11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (4924)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er bezt að segja fáein orð til viðbótar því, sem ég áður hef rætt um þetta mál.

Við síðustu umr. var ég með smábrtt. varðandi húsmæðraskólann í Hveragerði. En við nánari athugun komst ég að þeirri niðurstöðu, að hún bryti í bága við frv. sjálft. Brtt. mín er á þá leið, að við 1. gr. A, eftir orðinu „Laugarvatn“ bætist inn í greinina : og í Hveragerði. Þar eð í frv. er gert ráð fyrir, að skólarnir skuli vera sjálfseignarstofnanir, eign héraða eða sýslufélaga, en skólinn í Hveragerði er hins vegar einkaeign Árnýjar Filippusdóttur, kom brtt. mín í bága við frv. Þess vegna hefur það orðið að ráði, að ég tæki þátt í flutningi brtt. á þskj. 296. Ég á fyrri lið þeirrar brtt. á sérstakan hátt, en hann er á þá leið, að aftan við 1. gr. komi ný málsgr., svohljóðandi:

„Þó er ráðherra heimilt að láta rétt til kennaralauna og rekstrarkostnaðar samkvæmt lögum þessum einnig ná til einkaskóla Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði.“

Þetta er aðeins heimild, sem hver góðviljaður ráðherra mun nota sér, meðan fröken Árný reynist eins vel og nú. Hér við vil ég bæta, að ég tek mína fyrri brtt. aftur. Þessi kemur þá í staðinn.