22.03.1946
Neðri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (4780)

200. mál, tollskrá o.fl.

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af einum lið á tollskránni, sem ég vildi segja nokkur orð. Það er í sambandi við 11. og 12. lið. Það segir í grg. um þessa liði, að upphaflega hafi verið gerður greinarmunur á verðtolli og vörutolli eftir því, hvort um sívalar flöskur var að ræða eða ekki sívalar, því að flest meðalaglös, sem flutt voru inn, voru sívöl, og var þess vegna talið rétt að gera þann toll lægri, en nú er svo komið, að seld eru oft meðul á glösum, sem ekki eru sívöl. Innflytjendurnir hafa farið fram á, að umbúðaglös séu sett í lægri toll, og þess vegna er það lagt til, að 17. liður 60. kafla l. falli niður, en verðtollur í nr. 19 í 60. kafla lækki úr 15% í 10%. Afleiðingin af þessu verður sú, að allir þeir, sem nota sívöl glös, eins og t. d. ölgerðir og verksmiðjur, sem framleiða gosdrykki, hækka verðtoll þessara aðila úr 8% í 10%. Ég sé satt að segja ekki, hvers vegna það ætti að vera þannig, þó að iðnrekendur vildu fá verðtollinn lækkaðan hjá sér, að þá skuli þurfa að hækka hjá öðrum, þó að lækki hjá hinum. Ég fæ ekki skilið sjónarmið 17. liðar í l. frá 1939, þó hins vegar í 19. lið sömu l. sé farið úr 30% í 15% verðtoll, eins og gert er ráð fyrir í frv., er ríkissjóður þarna að ganga á móts við ósk eins atvinnurekanda á kostnað annars. Við skulum hugsa okkur tvær verksmiðjur eins og Coca-Cola og Sanitas, þær eiga ekki að borga sama verðtoll af flöskum. Mér virðist þess vegna eðlilegast að fella burt 11. liðinn, sem er í frvgr., og láta verðtollinn halda sér eins og hann var í l., sem sé 8%, en samþ. hins vegar 12. liðinn, þannig að verðtollurinn lækki í þeim greinum. Ef á að fara að ósk nokkurra þeirra, sem beðið hafa um að lækka tollinn, sem sé atvinnurekenda, þá verður ríkissjóður að sjá um, að um leið og það er gert, verði ekki níðzt á öðrum, sem þetta mundi bitna á.

Ég hef þess vegna leyft mér að bera fram skrifl. brtt. um það, að 11. liður falli niður.