26.03.1946
Neðri deild: 95. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í C-deild Alþingistíðinda. (4813)

203. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð. Ég vil þakka síðasta ræðumanni fyrir vinsamlegar undirtektir um þau atriði, sem í frv. felast, og milli okkar virðist enginn ágreiningur um, að ákvæði þessu hliðstæð þurfi að koma inn í þá almennu löggjöf, sem við vonum, að þingið afgreiði varðandi þetta efni. Frá mínu sjónarmiði er það aðalgalli þessa frv., að þau ákvæði vantar, bæði hvað snertir byggingarsjóð verkamannabústaða og eins fjáröflun til samvinnubústaða, en þetta stendur til bóta í meðferð þingsins, og vil ég fastlega vænta þess, að úr því verði bætt. Ég er hinsvegar ekki viss um, þó að þetta takist, sem ég treysti, að það gangi nógu fljótt til þess að greiða fyrir byggingarframkvæmdum á þessu sumri, og því held ég, að þetta smámál þyrfti að ganga sem greiðast í gegnum þingið, svo að ekki yrði töf á þeim framkvæmdum, sem nú eru hafnar eða í þann veginn er verið að hefja.

Mér þykir leitt, að skekkjur skuli hafa slæðzt inn í grg. Ég veit, að upplýsingar hv. þm. eru réttar. Ég hélt raunar, að ég hefði mínar upplýsingar frá áreiðanlegum heimildum, en þetta kann að hafa skolazt til, síðan ég fékk þær upplýsingar. Annars skiptir þetta engu máli, því að niðurstaðan verður, eins og lýst hefur verið, nokkuð svipuð, en rétt er að hafa það, sem rétt er, og hefði ég viljað, að svo hefði verið í grg., en annars þakka ég fyrir þær upplýsingar, sem fram hafa komið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál á þessu stigi. Ég vona, að það gangi til 2. umr. og að sú n., sem fær það til meðferðar, taki það til rækilegrar athugunar og eins skjótrar afgreiðslu og henni er mögulegt.