09.04.1946
Neðri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (4831)

212. mál, ljósmæðralög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af félmn. Við 1. umr. gerði frsm. nokkra grein fyrir meginatriðum málsins. En að öðru leyti hefur frv. farið umræðulaust gegnum tvær umr.

Frv. er breyt. á 13 ára gömlum l., eins og fyrirsögn ber með sér. Aðalbreyt. er sú að gera ljósmæðrum í kaupstöðum léttara fyrir með launakjör og gera laun þeirra bundin. En í sveitum eiga launakjör þeirra að haldast óbreytt. Þannig á að gera mun á ljósmæðrum í sveitum og kaupstöðum. Í 1. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á laun þessi greiðist dýrtíðaruppbót af aðilum, eftir þeim reglum, sem gilda um starfsmenn ríkisins.“ Svo hefur þetta verið a. m. k. í 13 ár. Á þessum tíma hafa verðlagsuppbætur og laun nokkuð breytzt. Áður var greidd 25% uppbót, er átti að vera leifar uppbóta frá fyrra stríði, en 1942 var ákveðið að greiða nýja 25–30% uppbót á laun starfsmanna ríkisins. Þetta var framlengt árin 1943–44, eða þar til launalögin nýju voru samþ. Með því féllu uppbætur þessar niður, en grunnlaun hækkuðu hins vegar, og skyldu uppbætur greiddar eftir vísitölu mánaðarlega. En ég álít, að það hefði mátt halda aukauppbótum til ljósmæðra. Mér virðist, að ljósmæður hafi hér fengið samningsrétt og geti því bætt kjör sín, en í sveitum mælir svo fyrir, að grunnlaun þeirra séu bundin og verðlagsuppbót svo greidd á þau mánaðarlega. Kjör þeirra hafa því rýrnað frá því gamla verðlagsuppbótin var greidd. Ég vildi nú beina því til n., að hún breytti þessu, en ef hún vill ekki taka það til athugunar, mun ég leggja fram skriflega brtt. En það er óviðunandi, að kjör ljósmæðra í sveitum séu rýrð svo mjög, og þætti mér nú vænt um að heyra um þetta frá n.