30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (4916)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var atriði, sem hv. 1. þm. N.-M. tók fram, sem ég vil minnast á, en við erum báðir kunnugir í þessum efnum. Ég er sömu skoðunar og hv. þm., að úr því að farið er að breyta l. um húsmæðrafræðslu í sveitum, þá verði ekki hjá því komizt að ákveða öðruvísi um þann styrk, sem ríkisvaldið sjálft veitir til þeirra skóla. Með launalögunum, sem gerð voru, jukust mjög útgjöld þessara skóla, og hrekkur ekki til sá lögboðni styrkur með uppbótum, sem nú er lagður til þeirra. Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm., að menntmn. athugi fyrir 3. umr. þetta atriði og komi með brtt. einnig um það með þessum l. Ég held, að það sé ekki síður nauðsynlegt en þær breyt., sem nú liggja fyrir hér í þessu frv. Mér finnst það frv., þó að það sé sennilega vel hugsað, hvað fjárhagshliðina snertir frekar gálaust, því að eftir því, sem hv. frsm. segir, þurfa þeir skólar, sem nú eru til, stækkunar við og endurbóta. Flesta af þessum skólum, sem hann taldi upp, t. d. skólann í Borgarfirði, er nú verið að byggja, og verður að greiða stórfé úr ríkissjóði til þess að reisa þann skóla. Við vitum, að ríkið verður að greiða 3/4 til hvers skóla, sem reistur er þannig. Hér er farið fram á að byggja nú 7 nýja skóla. Svo kemur brtt., að mér skilst, um þann áttunda, og eftir því, sem fyrir lá í Nd., verða þetta 9–10 skólar. Það má því gera ráð fyrir a. m. k. 9 skólum, sem bætt verði við. Það má gera ráð fyrir því, að ríkissjóður verði að greiða í stofnkostnað og byggingarkostnað allt að 1 millj. kr. fyrir hvern skóla, og þá er verið að binda þann skó á ríkissjóð, sem verður alltaf 8–10 millj. kr. Með sama verðlagi verður ekki hjá því komizt, að rekstrarkostnaður við hvern skóla verði yfir 100 þús. kr., og skilst mér þá, að þetta nálgist 1 millj. kr. á ári í rekstrarkostnað. Er þá hér verið að binda ríkissjóði alltaf 10 millj. kr. bagga, sem í framtíðinni er sem stofnkostnaður, fyrir utan þær miklu aðgerðir, sem þarf að gera víða, og það hefur verið þannig um þessa skóla, að erfitt hefur verið um fé úr ríkissjóði til endurbóta á þeim. En ég álít, að fyrst verði að greiða úr ríkissjóði það fé, sem búið er að heimila til þeirra skóla, sem þegar eru komnir upp, en vera ekki að vasast í því að koma upp nýjum fyrirtækjum og hafa svo allt hálfkárað. Eins og nú stendur, er sæmileg aðsókn að skólunum, en verði fjárhagslegir erfiðleikar, er ég sannfærður um, að allir þessir skólar fá ekki fylli sína af nemendum, þar sem í kaupstöðunum er hægari aðstaða, og verður þá hver þeirra um sig búinn að koma upp sínum skóla og jafnvel kauptúnin, svo að ég hygg, að það verði full samkeppni á milli skólanna og erfiðleikar á ýmsan hátt. Ég vil því óska þess, að hv. menntmn. athugi, hvort ekki sé rétt að breyta fyrirkomulaginu um styrk til skólanna frá því, sem nú er, og í öðru lagi vil ég beina því til hv. form. fjvn., hvort þeir í fjvn. hafi svo fullar hendur fjár, að flói út af, og hvort það sé hægt að gera framtíðina svo glæsilega; að við getum veifað tugmilljóna frv. Þó að það séu ekki tugir milljóna á einu ári, þá safnast þegar saman kemur.