12.10.1945
Efri deild: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (4894)

17. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Flm., (Bjarni Benediktsson):

Ég læt mér nægja um þetta frv. að vísa til grg. þess, þar sem fram kemur, að það er flutt til þess að skera úr vafa um skilning á núv. l. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Það kemur ekki ljóst fram í l., hvort ætlazt er til, að einn eða fleiri húsmæðraskólar séu í kaupstöðum, en það hefur nógsamlega komið í ljós, að Reykjavík hefur þörf fyrir meira en einn skóla, sem öllum má vera ljóst, þar sem hér býr meira en þriðjungur þjóðarinnar. Því þótti þörf að fá þessa lagabreyt.

Nú er mér sagt, að á döfinni sé flutningur frv. um heildarlöggjöf í þessu efni af hálfu hæstv. stj., og er gott eitt um það að segja, en á því getur orðið töf, ekki sízt þar sem menn hafa ekki átt þess kost að kynna sér það áður. Ég tel því ráðlegt, hvað sem um þá lagasetningu verður, að þetta mál sé látið ná fram að ganga.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.