30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (4917)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég vil segja það út af ummælum hv. 1. þm. N.-M., er tekið var undir af hv. þm. Dal., að það er fullkomin ástæða til þess í n. að taka þessa hlið til athugunar, ef ekki á eingöngu að treysta á launal. Hv. form. n. er ekki hér staddur, en ég hygg, að hann sé okkur samdóma um það, að það sé rétt að taka launamálið til 3. umr., og þá býst ég við, af því að það er stórt mál og partur af launal., að þá yrði að ræða það við þm. úr þeim héruðum, þar sem skólarnir eru, því að það er mála sannast, að launal. hafa að nokkru leyti kippt grundvellinum undan hinni gömlu aðstöðu. Mér fannst ástæða til að gera ráð fyrir því, að stj. beitti sér fyrir launahliðinni á málinu, en þar sem fram hafa komið óskir um þetta frá mönnum, sem standa a. m. k. að tveim skólum, þá sýnist mér eins rétt að gera það nú í þessari hv. d. til 3. umr. Sömuleiðis hefur hv. 2. þm. Árn. borið fram brtt., sem að hans tilmælum mætti bíða til 3. umr., með því að hún er nokkuð einstaks eðlis, um að lögleiða 2 skóla í sömu sýslu. Að vísu er verið að gera ráð fyrir slíkum breyt. hér í Reykjavík, en þar er nokkuð önnur aðstaða, þar sem hér eru um 40 þús. manns. En ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, þar sem það verður til athugunar til 3. umr. Vildi ég óska eftir því, að aðalmálið gæti komizt í gegn við þessa umr., en brtt. yrðu undirbúnar og athugaðar milli umræðna.