30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (4915)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Páll Hermannsson:

Ég vil í sambandi við þær umr., sem hér fara fram um húsmæðrafræðslu í sveitum, vekja athygli á því, að ég tel, að þessi l. þyrftu breyt. á fleiri vegu en þann, sem hér um ræðir. L. um húsmæðrafræðslu í sveitum eru frá árinu 1938, og þar er þessum skólum skapaður fjármálagrundvöllur til þess að starfa á, grundvöllur, sem ég geri ráð fyrir, að hafi mátt telja allgóðan þá, en ég hef grun um, að sé að verða skólunum býsna ótraustur nú. Eftir l. um húsmæðrafræðslu er svo ákveðið, að ríkissjóður skuli greiða til þessara skóla 450 kr. ár hvert af 15 fyrstu nemendunum, en 400 kr. á hvern nemanda, sem er umfram 15, náttúrlega að viðbættri þeirri hækkun, sem nemur verðlagsvísitölu. Nú er vísitalan að nálgast 300 stig, eða m. ö. o., þetta framlag nálgast það nú að vera þrefalt. Nú ætla ég að halda því fram og styðst þar við reynslu, að kostnaður við skólana, t. d. viðhald þeirra og annar kostnaður, sem skólarnir þurfa að hafa, hafi miklu meira en þrefaldazt síðan 1938. En taki maður út af fyrir sig kennsluna eina, þá er það svo nú, eftir að launalögin eru komin til framkvæmda, að kennslukostnaðurinn hefur ekki það sem venjulega er kallað margfaldazt, heldur hefur hann tífaldazt og jafnvel meira en tífaldazt, þegar launalögin eru komin til fullra framkvæmda.

Ég vildi benda á þetta. Ég þykist vita, að menntmn. viti um þetta, og efast ekki um, að hv. flm. þessa frv. veit vel, að kostnaður þessara skóla hefur aukizt mjög mikið, miklu meira en nemur verðlagsvísitölu. Þetta frv. er að vísu alveg sérstaklega um það að taka inn í l. nýja skólastaði, en ég vek nú samt eftirtekt á þessu, ef hv. flm. vildi íhuga þetta atriði. Mín skoðun er sú, að því fleiri skólar sem teknir eru inn í l. og taka til starfa, því brýnni nauðsyn er á því að ganga miklu betur frá þeim fjárhagsgrundvelli, sem þessir skólar hvíla á, en nú er gert. Mér skilst, að annaðhvort verði þessir skólar að fá utan við l. og reglur stórlega hjálp frá ríkinu eða það reki að því, að þeir verði að hætta störfum.

Þetta vildi ég taka fram í sambandi við mál það, sem hér er til umræðu.