26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Hv. þm. Mýr. sagði, að sex manna samkomulagið væri enn í gildi, vegna þess að enn sé ófriðarástand. Hvenær skyldi þá koma normalt ástand? Þess getur orðið nokkuð langt að bíða. Svo mikið er víst, að það verður aldrei normalt ástand í íslenzkum landbúnaði, svo lengi sem Framsókn fær að ráða.

Þá sagði hv. þm., að eitt stjórnarblaðið hefði sagt, að laun sjómanna væru í samræmi við tekjur annarra verkamanna, en annað stjórnarblað, að laun þeirra væru um 30 þús. á ári. Af þessu dró hann þá ályktun, að meðaltekjur íslenzkra verkamanna væru 30 þúsund. Þetta getur maður nú kallað framsóknarrök og vísindalega nákvæmni við næfi flokksins. Og það var svo sem ekki verið að draga í efa, að bæði Alþýðublaðið og Morgunblaðið séu óyggjandi heimildir.

Út af því, sem hv. þm. sagði um búnaðarmálasjóð og till. tveggja þm. um, að héraðsbúnaðar. samböndin fái búnaðarmálasjóðinn til umráða, er bezt, að þið bændur heyrið nokkrar staðreyndir og dæmið sjálfir.

Síðasta búnaðarþing ákvað að verja fé búnaðarmálasjóðs að miklu leyti til þess að byggja fyrir stórt og vandað gistihús í Reykjavík með 100 herbergjum og veitingasölum í samræmi við það. Slík bygging kostar áreiðanlega milljónir króna og bindur fjármagn sjóðsins að miklu leyti í mörg ár. Þetta var nú eitt helzta sameiginlega hagsmunamál bændastéttarinnar, sem hv. þm. Mýr. kom auga á. Er þetta gert fyrir bændur almennt eða einhverja fáa útvalda? Eða átti kannske að vera þarna framsóknarheimili líka?

Finnst ykkur það nú svo háskalegt, að héraðssamböndin, sem eru í slíkri fjárþröng, að þau geta ekki ráðið sér búnaðarráðunauta, fái þetta fé til umráða? Haldið þið, að féð væri verr komið í höndum þeirra? Það fer auðvitað eftir því, hvort menn vilja verja sjóðnum til hótelbygginga eða ekki.

Þetta frv., sem hér er til umr., og bráðabirgðalöggjöf ríkisstj. um afurðasölumálin er vitaskuld engin lausn á vandamálum landbúnaðarins. Það er bráðabirgðaúrræði, sem þrír flokkar með sundurleitar skoðanir á málum landbúnaðarins hafa komið sér saman um til að firra vandræðum, því að þrátt fyrir allt, sem á milli ber, eru þessir þrír flokkar sammála um það, að eftir áratugastjórn Framsfl. sé íslenzkur landbúnaður í slíku öngþveiti, að þjóðarbúskap Íslendinga stafi hætta af. Þetta veit raunar öll þjóðin, og enginn veit þetta betur en Framsfl. Svo mikið vandamál töldu þeir afurðasölumál landbúnaðarins vera, að þeir þóttust alveg vissir um, að það mundi verða til þess að sprengja stj., og við það hafa þeir miðað allar sínar till. og allar sínar bardagaaðferðir. Það er eina skýringin á hinum fáránlega málflutningi þeirra og furðulegu framkomu, sem annars væri með öllu óskiljanleg.

Það er fjarri því, að sú leið hafi verið farin í þessu máli, sem Sósfl. hefði helzt kosið. Ef sósíalistar hefðu einir ráðið, hefðu þeir farið aðrar leiðir til þess að leysa vandann tl bráðabirgða. Sósfl. mundi hafa gripið til róttækra ráðstafana til þess að lækka verð á nauðsynjavörum og þar með vísitöluna, meðan verið væri að gera gagngerðar ráðstafanir til þess að lækka framleiðslukostnað landbúnaðarins með gerbreytingu á framleiðsluháttum hans. Þetta mundi flokkurinn hafa gert í fyrsta lagi með því að afnema gróða heildsalastéttarinnar með því, að ríkið tæki innflutninginn í sínar hendur, og í öðru lagi með lækkun tolla. Þannig hefði orðið komizt hjá henni beinu meðgjöf með neyzluvörunum, eftir því sem frekast var kostur.

En um þetta gat ekki orðið samkomulag, og það vissu allir, þegar ríkisstj. var mynduð. En þrátt fyrir mismunandi sjónarmið voru stjórnarflokkarnir ákveðnir í því að leysa þetta mál, ganga til móts hverjir við aðra, vegna þess að eins og öll íslenzka þjóðin voru þeir á einu máli um það að gera ekki þann óvinafagnað að hætta að vinna sameiginlega að hinum miklu framfaramálum, sem þeir hafa komið sér saman um, vegna ágreinings um framkvæmdaatriði líðandi stundar, sem minna máli skipta. Hvað var þá til ráða? Að láta vísitöluna hækka yfir 300 stig? Það mundi hafa stöðvað bátaflotann. Ekki kom það til mála. Að halda áfram eins og að undanförnu niðurgreiðslum á kjöti og mjólk? Það mundi hafa orðið ríkissjóði ofviða og dregið stórlega úr opinberum framkvæmdum. auk þess sem það hlýtur að tefja aðkallandi úrlausn vandamálanna að falsa útsöluverð landbúnaðarafurða, þ. e. fela raunveruleikann.

Skömmtun hefði getað komið til greina, en hún hafði þann galla að fela verðið á nokkrum hluta afurðanna, en hefði annars haft nákvæmlega sama gildi fyrir verkalýðinn og það ráð, sem upp var tekið. Þetta, sem gert var, var því eina úrræðið, sem eftir var og samkomulag gat orðið um. Þetta hefur líka þann mikla kost, að vísitölumagnið er leiðrétt neytendum í hag. Kjötmagnið, sem gengur inn í vísitöluna, er aðeins 31,3 kg, á mann á ári, en samkvæmt l. er greitt niður á 40 kg. fyrir hvern einstakling á ári eða 200 kg. á 5 manna fjölskyldu. M. ö. o., vísitalan gerir ráð fyrir, að tekjur fimm manna fjölskyldu þurfi að hækka um liðl. 680 kr. á ári, til þess að vera talin skaðlaus vegna kjöthækkunarinnar, en nú fær fimm manna fjölskylda 870 kr. greiddar. Vinnsluvörur úr kjöti koma hins vegar ekki til greina í þessu sambandi, því að hækkun þeirra var komin inn í vísitöluna áður.

Það var horfið að þessu ráði í fullu samráði við verkalýðssamtökin, og fyrir Sósfl. kom það ekki til mála að fallast á neitt í þessu máli, nema það væri að öllu leyti með vilja þeirra. Hvert atriði var þaulrætt með fulltrúum verkalýðssamtakanna. Hins vegar er framkvæmd þessara mála að öllu leyti í höndum landbrn., og Sósfl. á þar engan hlut að. Það verður að treysta því, að landbrn. vaki yfir því, að lögin séu réttlega framkvæmd og allar réttmætar. kvartanir teknar til greina.

Einhleypingar verða verst úti — ekki af völdum þessa fyrirkomulags, heldur yfirleitt þegar verðlagi neyzluvara, er haldið niðri, eins og gert hefur verið að undanförnu: Þetta kemur til af hinu óskaplega verði á fæði, sem ekki er í nokkru samræmi við vísitöluna. Þetta er aðkallandi vandamál, sem brýna nauðsyn ber til að gera gangskör að að kippa í lag.

Gífuryrðum framsóknarmanna út af fyrirkomulagi verðlagningarinnar hefur svo oft verið svarað, að ekki þarf að fara um þau mörgum orðum. Það var boðið upp á samkomulag við neytendur, og því var hafnað. Það segir sig sjálft, að þá mundi landbrh. grípa til sinna ráða. Hann gerði það með því að leggja valdið í hendur ráðs bænda, sem hann tilnefndi. En á öllu valdatímabili Framsfl. voru það ekki bændur, heldur ríkisstj., sem réð verðlagningu landbúnaðarafurða. Oddamaður verðlagsnefndanna hefur verið skipaður af ráðherra. Nákvæmara væri að segja, að valdið hefði verið í höndum Framsfl. Ég held, að enginn lái landbrh. í alvöru, þótt hann færi ekki Framsfl. þetta vald áfram, hvernig sem menn annars vilja, að þessum málum sé skipað. Hvað vildu annars framsóknarmenn? Vildu þeir láta hækka eða lækka verð á landbúnaðarafurðum? Það er torráðin gáta. Búnaðarþingið neitaði að semja við Alþýðusamband Íslands um nokkurn veginn sama verð á landbúnaðarafurðum og nú hefur verið ákveðið, af því að það verð þótti of lágt. Það nægði ekki að hækka verðið um 8,4%, þeir vildu láta hækka það um 20%. Í fyrra. börðust þessir sömu framsóknarmenn eins og ljón fyrir því, að afurðaverðið yrði lækkað frá. því, sem sex manna nefndar álitið ákvað, þá þótti þeim verðið 9,4% of hátt. Og það er margyfirlýst stefna Framsfl. að lækka stórum verð á landbúnaðarafurðum og kaupgjald. Þetta á, meira að segja að vera eina ráðið til, þess að bjarga íslenzkum atvinnuvegum frá hruni. Framsóknarmenn neituðu allri samvinnu við Sósfl. og síðar við núverandi stjórnarflokka, af því að Sósfl. vildi ekki fallast á „evangelium“ framsóknarmanna: allsherjar kauplækkun og lækkun afurðaverðs samtímis. — Verðlækkun afurða landbúnaðarins er því hvorki meira né minna en fyrsta og aðalstefnuskrármál Framsfl. Samt bölsótast þeir nú eins og, naut í flagi af því að verðið á þessum vörum sé ákveðið of lágt, og neita allri samvinnu við verkalýðssamtökin á þeim grundvelli og hóta jafnvel framleiðsluverkfalli af þeim sökum.

Einn daginn of lágt, annan daginn of hátt. Stundum er þessum skoðunum haldið fram í sömu ræðu, hvort tveggja, borið fram með jafnmikilli æsingu og vanstillingu. Er hægt að hugsa sér öllu fáránlegri tilburði? Hvers vegna láta mennirnir svona? Því er auðsvarað: Það er vegna þess, að það er ekki landbúnaðurinn, sem þeir bera fyrir brjósti, heldur Framsfl. Takmark líðandi stundar er að sprengja samstarf núverandi stjórnarflokka og stefnumiðið að viðhalda þjóðfélagsháttum, þar sem er rúm fyrir Framsfl.

Hækkun eða, lækkun landbúnaðarafurða, —skyldi það vera leiðin til að losa landbúnaðinn úr vandanum.? Við skulum fyrst athuga hækkunina. Ýmsir hafa t. d. óttazt, að hið háa útsöluverð á kjöti, í ár yrði bændum til mikils tjóns. Þetta hefur verið mjög almennt álit meðal bænda. Og ráðsmennskan í kjötsölumálunum hefur verið þannig, að þegar útsöluverðið er hátt á elleftu krónu, hafa margir búizt við að fá sjálfir í hæsta lagi 6 krónur fyrir kg. Sem betur fer munu þeir fá meira fyrir kjötið í ár, því að það eru horfur á, að öll kjötframleiðslan seljist innanlands. En það er jafnvíst, að ef verðið hefði verið ákveðið l0% hærra, hefðu litlar líkur verið fyrir því, að hægt væri að selja allt innlenda kjötið á innlendum markaði.

Hátt verð á landbúnaðarafurðum, sem framleiddar eru við frumstæð skilyrði og haldið uppi með valdboði, hlýtur fyrr eða síðar að leiða til hruns og leiða nýja kreppu, örbirgð og niðurlægingu yfir bændastéttina, eins og verst var á fyrirstríðsárunum. Þetta er hagfræði, sem hvert mannsbarn skilur, jafnvel framsóknarmenn líka.

Verðlækkun og kauplækkun samtímis, — skyldi það vera leiðin? Skyldi það vera hagur fyrir bændur? Fjöldi bændaheimila lifir bæði á búsafurðum og vinnu utan heimilis. Ég hef til dæmis upplýsingar um eina sveit, þar sem voru aðeins tvær kaupakonur og einn kaupamaður síðast liðið sumar í allri sveitinni. En næstum því frá hverju heimili fór einhver í vinnu, sumir marga mánuði. Hér er því um tvöfalda tekjurýrnun. að ræða fyrir þorra bænda. Þetta er aðalstefnumál Framsfl.

Framsfl. vill áframhaldandi fátækt, bágindi og, basl hinna frumstæðu búskaparhátta og dreifðu byggða. Í annan stað vill hann fjandskap milli verkamanna og bænda. Annars væri ekkert rúm fyrir Framsfl. í þjóðfélaginu. Samvirkir þjóðfélagshættir í sveitum kippa grundvellinum undan honum, og náin samvinna verkamanna og bænda mundi gera hann óþarfan. Þess vegna hrópar hann stundum verðhækkun, stundum, verðlækkun eða kauplækkun — alt eftir því, hvað við á, — hvort þessa stundina þarf að leggja meiri áherzlu á að sprengja stjórnarsamvinnuna eða koma í veg fyrir, að sættir takist milli bænda og verkamanna. En það er ekki hægt að leysa neitt vandamál með því að hækka eða lækka afurðaverð, fremur en að hafa áhrif á rás tímans með því að flýta eða seinka klukkunni.

Og takið eftir, hlustendur góðir. Þegar hv. þm. guðsmaðurinn Eysteinn Jónsson talar hér á eftir, — mun hann halda áfram, að jagast um verðið, — halda áfram að eltast við skuggann sinn. Það er rétt, að framsóknarmenn sjá oft, hvað málstaður þeirra stendur höllum fæti, og hrópa því stundum allhátt um ýmsar svokallaðar tæknilegar framkvæmdir. En næstum undantekningarlaust eru þetta blekkingar, sbr. tillögur þeirra um, áburðarverksmiðju og rafmagnsmálin. Þetta kemur til af því, að nútíma tækni og dreifbýli eru gersamlega ósamrýmanlegir hlutir.

Ég vil nú í örstuttu máli lýsa stefnu Sósfl. í þessum málum:

Samkv. málefnasamningi stjórnarflokkanna er til þess ætlazt, að 50 millj. kr. verði varið til kaupa á tækjum til landbúnaðarins, vélum og verksmiðjum, og það er áríðandi, að þessu fé verði skynsamlega varið, þannig að það komi að sem beztu gagni. Til þess ríður á samstarfi við bændastéttina. Það hlýtur fyrst og fremst að vera komið undir skilningi og víðsýni bændastéttarinnar hvort fjármunum þessum verður varið í samræmi við hagsmuni fólksins í sveitunum.

Enginn mælir á móti því, að það þurfi að auka tækni í landbúnaðinum. Á því veltur framtíð landbúnaðarins og að mjög miklu leyti framtíð þjóðarinnar. Fólk, sem vinnur við tæknilega úrelta atvinnuhætti, getur ekki búizt við að lifa menningarlífi. Hin fullkomna tækni samrýmist ekki þeim atvinnuháttum, sem nú eru í landbúnaðinum: Tækni og hokurbúskapur geta ekki farið saman. Þess vegna þarf að stefna að meira þéttbýli af ástæðum, sem hverjum manni hljóta að vera augljósar. Það er ekki hægt að nota samstæðar nýtízku landbúnaðarvélar, nema í þéttbýli. Það er ekki hægt að koma á góðum og greiðum samgöngum, nema byggðin færist saman. Það er ekki hægt að koma á þeirri verkaskiptingu, sem tæknin krefst, nema í þéttbýli. Það er ekki hægt að koma því við, að hver búandi njóti aðstoðar sérfræðinga, nema í þéttbýli.

Stefna sósíalista í landbúnaðarmálum er í höfuðatriðum þessi:

1). Það þarf að framleiða samkv. áætlun þær landbúnaðarafurðir, sem landsmenn þurfa til eigin neyzlu, og skipta landinu í framleiðslusvæði, þannig að hver framleiðslugrein verði stunduð einungis eða að mestu þar, sem skilyrði eru bezt.

2) Landbúnaðurinn þarf að tileinka sér alla þá tækni, sem nútíminn hefur yfir að ráða í ræktun, búskaparháttum, geymslu, meðferð og vinnslu landbúnaðarafurða o. s. frv.

3) Byggðin þarf að færast saman á þeim stöðvum, þar sem skilyrðin eru bezt og liggja bezt við samgöngum. Í byggðahverfum þurfa menn að hafa sem nánasta samvinnu, fyrst og fremst um vélar, flutningatæki, húsbyggingar o. s. frv.

4) Það þarf að vera náin samvinna milli verkamanna og bænda, bæði um afurðasölu, verð og nýsköpun í landbúnaðinum.

Það verður fyrst og fremst að vera verk bænda að rétta landbúnaðinn úr kútnum. Fyrr verður það ekki gert en jafnharðan og þeir öðlast skilning á því, sem þarf að gera, og hefjast sjálfir handa. En verkalýðurinn er reiðubúinn að veita þeim alla sína aðstoð, og það er ekki hægt að stefna fram á við í landbúnaðinum, nema í samráði og samvinnu við fólkið í kaupstöðunum. Annars er stefnt aftur á bak.

Á þingi 1942 bar Sósíalistaflokkurinn fram eftirfarandi tillögu:

„Alþingi ályktar að fela Búnaðarfélagi Íslands eftirfarandi verkefni:

1) Að láta fara fram rannsókn á því, hvar heppilegust eru skilyrði með tilliti til ræktunar, rafvirkjunar, samgangna o. s. frv. til landbúnaðarframleiðslu í ýmsum greinum með stofnun byggðahverfa og aukið þéttbýli fyrir augum.

2). Að gera áætlun um rafvirkjun sveitabyggða og samgöngukerfi sveitanna með hliðsjón af rannsókn þeirri, er greinir í 1. lið. í samvinnu við aðrar hlutaðeigandi ríkisstofnanir.

3) Í sambandi við ofangreinda rannsókn að gera tillögur um stofnun, fyrirmyndarbúa á ýmsum stöðum á landinu og um fyrirkomulag þeirra, og skulu verkefni þeirra vera m. a. að gera tilraunir í ræktun og búrekstri, halda námskeið fyrir bændur o. s. frv.

4) Að undirbúa löggjöf um framkvæmdir og aðstoð við landbúnaðinn á grundvelli þess undirbúningsstarfs, sem að ofan greinir, og að endurskoða gildandi, búnaðarlöggjöf, til að greiða fyrir þróun hans í samræmi við þær niðurstöður, sem rannsókn sú, er um getur í 1. lið, leiðir í ljós.

Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.“

Þessi tillaga var samþ., en ekkert gert til að framkvæma hana, nema nokkrar rannsóknir um byggðahverfi, sem þeir Steingrímur Steinþórsson og Pálmi Einarsson gerðu.

Í samræmi við þessa stefnu bárum við hv. 7. landsk. þm., Kristinn Andrésson, fram frv. á síðasta þingi um nýbyggðir. Aðalefni frv. er, að stofna skal sjóð, sem hafi það verkefni með höndum að veita lánsfé með mjög lágum vöxtum til þess að reisa byggðahverfi (vextir og afborganir 3% í 42 ár). Ríkissjóður leggur honum 10 millj. króna sem stofnfé og síðan 1,5 millj. kr. á ári. Ríkið lætur framkvæma undirbúningsræktun á öllu landi byggðahverfisins og lætur fullrækta 6 ha. fyrir hvert býli, en ræktunarland hvers býlis skal vera minnst 12 ha. Nýbyggðastjórn lætur reisa íbúðarhús og peningshús í byggðahverfum, en síðan taka búendur við lánunum. Þeir, sem búa á jörðum, sem dæmdar hafa verið óhæfar til ábúðar, skulu sitja fyrir ábúð í byggðahverfi. — Þá er gert ráð fyrir smærri býlum fyrir þá, sem stunda aðra aðalatvinnu, svo sem smiði, bílstjóra o. s. frv., og svo í kaupstöðum við sjávarsíðuna.

Þessu frv. var vísað til nýbyggingarráðs, og hefur nýbyggingarráð látið fara fram mjög ýtarlega athugun á öllum þessum málum.

Væntanlega verður hægt að leggja tillögurnar í því formi, sem þær komu frá nýbyggingarráði, fyrir Alþingi alveg á næstunni.