26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti: Ég mun eðlilega beina máli mínu til hv. þm. Mýr., þar sem hann er sá eini af þeim, sem talað hafa, sem hefur borið fram nokkra teljandi gagnrýni á lagafrv. það, sem hér er til umr. í kvöld.

Hann byrjaði á því að benda á það, að sex manna nefndar álitið mundi vera í gildi enn þá. En í l. er kveðið svo á, að ef samkomulag verði í sex manna nefndinni, skuli álit hennar gilda sem l. meðan núverandi ófriðarástand helzt, og hv. þm. sagði, að á þessu ári hefðu engar breyt. orðið á ófriðarástandinu. Ég bendi sérstaklega á þetta, ekki af því, að ég búist við, að þessi rök gangi svo mjög í almenning, sem á þessar umr. hlustar, heldur vegna þess, að þetta er gott sýnishorn af því, hvernig Framsfl. hefur haldið á máli sínu og skilið þessa löggjöf, sem hér er til umræðu. Menn geta hugsað sér það, að þegar það er borið fram fyrir alþjóð, að á þessu ári hafi engar breyt. orðið á ófriðarástandinu, þá séu undarleg rökin um þau atriði, sem ættu þó að liggja eins ljóst fyrir og þetta. Allir vita, að sú mikla breyt. hefur orðið, að siglingar eru hafnar frá Íslandi til flestra þeirra landa, sem við höfðum viðskipti við fyrir ófriðinn. Það veit hv. þm., og við höfum í raun og veru kannske nú betri möguleika en nokkurn tíma áður á því að fá góðan markað fyrir afurðir okkar. Við framleiðum að mestu leyti matvæli, og heimurinn þarfnast þeirra mest. Ef við þess vegna getum ekki í ár fengið það verð fyrir afurðir okkar, sem við gætum unað við, þá eru ekki líkur til þess, að við getum það frekar síðar.

Eftir að hv. þm. hafði fært fram þessi rök fyrir því, að engin breyting hefði orðið á ófriðarástandinu á þessum árum, snéri hann sér næst að því að sýna fram á, að með bráðabirgðalögum þeim, sem hér eru til umr., hefði verið tekið valdið af bændum til þess að verðleggja vöru sína, og hefði það verið lagt í hendur ríkisstj. Hann gat nú ekki komizt hjá að játa það, að í verðlagningarnefndunum gömlu höfðu aðeins verið 2 menn af 5, sem unnt hefði verið að líta á sem fulltrúa bænda, og það getur orkað nokkuð tvímælis, að hve miklu leyti þeir gátu talizt fulltrúar bænda. En hvað sem þessu máli líður, er auðsætt mál, að af 25 mönnum í verðlagningarnefnd höfðu bændur ekki nema 12 menn, sem þeir gátu talið sína fulltrúa. Breyt., sem gerð hefur verið, er sú, að fjölmenn nefnd, sem skipuð er eingöngu bændum, tilnefnir 4 menn af fimm, sem falið er það vald að verðleggja afurðir landbúnaðarins. Sá maður, sem treystir sér til þess að leiða landslýð í allan sannleika um það, að engar breyt. hafi orðið á ástandinu, getur víst sannfært þá sömu um það, að verið sé að taka valdið af bændum, með alveg sömu rökum.

Á það hefur verið lögð mikil áherzla, frá því að byrjað var að ræða þessi mál, að telja bændum trú um, að verðlagningarvaldið væri í höndum landbrh., þrátt fyrir það, að þessi 25 manna nefnd, sem skipuð hefur verið bændum, hefur það raunverulega vald. Þetta stafi af því, að landbrh. skipi alltaf landbúnaðarráð, og hann hafi því aðstöðu til að hafa áhrif á gerðir þess. Hv. þm. A.-Húnv. sýndi fram á í sinni ræðu, með rökum, sem ég tel alveg eins góð og gild og rök hv. þm. Mýr., að ef ríkisstj. hefði viljað draga þetta vald í sínar hendur, þá hefði verið miklu einfaldara að láta gömlu ákvæðin um verðlagningarnefnd haldast óbreytt eins og þau voru. Ríkisstj. þurfti þá ekki annað en að tryggja sér formann verðlagningarnefndar, velja öruggan skoðanabróður sinn í formannsstarfið. Og hitt held ég, að sé varla hægt að segja, að ríkisstj. geti haft að leiksoppi jafnfjölmenna n. og búnaðarráð, sem hlýtur að vera skipað áður en hlutaðeigandi ráðh. hefur aðstöðu til að geta kynnt sér skoðanir nefndarmanna. Það er síður en svo, að það sé fjárhagslegur hagnaður fyrir menn að taka sæti í búnaðarráði, og ekki sennilegt, að nokkur telji það svo mikla vegtyllu, að hann vilji láta drengskap sinn með því, en það mundi sá gera, sem ekki færi eftir samvizku sinni. Ég held því, að vandfundin sé aðferð, er tryggi betur hagsmunasjónarmið framleiðenda en sú aðferð, sem valin hefur verið af ríkisstj.

Þá kom hv. þm. að stéttarsamtökum bænda og gerði mikið úr því, hvern fjandskap ríkisstj. hefði sýnt þessum samtökum og hvernig þau hefðu verið virt að vettugi í sambandi við þetta mál. Þm. er nú eldri en tvævetur og man víst eftir því, að áður hefur verið gerð tilraun til að stofna til stéttarsamtaka bænda hér á landi. Ég held, að hv. þm. muni líka, hvaða afstöðu hann tók til þeirra tilrauna þá og hans flokkur. Ég held, að allur Framsfl. hafi þá sýnt þessum tilraunum þann fyllsta fjandskap, sem hægt var að sýna slíkri viðleitni. Og það var kannske ekki nema mannlegt, því að vitað er, að sú tilraun var gerð til þess að vinna öðrum flokkum fylgi á sama hátt og Framsfl. er að reyna að nota bændasamtökin nú sem áróðurstæki fyrir sig. En það þarf ekki að fara svona langt aftur í tímann, til ársins 1933, þegar ég ætla, að þessar tilraunir hafi verið gerðar. Ég held, að hv. þm. Mýr. og margir af hans flokksbræðrum hafi ekki litið með neinni sérstakri vinsemd það bréf, sem birt var í flestum blöðum á landinu, um n., sem kosin var af búnaðarsamböndum Suðurlandsundirlendisins á s. l. sumri. Þá er það t. d. haft eftir hv. þm. Mýr., að aldrei mætti hafa frið fyrir þessum bændasamtökum, sem hann áréttaði með orði, sem ekki er útvarpshæft. Þá var hv. þm. Mýr. ekki hrifnari en þetta af bændasamtökunum, en svo kom hann auga á þann möguleika að nota þessi bændasamtök sér og flokki sínum til framdráttar. Ég verð nú að játa það, að það kom mér undarlega fyrir sjónir, þegar hv. þm. fór að sverja fyrir það, að hann og hans flokkur ætluðust í raun og veru til þess, að þessum stéttarsamtökum bænda væri falið verðlagningarvaldið, en ég skildi þetta svo. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur orðið svo uppnæmur við ræðu þá, sem hv. þm. V.-Ísf. flutti við fyrri hluta þessarar umr., hvort honum hefur þá fyrst orðið það ljóst, hversu ósegjanlegar villigötur það eru, sem hann og flokkur hans fara, þegar þeir halda því fram, að með því að ganga fram hjá stéttarsambandinu, sé verið að skapa bændastéttinni annan og lakari rétt en öðrum stéttum þjóðfélagsins. Hann veit það vel, þessi hv. þm., og hans flokksbræður, að þennan rétt hefur engin stétt í þjóðfélaginu, sjómenn hafa hann ekki, verkamenn hafa hann ekki, kaupsýslumenn hafa hann ekki. Allir þessir menn verða að sætta sig við að selja sína vöru því verði, sem eðlilegt framboð og eftirspurn eftir vörunni hefur skapað, og þeim reglum, sem verðlagsyfirvöldin í landinu hafa skapað þeim. Nú skal játað, að um það má deila, hvort það væri heppilegt að láta framleiðendur óskorað hafa vald til þess að verðleggja vöru sína. En um hitt verður naumast deilt, að meðan svo standa sakir, að ríkissjóður verður að hafa mjög þungbær útgjöld í sambandi við niðurgreiðslurnar, þá er ekki hægt fyrir ríkissjóð að sleppa þessu valdi alveg úr höndum sínum. Þegar málum væri svo komið, að öruggt þætti, að ríkisstj. þyrfti ekki að borga uppbætur á landbúnaðarafurðir, þá fyrst væri tími til þess að ræða um, hvort hægt væri að láta stéttasamtökin hafa þetta vald óskorað. Mér er ljóst, að þetta er tvíeggjað sverð, mikill vandi, en það er mikil ábyrgð, sem fylgir því, og ég er alls ekki viss um nema sú ábyrgð væri fullkomlega eins sterk leið til eins heppilegrar niðurstöðu og þeir samningar, sem áður réðu úrslitum í þessum efnum.

Þá talaði hv. þm. um verðlagninguna, sem farið hefur fram á þessu hausti, og sagði, að verðlagningarnefnd hefði til þess að þóknast stj. ákveðið verðið lægra en rétt hefði verið og með því bakað landbúnaðinum mikið tjón. Það væri náttúrlega mjög auðvelt að leysa þessi mál landbúnaðarins, ef vandinn væri enginn annar en sá að hækka verðið ár frá ári. Framsfl. hefur nú fundið upp dálítið sérstakt spakmæli í þessu, spakmæli sem ég hef séð bezt lýst í kveðlingi, sem birtist í norðlenzku blaði: upp með verðið, niður með dýrtíðina. — Þetta er ágæt regla, en hvernig gengur að framkvæma hana, það er dálítið annað mál, málið er því miður miklu vandasamara en þetta. Landbúnaðarvörur eru, eins og öll önnur verðmæti, háðar því lögmáli, að framboð og eftirspurn verður, þegar til lengdar lætur, að ráða mestu um verðlag á þeim. Það er auðsætt mál, að ef farið er með verðið lengra en góðu hófi gegnir, þá hlýtur það að leiða til þess, að salan minnkar og þar af leiðandi verði meiri útflutningur á vörunni og meðalverð, sem framleiðandinn fær, því miklu lægra. Ég er sannfærður um það, að verðlagsnefndin, sem ákvað verð á landbúnaðarafurðum í haust, gerði það fyrst og fremst eftir beztu samvizku og alveg án tillits til þess, hvort stj. þóknaðist betur eða verr í þeim efnum. Ég er sannfærður um það líka, að n. hefur ratað betur en í raun og veru hefði mátt búast við rétt meðalhóf í þessum efnum.

Það hefur verið á það bent, að allar stéttir hafi fengið kauphækkanir síðan um haustið 1944, og það er að nokkru leyti rétt og að nokkru leyti ekki rétt. En þess verður þó líka að gæta, að sú verðhækkun, sem varð á landbúnaðarafurðum í haust, er sannarlega ekki einskis virði. En verðhækkuninni varð þó svo í hóf stillt fyrst og fremst, svo að samkomulag næðist innan ríkisstj. um niðurgreiðslur á þessum vörum, sem gefur vonir um, að mjög mikill hluti þeirra eða allar verði seljanlegar á innlendum markaði. Þar af leiðandi gefur það vonir um, að bændur fái hærra verð fyrir afurðirnar en þeir fengu á síðasta ári. Og ef þetta mætti verða, þrátt fyrir þá miklu breytingu, sem orðið hefur, — þrátt fyrir það, þó að sex manna nefndar álitið sé fallið úr gildi og þar af leiðandi horfnar þær tryggingar, sem bændur hafa talið sig eiga til þess að fá ákveðið verð fyrir vörur sínar, að endirinn yrði sá, að þeir fái hærra verð heldur en samkv. sex manna nefndar álitinu vegna þess, að vel hefur ráðizt fram úr þessu máli, þá eiga bændur að vera þakklátir ríkisstj. fyrir það, en ekki að taka undir það níð, sem á hana hefur verið borið.