26.04.1946
Neðri deild: 124. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (4885)

239. mál, lántaka til hafnarframkvæmda

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég var ekki hér viðstaddur, þegar 1. umr. fór fram um málið áðan, en mér er sagt, að málið hafi verið afgr. á þann hátt, að því var vísað áfram. Það er náttúrlega fyrir sig eðlilegt, að þessi tilhögun sé viðhöfð til að koma málinu fram í þinglokin. En telja verður þó, að þetta mál sé svo stórt, að rétt væri að athuga það í n., áður en það yrði afgreitt (PZ: Það er búið að fella það.) Ég heyrði það. Hér er um að ræða, eftir því sem mér skilst, að stofna til útgjalda fyrir ríkissjóð til hafnarframkvæmda sem svarar upp undir ½ millj. kr. eða a. m. k. 400 þús. kr. Útgjöldin eru meiri, ef vextirnir eru yfir 4%. Samkv. frv. er ríkissjóði uppálagt að lána 20 millj. kr. með 2½% vöxtum. Þetta er rökstutt með því, að svo aðkallandi nauðsyn sé að ýta undir hafnarframkvæmdir þessara staða og þessi 1. eigi að koma þeim málum á betri veg en nú er. Nú er mér ekki kunnugt um, hvort vaxtakjörin almennt hafi dregið úr hafnarframkvæmdum og ekki heldur, hvort hafnarframkvæmdum væri hraðað með því að samþ. þetta frv. En það, sem hér er um að ræða, er, að verið er að færa vaxtabyrðina af héruðunum og yfir á ríkissjóð. Ríkissjóður leggur frá 2/5 hlutum kostnaðar og upp í helming. Og ef þetta frv. yrði samþ., væri enn fremur tekinn allt að því hálfur vaxtakostnaður af þeim hluta kostnaðarverðsins, sem hvílir á viðkomandi héraði, og hann færður yfir á ríkissjóð. Það er þetta, sem raunverulega er verið að gera mað þessu frv. Og ég teldi það vera athugandi mál, hvort ekki væri réttara, að málið yrði athugað nánar áður en það yrði samþ. Ég vil á engan hátt draga úr því, að viðkomandi héruðum verði hjálpað til aðgerða í þessu efni, en ég sé ekki, að þetta hafi aðrar verkanir en þær að færa til greiðslur, án þess það þurfi að flýta fyrir afgreiðslu málsins. Ég veit ekki til þess, að neinar hafnargerðir hafi strandað vegna vaxtagreiðslna, og sé ekki heldur, að þeim myndi verða flýtt, þótt þessu yrði við bætt. En allt ber þetta svo brátt að, að ég teldi það ekki skaða, þótt dregið yrði að samþ. þetta a. m, k. til morguns, svo að hægt yrði að athuga það í n. í millitíðinni. Þótt það yrði ekki gert formlega, þá mætti gera það milli 2. og 3. umr. Ég tel óforsvaranlegt að afgr. málið með svo miklum hraða að gera það ekki.