30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (4919)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af því, sem hv. form. Dal. skaut hér fram, að ég sem form. fjvn. gæti upplýst við þessa umr., hvort við hefðum svo fullar hendur fjár, að út af flyti, þá skal ég nokkuð skýra frá því í sambandi við fræðslumálin.

Það munu liggja fyrir upplýsingar um það frá fræðslumálastjóra, að það muni Þurfa að byggja á næsta ári skóla fyrir um 9 millj. kr. í ýmsum héruðum landsins, og er þá átt við gagnfræðaskóla, héraðsskóla og húsmæðraskóla, sem þegar eru í l. Auk þess mun liggja fyrir, að það þurfi að byggja menntaskóla bæði í Reykjavík og á Akureyri, áframhald sjómannaskólans og ef til vill einhverja fleiri iðnskóla, svo að það má gera ráð fyrir, að það verði gerð krafa um 15 millj. kr. í náinni framtíð til skólabygginga. Ég er þeirrar skoðunar, að menntun alþýðunnar sé eitt af því, sem sé nauðsynlegast fyrir íslenzku þjóðina. Það hefur þegar sýnt sig, að hvar sem íslenzka þjóðin hefur orðið að beita hyggindum sínum út á við, hefur sú menntun komið að góðu haldi, og ekki síður inn á við. Það verður því ekki deilt um það, að landið verður að horfast í augu við þessar staðreyndir: Það þarf að koma skólunum upp, og það þarf að reka þá. Hitt er annað atriði, sem hv. þm. N.-M. benti á, að nauðsynlegt er að koma þessu í eitthvert fast kerfi og taka til athugunar öll lög um skólafræðslu, þannig að þær samþykktir, sem gerðar eru á Alþ. í hvert skipti, eyðileggi ekki heildarframkvæmdir í málinu, og ég hygg, að þegar svo er komið, að hugsað er til þess að hefja það grettistak að byggja nýja skóla fyrir 15 millj. kr., þá verði að taka þetta mál upp frá grunni og athuga, hvernig hægt er að afla fjár til að reka þessa skóla. Kemur þá einnig til greina, hvort hægt er að skipta byrðinni milli ríkis og sveitarfélaga. Vildi ég beina því til hv. menntmn., hvort hún vildi ekki hafa forgöngu í því, að þessi mál yrðu athuguð frá grunni. Þess er ekki að vænta, að kröfurnar falli niður um fleiri húsmæðraskóla. Sumpart er það þörfin og sumpart þykir það réttlætismál: Það sættir sig ekkert hérað við það í framtíðinni að verða að bera byrðar og greiða gjöld í ríkissjóð, en vera afskipt um lífsþægindi, sem eiga að koma, hvort sem það eru skólar, vegir eða annað. Þessi háttur hefur verið hafður á hér á hæstv. Alþ., að hlaða á ákveðin héruð, ekki í einu atriði, heldur í öllum atriðum. En þau munu halda áfram að koma með sínar kröfur og ekki hætta við fyrr en þær eru uppfylltar.

Hvað viðvíkur húsmæðraskólanum í Hveragerði; verð ég að mæla með því, að hann sé tekinn upp í þetta frv. og verði síðasta málsgr. í brtt. n., en því aðeins, að um leið sé sett inn, að heimilt sé að taka hann eignarnámi, ef ekki takast samningar. Ég vil einnig upplýsa það, að það hefur verið sótt um byggingarstyrk og rekstrarstyrk til fjvn. fyrir þessa skóla, og fjhn. hefur litið svo á, að hér væri fordæmi um mjög mikinn dugnað og hagsýni, eins og form. fjhn. hefur minnzt á, svo að fjvn. hefur fallizt á að mæla með 20 þús. kr. byggingarstyrk á þessu ári og rekstrarstyrk, og sýnir það, að það á ekki að láta þessa skóla vera fyrir utan þetta frv., ef það nær fram að ganga.

Hvað svo viðvíkur erfiðleikum, sem launal. skapa þessum skólum, þá skal ég í því sambandi upplýsa það, að það liggur fyrir fjvn. krafa frá héraðsskólunum um 220 þús. kr. greiðslu úr ríkissjóði vegna launal. og 300 þús. kr. krafa fá gagnfræðaskólunum. Þarf þá ekki að reikna með, að húsmæðraskólunum verði ætluð lægri upphæð en héraðsskólunum. Þarna eru þá komnar 700 þús. kr., sem meiri hl. fjhn. beggja og meiri hl. Alþ. vill verja í þessu skyni vegna launal. Í sambandi við þetta er eitt, sem er athugavert og ástæða er til, jafnvel á þessu þingi, að fá kippt í lag, ekki hvað sízt vegna þessa máls, en það er viðvíkjandi héraðsskólunum og gagnfræðaskólunum. Við, sem setið höfum og athugað þessi gögn, höfum komizt að raun um, að ýmisleg fríðindi hafa verið veitt kennurunum; áður en launal. komu í gildi. Þeir hafa verið látnir hafa ýmsar upphæðir með aukakennslu og ýmsu öðru til þess að bjarga því, að þeir sætu ekki við smánarlaun, þegar aðrir höfðu sæmileg laun í landinu. En eftir að þessir menn voru settir upp í það há laun með launal.., að aðeins einhver lítill hluti Alþ. vildi ganga að því, halda þeir öllum þessum fríðindum, en til þess var ekki ætlazt. En það er ekki aðeins, að þeir haldi þessum sömu fríðindum við héraðsskólana, heldur halda þeir þeim með sömu hlutfallslegu hækkuninni og er á láununum sjálfum. Ég ætla, að þetta séu svo stórár upphæðir, að hv. alþm. verði undrandi, ef þeir kynna sér það. Það eru til staðir á landinu, þar sem kennarar háfa yfir 40 þús. kr. í laun við skólann yfir árið. Til fjvn. hafa komið sundurliðaðir listar yfir stundakennsluna, og eru kennslustundirnar frá 8 og upp í 24 á viku, og sumir komast upp í 36 stundir, en það var ákveðið á sínum tíma, að það væri fyllsta álag að láta viðkomandi kennara kenna 18 stundir á viku. En nú er vitað, að þessir menn hafa tekið að sér að kenna 36 stundir og komast þá yfir 40 þús. kr. með laun sín og ofan á bætast 10 þús. kr. fyrir það, sem þeir kenna í öðrum skólum. Þessi gögn liggja öll fyrir, og er vel þess vert að athuga þau í sambandi við fræðslumálin og fræðsluskyldu í landinu. Um leið og ég held því fram, að það sé nauðsynlegt og óhjákvæmilegt fyrir þessa fátæku þjóð að mennta alþýðu sína sem bezt, svo að hún verði bezt menntaða alþýða í heimi, held ég því líka fram, að jafnframt þurfi að stilla í hóf því, sem greitt er óþarflega, til þess að ná þessu marki. Ég tel hér farið svo langt út fyrir takmarkið, að ekkert vit sé í að láta þessi mál vera svona framvegis, sem stafar af því, að það var verið að bjarga þessum málum á þeim tíma, þegar þessir menn sátu með mjög, lítil kennslulaun. — En þetta hefur komið fram í fleiri stofnunum en við kennsluna, en það gefst sennilega tækifæri til að ræða það á öðrum vettvangi. En það má líka koma hér fram, til þess að viðkomandi aðilar geti gert þær nauðsynlegu ráðstafanir til þess að kippa þessu í lag. Ég vil svo að síðustu mælast til þess, að frv. nái fram að ganga, en jafnframt séu gerðar allar þær ráðstafanir, sem unnt er að gera í sambandi við þessi mál, til þess að hægt sé að ná þeim árangri, sem ætlazt er til að ná með þessu frv.