26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (4812)

203. mál, verkamannabústaðir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vil fyrst og fremst taka mjög undir það, sem segir í upphafi grg. þessa frv., að l. um verkamannabústaði séu tvímælalaust þýðingarmesta löggjöf, sem Alþ. hefur sett til að greiða fyrir byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, og að skilningur almennings á þýðingu þessarar löggjafar hefur farið hraðvaxandi. Það er mjög gleðilegt að veita því athygli, jafnmikilli beinni andstöðu sem þetta hefur mætt eða þá skilningsskorti á sínum tíma, þegar l. um bygging verkamannabústaða voru afgr. hér á Alþ. 1929 og þær breyt., sem á þeim voru gerðar á síðasta þingi. Ég tel það sízt ofmælt, sem bent er á í grg. þessa frv., að hugir manna í öllum kaupstöðum og kauptúnum standa nú mjög til þess að geta notið ákvæða löggjafarinnar um bygging verkamannabústaða. Og þá ekki síður hitt, sem mér er kunnugt um, að frv. það, sem nú liggur fyrir Nd. um fyrirgreiðslu íbúðarhúsbygginga í kaupstöðum og kauptúnum, hefur úti um bæi og byggðir landsins vakið hinn mesta áhuga, og hugir manna standa til þess, að það frv. verði afgr. hér á Alþ., og vil ég vænta þess, að svo megi verða, enda skilst mér, að líkur séu til þess, að frv. það, sem er í Ed., muni bráðlega koma úr nefnd og þess megi vænta, að höfuðákvæðin verði samþ. hér á þinginu. Ég vil fyrst og fremst undirstrika þetta og í annan stað geta þess, eins og fram kom í ræðu hv. flm., að það frv., sem hér liggur fyrir, á að sjálfsögðu að taka til athugunar í sambandi við frv. í Ed. Og þó að frv. í Ed. geri ráð fyrir verulegri fjáraukningu til hins almenna byggingarsjóðs verkamanna, þá má þó búast við því, að verulegur hluti af þeirri fjáraukningu, sem í sjóðinn kann að koma að lögunum afgreiddum, gangi til greiðslu á mismun þeirra vaxtakjara, sem sjóðurinn verður að sætta sig við, og þeirra vaxtakjara, sem veitt verða af þeim mönnum, sem byggja eftirleiðis verkamannabústaðina. Ég held því, að í raun og veru hefði átt betur við, að það frv., sem hér liggur fyrir, hefði komið sem brtt. við allsherjarfrv., sem nú er í Ed., og hvernig sem fer um þetta frv., á að taka það til athugunar í sambandi við heildarlöggjöf um þessi mál.

Ég vil ekki um það segja á þessu stigi, hvort það muni vera gerlegt að fara þá leið, sem í frv. er gert ráð fyrir, að skylda þjóðbankann til þess að leggja fram allt að 20 millj. kr. til að kaupa skuldabréf byggingarsjóðs verkamanna. Ég álít, að það þurfi athugunar við, hvort hægt er að leggja þetta á þjóðbankann, en ef það gæti tekizt í góðu samkomulagi við hann, teldi ég það vel farið, eða þá að reyna að finna einhverja aðra leið, sem greiddi úr því, að byggingarsjóður verkamanna fengi nægilegt lánsfé til þess að svara þeirri eftirspurn, sem mikil er og vaxandi til byggingar verkamannabústaða í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Í grg. er nokkuð vikið að því atriði, en það er ekki alveg rétt með farið í sumum atriðum, þar sem upp er talið um þetta. Þó að heildartölurnar séu mjög nærri hinu rétta, þá er farið að nokkru leyti rangt með tölur, og þykir mér rétt að leiðrétta það. Í grg. stendur, að hjá sjóðnum liggi óafgreiddar beiðnir, sem eftir sé að greiða, og er þar m. a. talinn Neskaupstaður með 600 þús. kr. og Hafnarfjörður með 1 millj. og 300 þús. krónur. Þetta er ekki rétt, lánbeiðnir frá Neskaupstað og Hafnarfirði eru þegar afgreiddar og lofaðar af byggingarsjóði verkamannabústaða. Og lánbeiðni frá Neskaupstað er ekki 600 þús. kr., heldur 510 þús. kr., og lánbeiðni frá Hafnarfirði er ekki 1 millj. og 300 þús. kr., heldur 1 millj. og 600 þús. kr. Þessar upphæðir, sem ég hef nefnt, eru lofaðar af sjóðsstjórninni, og eiga því byggingarfélög hlutaðeigandi staða, í Hafnarfirði og Neskaupstað, kröfu á því, að sjóðurinn sjái um, að þetta fé komist í tæka tíð til byggingar verkamannabústaða. Þegar er hafin vinna á báðum þessum stöðum, og í Hafnarfirði er meira að segja verulegum hluta af byggingunni lokið. Hinir nýju verkamannabústaðir voru boðnir út í ákvæðisvinnu, eftir að ákveðið loforð var fengið um byggingu þeirra, enda mun það sannast sagna, að þótt erfiðlega hafi gengið um fjáröflun, mun því vera svo komið fyrir um hið lofaða fé, að það verður fram lagt, sérstaklega af því að formaður byggingarsjóðs viðkomanda er einn bankastjóri Landsbankans, og mun hann reyna að sjá svo um, að þau lán, sem lofað er og ekki hafa enn fengizt með lánsútboði, verði keypt að tilhlutun Landsbankans, annaðhvort af bankanum sjálfum eða fyrir milligöngu hans, af stofnunum, svo sem sparisjóðum og öðrum stofnunum. Ég skal geta þess, að lofuð lán til verkamannabústaða nema tæpum 10 millj. kr., eða 9 millj. og 865 þús. króna. Til Akraness er þessi upphæð kr. 1.325.000, enda eru nú verkamannabústaðirnir þar fullbyggðir. Til Ísafjarðar hefur verið lofað kr. 880.000, og hefur mest af því verið innt af höndum, kr. 859.000, enda bygging þar lokið. Til Keflavíkur hefur verið lofað kr. 1.020.000, og er nú verið að byggja þar þessa verkamannabústaði. Hefur sjóðurinn innt af hendi ½ millj. kr., og eftir standa því kr. 520 þús., sem sjóðurinn þarf að láta til byggingarinnar. Neskaupstaður hefur beðið um 510 þús. kr. og fengið loforð fyrir því. Hefur hann fengið 450 þús. kr., og eftir standa þá 50 þús. Vestmannaeyjar báðu um 620 þús. kr. og hafa þegar fengið svo að segja alla þá upphæð greidda. Reykjavíkurbær bað um 2½ millj. kr., og er bygging þegar hafin. Hafa byggingarfélögin í Reykjavík fengið borgað tæplega ½ millj. kr., og standa því eftir ca. 2 millj. króna. Samtals hefur verið lofað til byggingar verkamannabústaða nú undanfarinn tíma tæpl. 10 millj. kr., eða kr. 9.865.000. Af því er þegar greitt kr. 4.667.750, en eftir er að greiða kr. 5.197.000, og eins og ég hef tekið fram, hefur stjórn byggingarsjóðs gefið bindandi loforð um þessi lán, og verður því að inna þau af höndum, og verður Landsbankinn þar að hlaupa undir bagga með það, sem ekki kynni að fást með útboðum. Það er rétt í grg., að af því 3½ millj. kr. láni, sem boðið var út, hefur ekki selzt nema sem svarar 1 millj. En ég geri ráð fyrir, að Landsbankinn sjái um, að þetta loforð verði uppfyllt að öðru leyti. Ég geri einnig ráð fyrir, að Landsbankinn mundi hlaupa undir bagga með það, sem á kynni að vanta til þess að fullnægja þessum skuldbindingum. En jafnvel þó að þetta sé gert, þá er það svo, eins og segir í grg., að enn eru fyrirliggjandi margar lánbeiðnir, já, meira að segja verulegur hluti af því, sem beðið hefur verið um. — Það er rétt, sem segir í grg., að Sauðárkrókur hefur beðið um 770 þús. kr., Bolungavík um 500 þús. og Siglufjörður um rúmar 2 millj. En það hefur gleymzt í grg., að Akureyri hefur beðið um 1.300.000 kr., en Siglufjörður og Neskaupstaður eiga ekki að vera með í ófullnægðum beiðnum. Svo að það mun, þrátt fyrir þann misgáning, sem fram kom í grg., láta nokkuð nærri lagi, að óafgreiddar lánbeiðnir nemi um 5 millj. kr. Þá er rétt að geta þess, að búast má við lánbeiðnum frá mörgum öðrum stöðum, t. d. byggingarfélögunum á Eskifirði, Eyrarbakka, Nesjahreppi, Djúpavogi og Patreksfirði, en ekkert þessara byggingarfélaga hefur enn beðið um lán. Byggingarfélög þessi hafa fengið staðfestar samþykktir sínar, og ráðuneytin skipa samkv. l. formann í þessi byggingarfélög, svo að búast má við, að þessi byggingarfélög komi, áður en langt um líður, einnig með lánbeiðnir til sjóðsstjórnarinnar.

Ég vildi, úr því að ég tók til máls, leiðrétta þetta, sem kom fram í grg., og vil taka það fram aftur, að það verður að gera einhverjar ráðstafanir, hvernig sem þær verða, til þess að auka lánsfé til byggingarsjóðs verkamannabústaða. Eftirspurnin er mikil, og þar sem hún á eftir að verða enn meiri, er þörfin alveg gífurleg. Tökum t. d. Bolungavík, byggingar þar verða að teljast einhverjar hinar verstu á landinu, svo að ef nokkurs staðar er þörf á að greiða fyrir byggingarlánum í þorpum, þá er það þar. Enn sem komið er hefur ekki verið hægt að fullnægja beiðni frá Bolungavík, því að fé vantar, en ég held, að allir þeir, sem til þekkja, viti, að þar er þörfin alveg sérstaklega brýn, og nefni ég þetta sem dæmi, þó að ég viti, að mörg önnur kauptún og jafnvel kaupstaðir eru þann veg farnir, að mikil þörf er á bygging verkamannabústaða. Og maður getur litið sér nær, til sjálfs höfuðstaðarins, þar sem fjöldi fólks hefst nú við í bröggum, óhæfum vistarverum. Þar er þörfin náttúrlega ekki hvað sízt brýn fyrir stóraukna byggingu verkamannabústaða. Og þó að byggingarfélögin, sem starfa hér í bæ, séu nú að byggja fyrir 2½ millj. kr., þá er það að sjálfsögðu góðs viti, en þörfin langtum meiri fyrir byggingar hér í Rvík, svo að höfuðstaðurinn sé þó einnig nefndur, þegar rætt er um þörf fyrir nýjar byggingar. Ég vil því að þessu leyti mjög eindregið mæla með þeirri hugsun, sem fram kemur í þessu frv., að það sé brýn nauðsyn af hálfu löggjafans að gera einhverjar ráðstafanir, sem að gagni mættu koma, til að auka lánsfé byggingarsjóðs verkamannabústaða. Þess vegna er ég mjög ánægður yfir því, að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég vek athygli á, að þetta er mjög vandasamt úrlausnarefni, sem er alveg nauðsynlegt að leysa, ef nokkur tök eru á, en ætla þó, að eðlilegt sé, þegar hið almenna frv. í Ed. er komið á skrið, sem, eins og ég sagði áðan, er væntanlegt á næstunni, að þá yrði það eitt af þeim atriðum, sem tekin yrðu fram í því nýja frv., á hvern hátt ætti að gera ráðstafanir til þess að auka byggingarsjóð verkamannabústaða.

Ég vildi láta þessar almennu aths. koma fram og mun með ánægju greiða atkv. með frv. áfram til nefndar til athugunar, en tel eðlilegt, að það yrði tekið sem einn liður í almennri löggjöf um fyrirgreiðslu á byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Ég skal ekki segja á þessu stigi, hvort sú leið er fær, sem lagt er til í frv., að farin verði, en sé svo, er sjálfsagt að fara hana. Annars verður að líta eftir því, hvort finna megi aðra leið, því að einhverja leið þarf að finna til þess að auka að stórum mun byggingarsjóð verkamannabústaða, því að það er eitt af allra mest aðkallandi vandamálum, sem bíða úrlausnar, að koma upp auknum, þægilegum og ódýrum vistarverum fyrir fólk í kaupstöðum og kauptúnum landsins á þann hátt, að byggingarnar verði viðráðanlegar fyrir það fólk, sem byggir þær. Ég vona því, að þessu Alþ. ljúki ekki án þess að almenn löggjöf um bygging verkamannabústaða í kaupstöðum og kauptúnum verði afgr. og að það, sem ég hef vakið á athygli í þessu sambandi, verði tekið til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, annaðhvort á þann hátt, sem hér er lagt til, eða þá eftir einhverjum öðrum leiðum, er hentugri kynnu að þykja.