þetta mál til rækilegrar athugunar og athugi þá um leið þau rök, sem fylgdu því frv., sem ég flutti um þetta efni.