26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 1. minni hl. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Það frumvarp, sem hér er til 3. umr., er staðfesting á brbl. hæstv. landbrh. um verðlagningu landbúnaðarafurða o. fl. Aðalatriði þess eru þau, að ráðh. skipi til 1 árs í senn nefnd 25 bænda og bændafulltrúa til að hafa yfirumsjón þessara mála, en framkvæmdavaldið er í höndum 5 manna verðlagsnefndar, sem einnig er skipuð bændum og bændafulltrúum einum. Eru 4 þeirra kosnir af búnaðarráði, en formaður þess er sjálfkjörinn í verðlagsnefnd.

Tímamenn hafa gert óp mikið að ráðherranum fyrir setningu þessara laga og haft í frammi þau verstu brigzl í blöðum sínum og hér á Alþingi út af því hræðilega ranglæti, sem bændum ætti að vera sýnt með þessari löggjöf. Stjórnarflokkunum hefur því þótt rétt að ræða þetta mál nokkuð í áheyrn alþjóðar hér í útvarpinu.

Í sjálfu sér er eðlilegt, að Tímamenn séu beygðir nú og kveini mjög, því að þessi lög eru ein af þeim, sem svipta þá valdi og yfirráðum, sem þeir höfðu um nærri 20 ára skeið. En eftir að þeir hófu sitt pólitíska verkfall með því að neita samvinnu við aðra flokka fyrir rúmu ári síðan, þá gátu þeir ekki vænzt þess að halda áfram öllum völdum á öðrum sviðum þjóðlífsins. Og nú um skeið hafa þeir hrópað til okkar bænda og sagt, að verið væri að taka valdið af okkur, rétt eins og bændastéttin og Tímaklíkan séu eitt og hið sama. Í þessari kenningu felst fullkomið öfugmæli, því að nú hafa völdin yfir þessum málum verið fengin bændum einum í hendur. Að vísu aðallega bændum úr Sjálfstæðisfl., og sízt ætti liðsmönnum hans að líka það verr, þó að Tímaklíkan sé einu sinni utan við yfirráðin.

Síðustu 20 árin hafa ríkisstjórnir skipað tugi eða jafnvel hundruð af nefndum, og í flestar þeirra hafa verið valdir nær eingöngu Reykvíkingar og embættismenn. Tímamenn hafa staðið lengst fyrir þessu og yfirleitt látið sér vel líka. En þegar einu sinni er af ráðh. skipuð n. eftir þeim fyrirmælum, að eingöngu séu þar bændur og bændafulltrúar, þá gera Tímamenn hróp að. Þá heitir það á þeirra mála að taka valdið af bændum, enda sagði þm. Mýr. (BÁ) við 2. umr., að sér hefði verið alveg sama, þó að eingöngu annarra stétta menn hefðu verið í þessari nefnd. Aðalatriðið náttúrlega sem fyrr, að þeir væru Tímamenn. Það er þeirra höfuðkrafa.

Eins og kunnugt er, þá eru nú 4 bændur og einn bændaskólakennari í verðlagsnefnd. Þessir menn hafa verið bornir þeim tilhæfulausu sökum, að þeir færu eftir skipun ráðh., en ráði engu sjálfir.

Áður var það svo, að einn maður réð raunverulega, en nú er því breytt. Um hið fyrra skipulag segir sá maður, er bezt má um það vita, Jónas Jónsson, hv. þm. S.-Þ., á þessa leið í síðasta Ófeigi orðrétt: „Í oddamannssæti um verð á kjöti og mjólk var Páll Zóphóníasson árum saman og greiddi þar á hverjum tíma atkvæði um verðlagsmál eftir því, sem landbrh. hentaði bezt til að geta haldið jafnvægi í ríkisstjórninni.“ Það er því samkv. þessu ekki óeðlilegt, þó að Páll og aðrir Tímamenn haldi, að aðrir menn séu verkfæri ráðherrans. Mönnum hættir svo oft við að reikna með sömu veikleikum hjá öðrum sem þeir sjálfir hafa. Nú var það 25 manna nefnd, sem lagði línurnar fyrir verðlagningunni, og ég spyr ykkur nú alla, sem til mín heyrið, hvort þið haldið, að hentugra sé fyrir ráðh., sem vill ráða verði, að stjórna 25 bændum og bændafulltrúum úr öllum héruðum landsins eða fyrir þann ráðh., sem var að stjórna Páli Zóphóníassyni, þm. N.-M., einum. Það dæmi geta allir sæmilega greindir bændur reiknað án þess að fá Tímalega leiðbeiningu.

Ég hygg líka, að flestir, sem þekkja þá menn, sem nú skipa búnaðarráð, bæði þá, sem eru í verðlagsnefnd, og hina, geti hugsað sér, að þeir hefðu ekki tekið því neitt vel, ef ráðh., Pétur Magnússon, hefði ætlað að fara að gefa þeim fyrirskipun um verðið, enda reyndi hann það áreiðanlega ekki. — Þessir menn höfðu flestir eitt sjónarmið og aðeins eitt, sem sé það, hvað bændum væri hollast, en allmargir stjórnarandstæðingar virðast hafa það yfirsjónarmið að sundra ríkisstj. eða gera henni örðugleika, hvað sem hagsmunum bænda liði, og þess vegna máttu þeir ekki ráða neinu um þessi mál og mega ekki, á meðan eins stendur.

Það skipulag, sem áður var, reyndist svo, að meðal bænda voru víðs vegar um land samþ. kröfur um að leggja þar allar nefndirnar niður og skipa eina nefnd í staðinn, sem eingöngu væri skipuð bændum og bændafulltrúum. Það munu yfirleitt engin ákvæði hafa fylgt þessum kröfum um það, með hverjum hætti sú eina nefnd væri skipuð, og enginn gert ráð fyrir almennri kosningabaráttu um land allt, eins og Tímamenn látast vilja nú. Þessari almennu kröfu bænda hefur því verið fullnægt. Nú ræður ein nefnd, skipuð eingöngu framleiðendum, og það er í fyrsta sinni í sögunni, að slíkt hefur átt sér stað. Hér hefur því verið gerð réttarbót, sem engin ástæða er til annars en fagna af hálfu bænda, því að eins og þm. V.-Ísf., Ásg. Ásgeirsson, sýndi fram á, er engin von til, að stéttarsambandi væri falið þetta vald, þó að slíkt samband væri til, en nú er ekki því til að dreifa, að neitt samband, sem bændur almennt viðurkenna, sé til, heldur er um að ræða undirbúning að því. Þá fyrst kemur til greina, að stéttarsamband, ef á kemst, fái þessi mál í sínar hendur, þegar hætt verður við allar greiðslur úr ríkissjóði til þessara mála. Hins ber að geta, að bændum er almennt geðfelldara, að ríkisframlagið sé greitt sem neytendaframlag, eins og nú er, enda er það í samræmi við ítrekaðar kröfur áður og kemur í veg fyrir verðfellingu á þeim kjöttegundum, sem ekki heyra undir verðlagninguna.

Það er gild ástæða til fyrir alla þá bændur, sem ekki eru starblindir Tímamenn, að gera sér grein fyrir því, að hamagangur Tímamanna gegn þessum lögum er eingöngu sprottinn af þeim vonbrigðum, sem þessir menn hafa orðið fyrir vegna sinna margvíslegu pólitísku glappaskota og vegna þess, að það hefur skeð, sem þeir vonuðu, að ekki yrði, að stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um þessi mál. Þeir vonuðust eftir sundurlyndi og jafnvel stjórnarrofum. Það er því ekki umhyggja fyrir hag bænda, sem gerir þá vonda, heldur eigin vonbrigði. Þeirra pólitíska líf byggist á sundurlyndi, flokkaþrætum og baráttu milli sveita og kaupstaða. Friður er þeirra vona fall. Og um leið og vonirnar falla, kemur eðlilega illt skap og árásarorð og einkum í garð þess manns, sem friðinn á þessu sviði hefur skapað, sem er okkar vitri og góðviljaði landbrh., Pétur Magnússon. En ófriðarseggjunum mun verða um megn að eyðileggja vinsældir hans og traust. Til þess dugir enginn rógburður.

Ég skal svo fara nokkrum orðum um. verðlagið og kjötsöluna.

Verðlagningin af hálfu verðlagsnefndar er byggð á því, að grunnverð sex manna nefndarinnar haldist að viðbættum 9.7%, sem er vísitöluhækkun þessa verðlagsárs. Hins vegar er vísitöluhækkun frá í fyrra 9.4%, sem þá var sleppt eftir tillögum búnaðarþings, ekki tekin með í hækkun nú, enda þurfti enginn bóndi að gera ráð fyrir því, að vísitöluhækkun, sem fulltrúar bænda samþykkja að sleppa í hámarki styrjaldarinnar og að sex manna nefndar lögunum gildandi, gæti komið til hækkunar að þeim úr gildi gengnum og að stríði loknu. Það hefði líka verið heldur undarlegt stökk að hækka verðið nú um 20%, en sleppa í fyrra 9.4% vísitöluhækkun, þegar lögin voru í gildi og stríðið í fullum gangi. Það er því hin herfilegasta fjarstæða, sem sumir halda fram, að þeir, sem voru móti tilslökuninni í fyrra, eins og t. d. Sveinn á Egilsstöðum, hafi komizt í mótsögn við sjálfa sig með því að hækka ekki nú um 20%. Slíkar kenningar eru ekki til þess fallnar að vera teknar til greina af meðalgreindum mönnum.

Um sex manna nefndar verðið hafa líka orðið allmiklar deilur, og þótt því sé sleppt, hvort það hafi á sínum tíma verið rétt eða ekki rétt, og það liggur utan við ágreiningsmál, sem hér er um að ræða, þá eru það hinar furðulegustu hugmyndir, sem sumir menn hafa gert sér í því sambandi. Sumum þeirra hafa nú þegar verið gerð nokkur skil í þessum umræðum, og þeirri, sem einna helzt er haldið á lofti, að ríkissjóður eigi að ábyrgjast þetta verð, geta núverandi stjórnarandstæðingar einna sízt haldið fast á, því að þá gera þeir foringja sinn, þm. Str., Hermann Jónasson, að minna manni. Hann skrifaði langa grein um þetta í Tímann 26. sept. í fyrra, þar sem hann dásamaði tillögur búnaðarþings, og síðasti ræðumaður tók réttilega fram, að hann lýsti yfir því, að ríkissjóður bæri enga ábyrgð á verðinu. — Þá var þessi maður og liðsmenn hans ekki í stjórnarandstöðu, og þótt sumir þeirra haldi öðru fram nú, þegar þeir eru á móti ráðandi stjórn, þá geta bændur ekki tekið slíkt alvarlega.

Þótt undarlegt sé, hafa nú þau tíðindi gerzt, er sýna bezt óheilindin á þessu sviði, að þeir, sem ákafastir voru í fyrra að halda óbreyttu verði þrátt fyrir 9,4% vísitöluhækkun, ganga nú mest fram fyrir skjöldu til að átelja verðlagsnefnd fyrir að hafa ekki hækkað nú um 20%, þegar lögin eru úr gildi og stríðið búið. Má þar meðal annars nefna þm. Mýr., Bjarna Ásgeirsson, sem hér mun tala næst á eftir. Þegar menn fara þannig í gegnum sjálfa sig, þá sýnir það bezt, hve misskilin valdabarátta getur leitt langt. Það er líka ljóst, að ekki er mikið að leggja upp úr sakaráburði slíkra manna, því að ef þeir hefðu ráðið nú, þá hefði verðinu áreiðanlega verið haldið óbreyttu eins og það var í hitteðfyrra og engum 9,7% bætt við, en útflutningsuppbætur auðvitað felldar niður.

Annars verðum við bændur nú sem fyrr að gera okkur fulla grein fyrir því, að okkur og okkar fulltrúum ber að fara þá leiðina í verðlagningu, sem bezt tryggir okkar hagsmuni. Hvar mörkin eru í verðlagningu, er eðlilegt, að menn geti greint á um. Þegar útflutningsverð er langt fyrir neðan framleiðslukostnaðarverð, eins og nú, þá veltur allt á, að innlenda salan gangi sem bezt og sá markaður sé ekki sprengdur. Í haust bárust þær fréttir víðs vegar af landinu, þegar kunnugt varð um ákvörðun verðlagsnefndar, að ýmsir gætnari bændur hefðu óttazt, að nú væri boginn spenntur of hátt. Svo hefði líka verið áreiðanlega, ef engin niðurgreiðsla hefði farið fram t. d. á kjöti. Á gaspri Tímamanna um þetta efni geta heiðarlegir bændur eða aðrir ekki tekið mikið mark, enda berjast þeir Tímaliðar hver gegn öðrum á þessum vettvangi.

Á Alþingi tala þeir um allt of lágt verð á kjöti og mjólk. Kjötið hefði átt að vera 12 kr. eða meira kg., segja þeir. Tíminn hefur oftast verið á sömu línunni. En framsóknarblaðið Dagur sagði í forustugrein, að verðið væri svo hátt, að neytendur mættu til með að spara kaup á landbúnaðarvörum — „eftir fremstu getu.“ Þar er gengið hreint til verks með þá starfsemi, sem almennt hefur verið rekin í laumi, að spilla fyrir kjötsölunni, í von um, að ríkisstj. og stuðningsliði hennar yrði til örðugleika. Það er og víst, eins og síðasti ræðumaður benti á, að þeir menn, sem árum saman hafa verið að harma það, að heildsöluverð á I. fl. dilkakjöti skuli nokkru sinni hafa hækkað úr kr. 3.20 pr. kg., þeir mundu aldrei hafa farið í kr. 9,52, ef þeir hefðu ráðið, hvað þá hærra. Allt þeirra tal um hærra verð er því Tímalegt kosningaþvaður, sem þeir einir taka mark á, sem allt slíkt taka fyrir góða og gilda vöru. Og þeir bændur, sem enn trúa Tímamönnum, virðast vera hættir að hugsa eins og sjálfstæðir menn, enda lesa sumir þeirra ekkert blað nema Tímann, og þá er eðlilega ekki á góðu von.

Það út af fyrir sig er rétt, að við bændur hefðum flestir þurft á því að halda að fá hærra verð, eins og okkar útgjöldum og fjárhag er varið, en markaðsaðstaðan er þannig, að þess er enginn kostur, og við megum þakka fyrir, að ekki fer verr en horfur eru á. Ekki sízt vegna þess, hve margir sveitafulltrúar hafa gerzt pólitískir verkfallsmenn og hugsa meira um að gera ráðandi ríkisstjórn ógagn en bændastéttinni í heild sinni og þjóðinni allri gagn. Það, sem bjargar málinu sæmilega að þessu sinni, er það, að stjórnarflokkarnir allir hafa getað samið um afgreiðslu þess á viðunandi hátt, og þeir hafa sín áhrif á meginhluta þeirra viðskiptavina, sem við eigum mest undir. Þess vegna er það frv., sem hér liggur fyrir, gott mál og nytsamlegt fyrir bændastéttina, og við bændur megum vera þakklátir þeim mönnum, sem eru í búnaðarráði og verðlagsnefnd, fyrir heiðarlega og viturlega starfsemi. Þó að Tíminn kalli þá undanvillinga, gervifulltrúa, konungkjörna þingmenn, kvislinga og öðrum skrípanöfnum, þá er það aðeins til að lyfta þeim upp, af því hve alkunnugt það er orðið meðal þjóðarinnar, að uppnefnavaðall Tímans er byggður á öfugmælum og er hól, en ekki last í augum heiðarlegra Íslendinga.

Um kjötið er það að segja, að verðlagningin er byggð á því, að bændur fái fyrir I. og II. fl. kjöt 7.84 pr. kg. En þetta getur því aðeins orðið, að ekki þurfi að flytja kjöt á erlendan markað, því að í varúðarskyni hefur verið ákveðið að taka kr. 1.50 í verðjöfnunargjald af hverju kg. Ef ekkert þyrfti að flytja út af kjöti, þarf ekki þetta verðjöfnunargjald. Þá kemur það ekki til greina. Eftir því sem meira þyrfti að flytja út, eftir því þyrfti meira af verðjöfnunargjaldinu og eftir því verður kjötið lægra. Hvað það verður, er því ekkert hægt um að fullyrða eins og stendur, en horfurnar eru góðar þrátt fyrir áróður stjórnarandstæðinga gegn kjötsölunni.

Fyrst er þess að geta, að s.l. ár var nálega ekkert flutt út af kjöti nema nokkuð af saltkjöti, sem Norðmönnum var gefið. Nú eru nýlega komnar skýrslur um sauðfjárslátrunina til verðlagsnefndar, og hefur komið í ljós, að kjötmagnið er rúmlega 100 smálestum minna en í fyrra, enda þótt slátrað væri heldur fleira fé en þá.

Hvernig hefur svo salan gengið? Fyrst í stað gekk salan treglega, einkum þar, sem áhrifa Tímamanna gætti. Menn birgja sig ekki upp. Sumir keyptu mikið af hrossakjöti o. fl. og tregðuðust við að kaupa, þar sem verðhækkun var mikil og ekki að fullu ákveðið, hvernig niðurgreiðslu yrði hagað eða hver hún væri. En þetta hefur víðast lagazt, þegar kunnugt varð um niðurgreiðsluna, og sá halli, sem varð á sölunni fyrst, lagast síðar, eftir því sem næst verður komizt. Einkum hefur farið á þessa leið hér í Reykjavík, en hér er aðalmarkaðurinn. Samkv. skýrslu frá framkvæmdastjóra verðlagsnefndar um sölu nokkurra kjötbúða hér í bænum til 1. nóvember er salan á því tímabili frá 92–112, miðað við 100 á sama tíma í fyrra. Hæst er salan hjá kjötbúðinni Borg, 112, en lægst hjá Tómasi Jónssyni, 92 miðað við 100 í fyrra. Hjá Birni Guðmundssyni, Ísafirði, er hlutfallstalan 97,5, en hjá kaupfélaginu á Ísafirði munar miklu meira, enda auðséð, að tölurnar, sem þaðan koma, geta naumast verið sambærilegar tölur. — Á Akureyri og Dalvík seldust til 1. nóv. í fyrra 135451 kg., en á Akureyri í ár á sama tíma 75351 kg., en þá er ekki Dalvík með, enda mun í bæði skipti fremur lítil sala þar. — Þarna munar um 60 smálestum eða yfir 40%, sem salan er minni en í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum héðan úr bænum er útlitið gott með söluna, því að aðgætandi er, að fólk gerði minna að því en vant er að birgja sig upp með saltkjöt í sláturtíðinni, af því að ekki lá fyrir í byrjun, hvernig niðurgreiðslunni yrði hagað. Þess vegna má gera ráð fyrir meiri sölu síðar, því að kjötþörfin er óbreytt og eigi ástæða til minni neyzlu almennt. Það er sérstaklega eftirtektarvert, að mest skuli muna á kjötsölunni á Akureyri, þar sem Tímamenn hafa mest fylgi, eftir því sem gerist í kaupstöðum, enda hefur blað þeirra unnið þar opinberlega gegn kjötsölunni. Á Ísafirði er ástandið að þessu leyti líka slæmt, enda hefur nokkuð mikil stjórnarandstaða komið þar fram eftir blaðinu Skutli að dæma. Hefur Tíminn líka endurprentað mikið af þeim fagnaðarboðskap.

Þrátt fyrir þetta, sem ber stjórnarandstöðunni ekki sérlega fagurt vitni, þá eru horfurnar með kjötsöluna það góðar, að við bændur getum gert okkur von um, að kjötið seljist mestallt eða allt innanlands, og þá þarf ekki á miklu verðjöfnunargjaldi að halda. Verðlagsnefnd hefur líka tekið þá ákvörðun að leyfa ekki útflutning á öðru en saltkjöti og þó takmarkað. Þetta hefði farið mjög á annan veg, ef Tímaliðinu hefði orðið að óskum sínum og ekki hefði náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna um þetta vandamál.

Stjórnarandstæðingar hamra nú einna mest á því, að verðlagninguna í haust hefði átt að leggja undir stéttarsamband bænda. Það er nú ekkert til, eins og áður er sagt, og þótt nú hafi verið kosin bráðabirgðastjórn til undirbúnings þeirri starfsemi, þá er enn ekkert samband til, sem bændur almennt viðurkenna sem fulltrúa sinn. Margir þeirra treysta betur ríkisstjórninni eftir fengna reynslu, enda er vald og kröfur tvennt ólíkt. Það virðist og sem stjórn þessara samtaka hafi eitthvert annað sjónarmið en að fá einhverju framgengt.

Hún hélt fund hér í Reykjavík, þegar verðlagsnefndin var að starfi í október, og þessi góða stjórn talaði hvorki við landbrh. né verðlagsnefndina. Það hefði þó verið beinasta leiðin, ef þessir menn hefðu ætlað sér að hafa áhrif á verð og sölu afurðanna. Þeir fara fyrst af stað löngu eftir að verðlag hafði veríð ákveðið og þá með aðfinningar, sem bersýnilega eru gerðar í áróðursskyni, en ekki í þeim tilgangi að fá breytingar fram, enda munu þeir ekki enn hafa rætt þetta mál við þann ráðh., sem það heyrir undir, hæstv. landbrh.

Varðandi þá kröfu að öðru leyti, að þessi mál séu fengin í hendur þessu tilvonandi eða byrjandi stéttarsambandi, er það að segja, að hún kemur úr hörðustu átt, þegar hún kemur frá Tímamönnum.

Frá því afurðasölulögin voru sett og þar til nú eru 11 ár. Allan þann tíma hafa bændur haft minni áhrif á stjórn þessara mála en þeir hafa nú fengið og það miklu minni, því að í 4 nefndum með 20 mönnum hefur oftast verið einn bóndi og ekki einn einasti maður kosinn af bændum. Ráðin í höndum ríkisstjórnar, eins og áður hefur verið sannað.

Allan þennan tíma hafa Tímamenn þagað, og flestir bændur hafa þagað. Örfáir sjálfstæðismenn í sveitunum hafa hreyft óánægju og þó helzt yfir því, að fulltrúar neytenda hafa verið í þessum nefndum. En þegar þessu er breytt, þegar bændur eru látnir fá þessi mál í sínar hendur, þegar engir neytendafulltrúar koma lengur til greina, þá er rokið upp með mótmælum út af því, að þeir menn skuli ekki vera kosnir, helzt almennum kosningum eða á fulltrúafundum, sem með þessi mál fara.

Þegar Tímamenn eru á þessu sviði búnir að tapa völdum, þá er ekki nóg með það, að allt sé ófært, sem var á meðan þeir stjórnuðu, heldur líka hitt, sem óskað var almennt af bændum að fá, þ. e. ein nefnd skipuð bændum eða bændafulltrúum einum. Ég hef þegar gefið skýringu á því, af hverju þetta er, og endurtek hana ekki.

Annars er verðlagningin ekki nema ein hlið á þeim verkefnum, sem liggja fyrir verðlagsnefnd landbúnaðarafurða og búnaðarráði. Hitt er líka og máske ekki síður að athuga, að koma betra skipulagi á framleiðslu, verkun, flokkun og sölu afurðanna, svo að þær verði útgengilegri og betra að fá fyrir þær það, sem samsvarar tilkostnaði við framleiðsluna. Á því sviði er mikilla umbóta þörf, og gildir það ekki einasta mjólk, sem nú er talað einna mest um, heldur líka kjöt og garðávexti. Í þessu hefur verðlagsnefnd unnið nokkurt undirbúningsstarf, en annars litlar breytingar gert enn sem komið er, enda er stutt síðan hún tók til starfa. Að fá frá bændum og bændafulltrúum viturlegar tillögur á þessu sviði mundi verðlagsnefndinni kærkomið. Hvort þær koma frá bráðabirgðastjórn stéttarsambandsins, einstökum búnaðarfélögum, búnaðarsamböndum eða öðrum, er ekki aðalatriðið. Þeim mundi verða vel tekið. Þar er verkefni fyrir hina starfsfúsu menn miklu þýðingarmeira en fávísleg mótmæli og þýðingarlaus gegn skynsamlegum ákvörðunum hins ráðandi valds. Að vera á móti og berjast á móti öllu, sem gert er, verkar illa á þá, sem unnið hafa heiðarlega að starfi sínu, en gerir ekkert gagn fyrir málið sjálft. Þannig mun og fara með öll lætin, sem hafin hafa verið gegn þessu frumvarpi. Þau gera bændum ekkert gagn, og þó að aðaltilgangur þeirra sé sá að veiða atkvæði bænda og sveitafólks á frambjóðendur Tímamanna í næstu kosningum, þá mun það ekki heldur takast, enda væri það okkur bændunum sízt til fjárhagslegra eða menningarlegra happa. Það er reynslan búin að sanna. Hitt varðar okkur miklu, að meðferð og sölu afurða okkar verði hagað á heppilegan hátt. Á því sviði er mikið að læra og margt að vinna, og ég treysti forustu verðlagsnefndar fyllilega á því sviði og óska henni og öllum bændum til hamingju með það starf. Það varðar miklu okkar þjóð, að vel takist í því efni.