26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Sú bændakynslóð, sem nú byggir íslenzkar sveitir, minnist áranna 1931–1936 eða kreppuáranna svokölluðu. Á þeim þriðjungi, sem þá var liðinn af yfirstandandi öld, hafði aldrei horft verr með fjárhagsástæður bændanna, vonleysið og kvíðinn fyrir framtíðinni aldrei jafnmikill. Þegar kreppan skall á, hafði Framsfl. farið með völd í 4 ár. Hann hafði náð völdum með því að telja sveitafólkinu trú um, að hann einn allra stjórnmálaflokka bæri hag þess fyrir brjósti og hann einn vildi framfarir landbúnaðarins. Víða höfðu bændur lagt í allmiklar framkvæmdir fyrir lánsfé, og þegar kreppan skall á, hrukku tekjur margra skammt fyrir afborgunum og vöxtum auk annarra útgjalda. Og þegar svo var komið, að ekki var annað sjáanlegt en að fjöldi bænda mundi flosna upp frá búum sínum, var stofnaður hinn frægi kreppulánasjóður. Hann átti að bjarga bændastéttinni úr fjárhagsvandræðum, en hefur þó jafnframt orðið leiðasta minnismerki, sem landbúnaðinum hefur verið reist á síðustu áratugum. Á þeim tímum hefði mátt ætla, að flokkur sá, sem einn þóttist bera hagsmuni bændanna fyrir brjósti, hefði gert þá kröfu fyrir þeirra hönd, að þeir fengju vinnu sína það vel borgaða, að þeir gætu lifað mannsæmandi lífi á tekjum sínum. En það bar furðulítið á þeim kröfum, þótt flokkurinn réði lögum og lofum í landbúnaðarmálum og raunar mestu á Alþingi. Nei, blað flokksins flutti þá kenningu frá formanni hans, að nú ættu bændur að sætta sig við þær tekjur, sem aðeins nægðu til að halda við starfsorkunni og borga afborganir af skuldum. Og Tíminn flutti lofgrein eftir annan af þingmönnum flokksins um þá virðingarverðu sparsemi og nægjusemi, sem bændur í heilli sveit hefðu sýnt með því að færa meðalþarfir heimilis niður í 400 kr. (miðað við aðkeyptar vörur) á ári. Þið munuð fara nærri um það, hlustendur góðir, hve mikið hafi verið til lífsþæginda á heimilunum þeim, þegar búið var að kaupa það, sem nauðsynlega þurfti til að halda við starfsorkunni og borga skuldir. Þá var alls ekki verið að heimta hundruð millj. króna úr ríkissjóði til að leiða rafmagn inn á hvert einasta sveitaheimili landsins. Þá var ekki minnzt á kaup sambærilegt við aðrar stéttir, þær voru sumar ekki tekjuháar þá heldur. Nei, boðskapur framsóknarforingjanna til bændanna þá var að spara, aftur sparnaður og meiri sparnaður. En þá fór líka flokkurinn með völdin.

Þegar kreppuuppgerðinni var lokið, var þó viðurkennt af flestum, að einhver breyting væri nauðsynleg á fyrirkomulagi landbúnaðarins. Hann gat ekki framleitt arðvænlega fyrir erlenda markaði, og hann var ekki heldur í samræmi við innlenda neyzluþörf. Það virtist helzt vera um ólæknandi offramleiðslu að ræða

Það, sem fyrst virtist eiga að gera, var þá tvennt: 1) Auka kaupgetu almennings í bæjum landsins, svo að neyzlan og þar með innanlandsmarkaður landbúnaðarafurða færi vaxandi. 2) Beina þróun framleiðslunnar inn á þá braut, að hver vörutegund yrði framleidd við þau skilyrði, sem heppilegust væru, og lækka þar með framleiðslukostnaðinn, — En Framsfl. réð málum, og hvorugt var gert, Í þess stað var byrjað á að skipuleggja afurðasöluna, eins og það var kallað. Til þess að leysa fyrra viðfangsefnið, að auka kaupgetuna, hefði þurft að efla atvinnuvegi bæjarbúa með öllum hugsanlegum ráðum, efla fiskveiðarnar og fiskiðnaðinn og reyna að framleiða og vinna nýja markaði, fyrir fullunnar Iðnaðarvörur úr innlendum hráefnum. Það var lítið gert að þessu. En það voru lögleidd víðtæk innflutningshöft, og í skjóli þeirra reis upp fjöldi smárra iðnfyrirtækja, sem fluttu inn erlend hráefni til að vinna úr, oft ýmiss konar ónauðsynlegar vörur, seldar með einokunaraðstöðu og stórgróða. Hvað seinna atriðið snerti, þá hné skipulagning afurðasölunnar að því að verðjafna milli framleiðenda, m. ö. o. skattleggja þá, sem betri skilyrðin höfðu, til þess að bæta upp fyrir hina, sem þýddi það að hindra framleiðsluþróun hverrar vöru við heppilegustu skilyrði. Það hlaut aftur að þýða óeðlilega háan framleiðslukostnað, og af honum hlaut aftur að leiða verri fjárhagsafkomu, bæði framleiðenda og neytenda og verri möguleika til samkeppni á erlendum markaði. Það, sem gerðist, var í raun og veru þetta: Ríkisvaldið tók þessi mál algerlega í sínar hendur. Það var sett upp heilmikið verðlagningar- og sölukerfi. Það voru skipaðar margar nefndir til að ráða verðlagningu og sölu. Hitt atriði gekk þó eins og rauður þráður í gegnum alla þá nefndaskipun. Það var, að bændur voru í minni hluta í öllum þessum nefndum. Og Framsfl. hafði völdin.

Þannig stóðu málin fram að styrjöldinni. Þá verður allt í einu þessi alkunna breyting, sem gerbreytir öllu fjárhagskerfi þjóðarinnar í einum svip. Verðhækkun á fiskinum, setuliðsvinnan og þar með útþurrkun atvinnuleysisins. Í staðinn fyrir skuldir og gjaldeyrisvandræði byrja að safnast inneignir erlendis, sem fljótlega nema hundruðum millj. kr. Inn í landið veltur þessi alþekkti stríðsgróði, meira fjármagn en Íslendingar hafa nokkru sinni haft yfir að ráða. Auðvitað fylgdu þessu breytta heimsástandi verðhækkanir á öllum erlendum vörum, bæði vegna hækkandi markaðsverðs erlendis, vátryggingar- og farmgjalda; sem stórhækkuðu vegna stríðsins. Hækkun þjóðarteknanna nam þó miklu meira, sem kom fram í söfnun erlendu innstæðnanna. Þannig sköpuðust möguleikar til að bæta kjör alls almennings í landinu með því að leyfa þessum stríðsgróða að dreifast, a. m. k. að einhverju leyti, út meðal fólksins. Það hefði mátt ætla, að flokkur bændanna hefði gripið tækifærið til þess að tryggja þeim eitthvað — af þessum gróða. En Framsfl. var ekki alveg á því. Á haustþinginu 1941 berst hann með hnúum og hnefum fyrir því, að bæði afurðaverði og kaupgjaldi verði haldið niðri eða bundið með lögum, þótt hver maður gæti séð, að engin leið væri að hindra margs konar verðhækkanir aðrar, sem stríðið skapaði. Síðan hafa blöð flokksins og fulltrúar hans á Alþingi og fundum úti um land sífellt harmað, að þessi festing skyldi ekki vera lögleidd. Eitt skemmtilegasta dæmið um það, hve langt er hægt að ganga í blekkingum á þessu sviði, er forustugrein í Tímanum 21, júlí 1944. Þar segir svo m. a. (með leyfi hæstv. forseta) : „Ef festingin hefði gengið fram 1941, væri nú stórgróði á kjötútflutningi,. því að útflutningsverðið væri þá hærra en innanlandsverðið, og bændur hefðu síður en svo þurft nokkrar verðuppbætur. Afkoma bænda væri líka mun betri, því að hækkun afurðaverðsins hefur meir en étizt upp af kauphækkunum. Þegar miðað er við raunverulegt verðgildi peninganna, voru árin 1940–41 beztu ár landbúnaðarins.“ — Svo mörg eru þau orð. Og auk þeirra margar bollaleggingar um það, að mikið hefði nú þjóðinni verið betur borgið, ef kjötverðið hefði verið í þrem kr. innanlands og kaupið niðri að sama skapi. Þá hefði svo sem ekki þurft að kvarta um, að kaupið væri að steindrepa landbúnaðinn.

Um gildi háa kaupgjaldsins er bezt að gera sér þetta ljóst: Útflutningsvörurnar, fiskafurðirnar, hafa vegið á móti innfluttum vörum og þannig staðið undir þeim lífskjörum, sem þjóðin hefur búið við, og þeim framkvæmdum, sem gerðar hafa verið. Þær inneignir, sem safnazt hafa erlendis, eru fyrir vinnuafl það, sem starfaði í þágu setuliðsins. Það vinnuafl var raunverulega útflutningsvara, og krafan um lækkað kaupgjald var því krafa um, að viljandi væri boðizt til að lækka eina af útflutningsvörum landsmanna. Og þetta átti að réttlæta með því, að landbúnaðurinn gæti ekki greitt svona hátt kaup. Þannig hefði alveg eins mátt krefjast þess, að fiskverðið hefði verið viljandi lækkað, til þess að landbúnaðurinn gæti keppt um vinnuaflið við togaraútgerðina, þótt slík ráðstöfun hefði hlotið að þýða lækkaðar þjóðartekjur og lækkuð lífskjör þjóðarheildarinnar eða lækkaðar innstæður erlendis. Við gætum sagt tvöfalt minni erlendar innstæður, tvöfalt minni möguleika til að endurnýja og auka framleiðslutæki þjóðarinnar, tvöfalt minni trygging fyrir atvinnu handa öllum.

Þetta er krafa Framsfl. En hvað snýr að bændunum? Það er hugsanlegt, að þeir örfáu bændur, sem reka virkilegan stórbúskap með aðkeyptu verkafólki, svo að kaupgjald er meiri hlutinn af útgjöldum búsins, hefðu ekki tapað á verðfestingunni, með því að sá sparnaður, sem þeir hefðu fengið í kaupgreiðslum, hefði numið meira en því, sem tekjur þeirra hefðu orðið minni vegna lægra afurðaverðs. Í þeim hópi eru ekki margir. Næst þar fyrir neðan kæmi dálítill hópur, þar sem þessir liðir mundu vega hvor móti öðrum. Þeir hefðu hvorki grætt né tapað. Þriðji flokkurinn er allur sá fjöldi bænda, sem kaupir minna vinnuafl en þessu nemur og allt ofan í ekki neitt, allir einyrkjabændur og allir þeir, sem reka bú sín með uppkomnum börnum sínum og öðru venzlafólki. Þetta fólk allt hefði fengið óviðráðanlegar hækkanir á gjöldum sínum og lögbundið bann við hækkun á tekjum sínum. Það er óhætt að fullyrða, að til síðastnefnda flokksins telst mikill meiri hluti bændastéttarinnar. Og það þarf meir en lítil brjóstheilindi til að prédika það sífellt fyrir þeim fjölda bænda, sem börðust við skuldirnar fyrir styrjöldina, að þeim hefði gengið betur að greiða þær, ef þeir hefðu fengið 3 kr. fyrir kg. af kjötinu en að fá 6–7 kr. fyrir það, enda er þeim áreiðanlega mjög að fjölga, sem ekki taka þann boðskap alvarlega.

Þó er eitt ótalið enn. Alla tíð fram að styrjöldinni var svo mikil sölutregða á innlenda markaðinum; að nokkuð varð að flytja út, alltaf fyrir lægra verð en selt var innanlands. Atvinnuaukningin og kaupgetan, sem styrjöldin skapaði, hefur gerbreytt þessu svo, að kjötið hefur allt selzt innanlands, og eftirspurn eftir mjólkurvörum er miklu meiri en framboðið, þrátt fyrir þá framleiðsluaukningu, sem orðið hefur.

Svo sjá leiðtogar Framsfl. enga leið vænlegri fyrir landbúnaðinn en að rýra afkomumöguleika þessa fólks, þótt staðreyndirnar liggi svo ljósar fyrir, að innanlandsmarkaðurinn skapar afkomumöguleika landbúnaðarins. Það gildir alla bændur jafnt, stærri og smærri. Kemur nokkrum til hugar að trúa því, að erlent vöruverð hefði staðið kyrrt, þótt afurðaverð og kaupgjald á Íslandi hefði verið bundið með lögum 1941? Kemur nokkrum til hugar, að vátryggingar- og farmgjöld hefðu ekki hækkað? Var ekki Framsókn með í því að hækka tollana og leggja þá ofan á farmgjöld og vátryggingar og auka þannig stórkostlega heimildir til meiri verzlunarálagningar? Kemur nokkrum til hugar að trúa því, að stríðsgróðinn hefði allur verið tekinn í ríkiskassann, meðan sú stjórn sat að völdum, sem óhætt mátti telja fulltrúa peninga- og gróðamanna í landinu?

Nei, verðfestingarfrumvarpið var harðneskjuleg tilraun til að halda niðri kjörum bæði verkamanna og bænda. Og það er athyglisvert, að hún er gerð á tímum, sem færa þjóðinni meira fjármagn en hana hafði dreymt um nokkru sinni fyrr. Hefði það tekizt, voru að engu gerðir möguleikar bændanna til að borga skuldir sínar, að engu gerðir möguleikar efnaminni launþega til að auka tekjur sínar. Stríðsgróðinn hefði engu að síður haldið áfram að velta inn í landið. Hvert hefðu svo krónurnar lent? Milljónaeigendurnir orðið fleiri og stærri. Þessari árás Framsóknar á afkomu alls almennings í landinu var hrundið, enda var nú flokkurinn að missa völdin í landinu.

Það, sem Framsókn notar aðallega til að sanna bændum, að núv. ríkisstjórn og flokkar hennar séu þeim fjandsamlegir, er það, að ekki var gerð 20% hækkun á landbúnaðarvörum síðastliðið haust í stað 9,7%. En hvað hafa þeir sjálfir gert til þess, að hægt væri að halda sex manna nefndar samkomulaginu áfram? Álitið var byggt á þeim 30–40 búreikningum, sem fyrir hendi voru, eða einn reikningur fyrir hverja 160–170 bændur. Auk þess voru þeir flestir úr vissum landshlutum, en mjög fáir úr sumum. Það var samkomulag nefndar B.Í. og Alþýðusambandsins að nota þennan grundvöll, þótt ótraustur væri, meðan annað var ekki fyrir hendi, og á því byggðust dýrtíðarlögin, sem áttu að gilda meðan á stríðinu stæði. Hins vegar lýstu fulltrúar Alþýðusambandsins því þegar yfir, að þeir teldu þörf að endurskoða grundvöllinn. Enn fremur má taka fram, að þótt rétt hlutfall væri fundið í eitt skipti, þá er það breytilegt eftir því, sem afköstin aukast og framleiðslukostnaður lækkar. Séu á einu ári fluttar inn 500 sláttuvélar og verksvið til fyrir þær, þá eykur það framleiðslumagn hverrar vinnueiningar. Að þessu leyti er grundvöllurinn breytilegur og mundi þurfa endurskoðun á fárra ára fresti, svo framarlega sem landbúnaðurinn stendur ekki í stað.

Til þess að hægt væri að tryggja áframhald þessa samnings, lagði Sósfl. til á næsta Alþingi, að n. yrði falið að starfa áfram, svo að hægt væri að tryggja samkomulag um málin að stríðinu loknu. Einnig að ríkið tæki í sínar hendur búreikningaskrifstofuna og réði form hennar í sína þjónustu, til þess að starfa eingöngu að þessum málum. En þetta var fellt með atkv. þeirra manna, sem nú hrópa hæst um svik við bændur í sambandi við verðlagninguna á s. l. hausti. Eins og kunnugt er, voru það B. Í. og Alþýðusambandið, sem stóðu að þessari margumræddu nefnd. Og strax á árinu 1943 sneri Alþýðusambandið sér til B. Í. með tilmælum um að hefja umræður um samstarf bænda og verkamanna. Þeirri málaleitun var ekki svarað. Þá sneri Alþýðusambandið sér 1944 til hreppabúnaðarfélaganna og bændanna almennt með boðun bændaráðstefnunnar. En í opnu bréfi, sem stjórn B. Í. skrifaði til bænda, leggur hún á móti því, að þeir taki þátt í þessari ráðstefnu. Samt var hún haldin, þótt fámennari væri en æskilegt hefði verið. Ályktanir hennar voru gefnar út í bæklingi og sendar formönnum allra hreppabúnaðarfélaga í landinu ásamt ósk um, að þau athuguðu, hvort ekki væri rétt að halda aðra í haust. Hafi formenn búnaðarfélaganna ekki stungið þessu erindi undir stól, ættu meðlimir þeirra nú að hafa fengið að kynnast þessum ályktunum og séð, hvort þær eru nokkuð hættulegar fyrir bændastétt landsins. Einnig hafði Alþýðusambandið sent búnaðarþinginu s.l. vetur ályktanirnar, strax í byrjun þess, og mælzt til viðræðna á grundvelli þeirra um eitt atriði eða fleiri, en sérstaklega um verðlagningu búvaranna, þar sem að kallaði með lausn hennar þegar á þessu hausti. Vitanlega hefði þingið átt að fylgjast með þessum viðræðum, enda tilætlun Alþýðusambandsins. En B.Í. lét sér nægja að vísa málinu til allsherjarnefndar, sem aðeins átti tvö viðtöl við nefnd frá Alþýðusambandinu, og lagði svo í lok þingsins fram till. þess efnis, að stjórninni væri falið að ræða við Alþýðusambandið, ef það óskaði þess og stjórn B. Í. teldi ástæðu til. Þessi meðferð var tilraun til að hundsa tilmæli Alþýðusambandsins, en á svo kurteislegan hátt sem unnt var.

Þannig leið tíminn fram í miðjan maímánuð. Þá var farið að bóla á sérstakri hreyfingu á Suðurlandi, sem líkleg var til þess að láta þessi mál til sín taka og hefur e. t. v. ýtt við stjórn B. Í.

Hinn 16. maí skrifar hún Alþýðusambandinu alllangt bréf með áður nefndri samþykkt búnaðarþings, býst til að hefja viðræður, en ávítar jafnframt Alþýðusambandið fyrir að hafa leyft sér þann ósóma að snúa sér til bændanna sjálfra. Þessu svaraði Alþýðusamb. strax 22. maí, þar sem það tjáir sig reiðubúið til viðræðna og óskar, að Búnaðarfélagið tilnefni stund og stað, er því henti. Þessu svarar Búnaðarfél. 8. júní og ákveður fund 4. júlí. Það þurfti meira en 5 vikur til að ákveða og undirbúa þennan eina fund, sem það sá ástæðu til að halda um málið milli búnaðarþinga.

Þegar hér var komið, gat ríkisstj. ekki látið málið lengur afskiptalaust. Þess vegna ritar landbrh. búnaðarþingi strax, þegar það kom saman, og óskaði, að viðræðum yrði hraðað og helzt lokið fyrir miðjan ágúst, því að lengur gæti stjórnin ekki dregið að taka ákvarðanir. Þess vegna komu nú nefndirnar saman og komust nú það langt, að samkomulag varð um tillögur, sem ég, tímans vegna, verð að láta mér nægja að segja efnið úr.

I. Þessi félagssamtök fari þess á leit við ríkisstj., að hún skipi nefnd til að endurskoða grundvöll búvísitölunnar samkv. tilnefningu tveggja aðila, en sjálfkjörnir séu hagstofustjóri og forstjóri búreikningaskrifstofunnar.

Niðurstöður séu ekki bindandi, nema fulltrúar viðkomandi félagssamtaka verði sammála, og verðlag miðað við, að framleiðendur búnaðarvara hafi laun sambærileg við hliðstæðar stéttir.

Um verðið í haust náðist ekki samkomulag. Vísitala landbúnaðarins lá ekki fyrir. Alþýðusamb. bauð þá hækkun, sem búnaðarþing gaf eftir í fyrra, en búnaðarþingsfulltrúar vildu heimta þá hækkun, sem kynni að hafa orðið síðan. Þá óþekktu stærð vildu fulltrúar Alþýðusamb. ekki fallast á, enda ókunnugt um þátttöku ríkissjóðs í niðurgreiðslum.

II. B. Í. og Alþýðusamb. leggja til, að ríkisstjórn skipi 4 menn, 2 frá hvoru, í nefnd til athugunar á eftirtöldum atriðum.

a. Löggjöf um framlög eða aðrar aðgerðir ríkisins til öflunar alls heyfengs á ræktuðu landi og framleiðslu landbúnaðarvara við lágmarksaðstöðu.

b. Uppbyggingu a. m. k. eins byggðahverfis nú þegar.

c. Áætlun um framtíðarbúskap, er miðist við að fullnægja neyzluþörf landsmanna fyrir búvörur, og leiðir til að ná henni.

d. Hindra brask með jarðeignir, lóðir og lendur.

e. Athuga leiðir til að fullnægja verkafólksþörf landsbúa og auknu samstarfi verkamanna og bænda.

Þessa ályktun samþykkti Alþýðusambandsstjórnin. En búnaðarþingið lét sér enn þá nægja að vísa málinu til stj. og fela henni að ganga frá þessum málum á þeim grundvelli, sem lagður er með viðræðum nefndarinnar.

Þannig stóðu málin, þegar búnaðarþingi lauk. Og síðan virðist áhugi Búnaðarfél. hafa meira beinzt að öðrum hlutum, sem nú skal nánar lýst.

Það er stofnun þessa fræga stéttarsambands bænda, sem framsóknarmönnum er svo tíðrætt um núna, og má óhætt fullyrða, að meðferð þess máls er eitthvert furðulegasta fyrirbrigðið í félagsmálastarfsemi, sem gerzt hefur hér á landi, og er gleggsta dæmi þess, hvernig pólitískir forustumenn bændastéttarinnar hafa málefni hennar að leiksoppi. Öllum er kunnugt um þann klofning, sem nú er í Framsfl., þar sem fyrrv. formaður flokksins, með allmikinn liðskost með sér, heldur uppi hatrammri baráttu gegn gömlum lærisveinum, sem hafa sparkað honum til hliðar. Þessi órólega deild stóð á sínum tíma að útgáfu blaðsins Bóndinn, sem talaði djarft um það, að bændur þyrftu að mynda sér nýjan flokk. Hún tók líka upp hatramma baráttu gegn þeirri samþykkt búnaðarþings í fyrrahaust að falla frá hækkun afurðaverðsins, og stjórnmálatímaritið Ófeigur, sem stundum flettir óþyrmilega ofan af samkomulagi framsóknarheimilisins, taldi þá eftirgjöf vera þátt í baráttu „ráðherrastríðsins“, það er í staðinn hafi átt að koma sæti forsætisráðherra handa núverandi formanni flokksins.

Í framhaldi af þessu tók órólega deildin að vinna að stofnun stéttarsambands bænda, sem í sjálfu sér er ágæt hugmynd, ef hægt væri að halda því utan við flokkspólitískar erjur. En þá var líka valdadeild flokksins nóg boðið. Búnaðarþing var kallað saman mánuði fyrr en áður hafði verið ákveðið, til þess að taka afstöðu til þessa væntanlega sambands, því að hér var barizt um fylgi bændastéttarinnar. Og ráðin voru fundin. B. Í. tilkynnti hátíðlega, að það vildi gera stéttarsambandið að deild innan sinna vébanda. Það ákvað kosningafyrirkomulag sambandsins, og í tilbót ætluðu þeir að lána form. B. Í. til að stjórna fundum þess. Ekki vantaði greiðviknina. Gegn samþykki bændanna á þessu bauðst B. Í. til þess að löggilda þennan fyrsta fund sem stofnfund stéttarsamtakanna. Eins og stéttarsamband bænda þurfi á nokkurri slíkri löggildingu að halda frá B.Í. Hitt er annað mál, að ef slíkur stéttarfélagsskapur gerir kröfu til að ráða verðlagsmálum landbúnaðarins, þá þarf samþykki æðri stjórnarvalda til þess.

Þá er rétt að upplýsa, hvernig valdadeild Framsóknar hyggst að ná valdi yfir stéttarsambandinu með þessum ráðum. Fram að árinu 1936, að nýju jarðræktarlögin gengu í gildi, var kosið til búnaðarþings óbeinum kosningum á aðalfundum búnaðarsambandanna. En með lögunum er þessu breytt og ákveðið að kjósa hlutbundnum kosningum á aðalfundum hreppabúnaðarfélaganna í sveitunum. Þannig tókst Framsókn að tryggja sér meiri hluta á búnaðarþingi og gegnum það meiri pólitísk áhrif innan bændastéttarinnar. Nú þóttist valdadeild flokksins sjá, að ef bændur stofnuðu nýtt stéttarsamband á þeim grundvelli, sem lagður var, væru hennar pólitísku áhrif í hættu og þess vegna þyrfti að ná tökum á þessu sambandi. Til þess að ná því marki beitir hún B. Í. fyrir sig með því að láta það heimta pólitískar hlutfallskosningar til sambandsins og fundarstjóra á fundum þess, en býður svo í staðinn þessa merkilegu löggildingu.

Nú get ég upplýst það, að þess munu hvergi finnast dæmi, að flokkspólitískar hlutfallskosningar séu viðhafðar innan stéttarsamtaka. Þótt þess séu dæmi, að komið hafi fram kröfur um slíkar kosningar, t. d. innan verklýðssambanda, þá hafa þær ætíð komið frá atvinnurekendum, í þeim tilgangi að vekja glundroða og drepa á dreif stéttartilfinningu verkalýðsins. Stéttin er ekki þjóðfélag, og stéttarþingið er því annars eðlis en löggjafarþingið. Það fjallar um málefni stéttarinnar innan þess ramma, sem stéttarlegu viðhorfin skapa. Þeir menn, sem heimta flokkspólitískar kosningar til stéttarsambands bænda, geta aðeins haft tvær ástæður til að gera slíkar kröfur. Önnur er sú, að þeir skilji ekki eðli stéttarsamtaka, kunna ekki að greina stétt frá flokki eða stéttarmál frá flokksmáli, kunna ekki skil á þeim mismun, sem er á eðli stéttarþings og þjóðþings. Ef þetta er ástæðan, má e. t. v. með nokkurri sanngirni biðja þeim fyrirgefningar, vegna þess að þeir vita ekki, hvað þeir gera. — Hin ástæðan er sú, að þeir vilji hindra stéttarlega einingu bændanna, vegna þess að þeir óttist um flokkspólitíska hagsmuni, ef bændurnir næðu til að byggja upp samtök sín á heilbrigðum grunni og þar með að eflast að stéttarlegum hugsunarhætti og stéttarlegum skilningi. Sé ástæðan þessi, er hún ófyrirgefanleg. Þessi afstaða er því furðulegri, þar sem einmitt hinir sömu menn, er heimta flokkspólitískar hlutfallskosningar til B. Í. sem er faglegur félagsskapur, og til stéttarsambandsins, sem er stéttarlegur félagsskapur, fjandskapast víð hlutfallskosningar til Alþingis, þar sem þær samkvæmt eðli sínu eru réttmætar. Þetta er ljóst dæmi þess, hvernig afstaða þessara manna í þessum málum eins og öðrum mótast af því einu, hvort þeir telji sig hafa pólitískan hag af þeim eða ekki. Á stofnfundinum á Laugarvatni var deilt um þetta í fleiri daga og klofningur hindraður með því einu að láta þetta aðalskipulagsmál samtakanna vera óútkljáð.

Þannig er ómögulegt að viðurkenna sambandið stofnað enn þá, þar sem eftir er atkvgr. um skipulag þess. Þessi deila stendur ekki um lítils háttar formsbreytingu, heldur stórfellda eðlisbreytingu. En fullyrða má, að verði skipulagsform B. Í. samþ., þá er bændastéttin eina stétt landsins, sem lætur pólitíska flokksforingja bjóða sér slíkt gerræði.

Þannig eru stéttarsamtök bændanna þegar í fæðingu gerð að pólitísku bitbeini, ekki milli stjórnmálaflokka, heldur milli þeirra tveggja flokksbrota, sem berjast um völdin innan Framsóknar. Svo á þetta að heita ópólitískur félagsskapur. Slík er meðferð Framsóknar á málum bændanna. Þó er þeim ekki klígjugjarnt við að fullyrða, að allir aðrir en þeir séu fjandmenn landbúnaðarins.

Svo á s.l. hausti, þegar baráttan er hafin um stéttarsambandið, tilkynnir B. Í. að ef sambandið verði innaxl þess vébanda, þá verði kostnaðurinn greiddur úr búnaðarmálasjóði. Fyrir fé búnaðarmálasjóðs á að kaupa yfirráð stéttarsambandsins.

Þá eru annars vegar kröfurnar um, að þetta hálfstofnaða samband ráði algerlega verðlagningu landbúnaðarvara. Hv. þm. V.-Ísf. hefur gert því máli skil, og fer ég því ekki út í það. En ég vil leyfa mér að undirstrika það, að þessar kröfur fara í þveröfuga átt við þær staðreyndir, að þegar Framsfl, fór að skipa þessum málum að vild sinni, þá færði hann valdið úr höndum bændastéttarinnar til annarra aðila. Og þegar ríkissjóður leggur fram stórfé til að halda verði varanna í skefjum, þá getur ríkisvaldið ekki látið verðlagninguna í hendur pólitískra spekúlanta. Það hefur verið deilt um, hvað ætti að kalla þessi útgjöld ríkissjóðs, hvort þau eigi heldur að teljast styrkur til framleiðenda eða neytenda. Þessi deila er heimskuleg og gerir ekkert annað en rugla skilning fólks á því vandamáli, sem um er að ræða. Þetta fé er framlag ríkissjóðs til þess að halda niðri vísitölunni, af því að framleiðslukostnaður landbúnaðarvaranna er of mikill til þess að verð þeirra megi koma óbreytt inn í vísitöluna. Ég get samt gert Framsókn það til þægðar núna að kalla það neytendastyrk og launaviðbót. Þetta nam 22 ½ millj. kr. á síðasta ári. Ef ríkissjóður hefði ekki greitt þetta, en vörurnar verið í sama verði, þá er það sama sem stórkostleg kauplækkun. Hvaða áhrif skyldi sú ráðstöfun hafa haft á kjötsöluna innanlands? Hefði kjötið verið kr. 3.11 dýrara, er hætt við, að það hefði mátt flytja æðimikinn hluta af því út fyrir hraksmánarverð, sem hefði skapað bændum mun lægra heildarverð en þeir fengu. Og sífellt telur Framsókn, að kauplækkun sé það eina bjargráð, sem landbúnaðurinn þurfi.

Með skipun landbúnaðarráðsins í haust var af stjórnarflokkunum gerð tilraun til þess að leysa vandamál þau, sem brýnust lágu fyrir, og hindra það, að aðgerðarleysi búnaðarþingsins sigldi honum í strand, þegar stríðinu var lokið og dýrtíðarlögin fallin úr gildi. Þó á Framsókn ekkert til annað en skammir um þessar ráðstafanir, persónulegt níð um mennina, kröfur um, að landbúnaðarvörurnar séu hækkaðar um 20% frá í fyrra eða að nú sé fylgt að fullu sex manna nefndar álitinu, sem hún féll frá sjálf fyrir ári síðan. Og þá er rétt að athuga betur afstöðu Framsóknar 1944 til þessa samnings. En áður en farið er að kryfja þá afstöðu til mergjar, er rétt að minnast eins atriðis.

Utanþingsstjórnin var að víkja og það lá fyrir að mynda nýja stjórn. Þá tilkynnir sex manna nefndin, að vísitala landbúnaðar hafi hækkað um 9,4%. Búnaðarþing er kallað saman — ekki til þess að heimta þessa hækkun, heldur til þess að gefa hana eftir. Og þó hefur flokkurinn gerbreytt afstöðu til útflutningsuppbóta frá árinu áður. Formaður flokksins skrifar í Tímann grein og segir m. a. (með leyfi hæstv. forseta) : „Dýrtíðarlögin, sem nú eru í gildi, eru frá 1943. Það hafa margir misskilið þessi lög. Þeir hafa álitið, að með þeim tæki ríkissjóður ábyrgð á því, að bændur fengju tiltekið verð fyrir afurðir sínar. Svo er ekki.“ Síðan heldur greinarhöf. áfram og reiknar, að til þess muni ríkið þurfa 30 millj. kr. Og það telur hann ómögulegt að greiða. Og formaður B. Í. sagði í útvarpinu, að bændur hefðu gert hagfelldan samning með því að falla frá hækkuninni. Hvers vegna? Af því að hann bjóst við, að hækkað verð mundi leiða af sér sölutregðu, og viðurkenndi, að ríkið gæti ekki keypt afganginn á fullu verði. Þá mundi hækkaða verðið verða bændum beinlínis til tjóns. Hins vegar var það ekkert um deilt, að dýrtíðarlögin voru í gildi, stríðinu var ekki lokið, og enginn vissi það fyrir. Aðrir atvinnuvegir höfðu engan hnekki beðið. Samt áleit Framsókn hagfellt fyrir bændur að gefa eftir af því verði, sem skýlaus lagafyrirmæli heimiluðu þeim að setja á vörurnar innanlands. Hvers vikapiltar voru búnaðarþingsfulltrúarnir þá? En þá ætlaði Framsókn að fara í ríkisstjórn og ná völdum í landinu. Berum svo þetta saman við afstöðuna nú. Stríðið er búið, dýrtíðarlögin úr gildi fallin. Einn aðaltekjustofn þjóðarinnar, síldveiðin, hefur brugðizt gersamlega, sem rýrir stórkostlega tekjur ríkisins og fjölda einstaklinga. Samt er fylgt þeirri vísitöluhækkun, sem orðið hefur síðan í fyrra. Þá getur Framsókn látið öll sín gjallarhorn æpa í einum kór um hækkunina, sem þeir höfðu sjálfir gefið eftir, og birtir alls konar útreikninga eftir forustusérfræðinga sína um það, hvað bændur séu féflettir. Verst er þó, að tölunum ber yfirleitt illa saman. Það var leitt, að þessir útreikningar skyldu gleymast í fyrra. Annars hefðu þeir getað skemmt sér við að leggja tölurnar saman og sýna bændum, hvað þeir hafa verið snuðaðir bæði árin.

En athugum, hvaða þýðingu þessar kröfur gætu haft fyrir bændastéttina sjálfa, ef eftir þeim væri farið. Kjötframleiðslan í haust mun vera um 5500 tonn. Ef þessi framleiðsla selst öll innanlands, á hún að gefa bændum um kr. 7.48 pr. kg. En hver 500 kg., sem út þarf að flytja fyrir kr. 4.00 pr. kg., (og mun ekki von um hærra), lækka verðið til bændanna um kr. 0.32 pr. kg.

500 tonn flutt út lækka verðið niður í kr. 7.16

1000 — — — — — — 6.85

1500 — — — — — — 6.53

2000 — — — — — — 6.21

2500 — — — — — — 5.90

3000 — — — — — — 5.58

Á þessu sést greinilega, hve hættulegt það er að skapa sölutregðu hér innanlands og hve glæfralegt það hefði verið af verðlagsnefndinni að fylgja kröfu Framsóknar um 20% hækkun. En hvaða tökum hefur nú stjórn þessa hálfstofnaða stéttarsambands tekið á verðlagsmálunum? Hún er kosin á Laugarvatni fyrir 9. sept. Á fundi, sem hún heldur 4.–9. okt., tekur hún málin fyrst til meðferðar og sendir frá þeim fundi opinbert plagg m. a. um áskoranir um verðbætur á útfluttar vörur. En eftirtektarverðasta atriðið í þessu plaggi er þó tilkynning um, að hún hafi ákveðið að ganga hið fyrsta frá frv. um sölustöðvun á framleiðsluvörum bænda, ef til þyrfti að taka, og ýmis ákvæði í sambandi við það. Þetta frv. kvað eiga að senda stjórnum búnaðarsambandanna til umsagnar. Ekki á að láta ræða það í hreppabúnaðarfélögunum. E. t. v. er líka tryggara að fara með það fyrir ofan garð og neðan hjá bændum sjálfum.

Um sölubann á kjöti má fullyrða, að þótt það stæði í heilt ár, þá drepur það engan mann. Og vegna þess að ég hef lítinn tíma, skal ég sleppa því að tala mikið um, hvaða áhrif algert sölubann á mjólk mundi hafa á heilsu og þroska smábarna og unglinga, aðeins bendi ég hlustendum á að íhuga það.

En svo vil ég leyfa mér að spyrja þá menn, sem að þessu standa, hvernig þeir ætli að koma í veg fyrir það, að leyfður verði ótakmarkaður innflutningur á hvers konar landbúnaðarvörum, sem fáanlegar eru, kjöt fyrir 3–4 kr. kg, smjör fyrir 4–6 kr. kg., mjólkurduft og niðursoðin mjólk fyrir miklu lægra verð en hér. Og hafa þessir menn gert sér ljóst, hvaða áhrif svona stríðsyfirlýsing hefur á sölumöguleika bændanna í framtíðinni, ef gersamlega væru rofnir allir möguleikar til vinsamlegs samkomulags milli framleiðenda og neytenda? Og hvað skyldi þurfa mörg ár til að gróa um heilt eftir slíka styrjöld? Þeir menn, sem ráða bændastéttinni til slíkra hluta, eru ekki að hugsa um fjárhagslega hagsmuni hennar, heldur um pólitíska hagsmuni sjálfra sín. Og þessi boðskapur er fluttur eftir að sterkustu samtök launþeganna hafa gengið eftir þeim með grasið í skónum til þess að fá þá til viðræðu um samkomulagsgrundvöll.

Hér er ekki hikað við að steypa bændastéttinni í vandræði, bara ef takast mætti að reka hana saman í harðan hnapp til andstöðu við núv. ríkisstjórn og áform hennar. En það væri bæði heiðarlegra og fyrirhafnarminna að sleppa svona margbrotinni krókaleið, en koma heldur beint til bændanna og segja við þá umbúðalaust: Tekjur ykkar hafa verið of háar núna stríðsárin, þið eigið að lækka þær. Og einfaldasta ráðið fyrir ykkur er að hella helmingnum af mjólkinni í lagargryfjuna og fleygja helmingnum af kjötinu í haughúsið. — Því fyrir fjárhagslega afkomu bændanna er nákvæmlega sama, hvor leiðin er farin. — Það má gera skemmtilegan útdrátt úr þessum starfsferli Framsfl. Þegar Framsókn fer með völd á krepputímum, er boðskapurinn til bændanna að spara allt nema halda í sér lífinu. Þegar Framsókn skipar verðlagsmálum bændanna, þá lætur hún starfandi bændur vera í örlitlum minni hluta í öllum þeim nefndum, sem með verðlagsmálin fara. Þegar styrjöldin skapar uppgangstíma fyrir þjóðarheildina, þá berst Framsókn með hnúum og hnefum móti því, að bændur fái nokkra hlutdeild í gróða þeim, sem þjóðinni fellur í skaut. Þegar Framsókn ætlar í stjórn, lætur hún B. Í. gefa eftir fyrir þeirra hönd verðhækkanir, sem lög heimiluðu. Þegar Framsókn er oltin út úr stjórnarsamvinnu, gengur hún berserksgang til þess að fá bændur til að gera kröfur, sem engin heimild er fyrir og mjög líklega mundu verða til tjóns fyrir þá sjálfa, og heimtar ríkisframlög, sem hún sjálf hafði dæmt ómöguleg einu ári fyrr. Þegar allar aðrar stéttir hafa látið hörðustu ágreiningsmál niður falla og sameinazt um að byggja upp atvinnuvegi þjóðarinnar til hagsbóta fyrir framtíðina, gerir Framsókn örvita tilraun til að skipuleggja bændastéttina alla í einni fylkingu móti því uppbyggingarstarfi, þótt hver meðalgreindur maður hljóti að sjá, að ef slík einangrun verður að veruleika, getur hún ekki leitt til neins annars en hruns fyrir bændastéttina sjálfa.