11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (4935)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vildi aðeins taka það fram út af því, að talað hefur verið um, að það mundi búa eitthvað undir því hjá hv. þm. S.-Þ., að hann vildi koma fram þessari till. sinni á þskj. 296, að ég get sagt það, að frá mínum bæjardyrum er þetta þannig, að síðan skólarnir byrjuðu í haust, þurfa kennslukonurnar að eiga heimtingu á því að fá kaup sitt. Nú liggur það ekki fyrir í launal., að það eigi að borga þetta hátt kaup, en það er enginn búinn að segja um það, að ríkissjóður eigi að borga það kaup, og það þýðir ekki að vísa til einstaklinga, og nefndarfrv. er ekki orðið að lögum, og þess vegna verður hvert tækifæri notað til þess að knýja eitthvað fram um það, hverjir eigi að borga. Þess vegna er nauðsynlegt að fá þessa breyt. fram hér í þessu frv., nema því aðeins, að fjárl. verði áður búin að leysa þann hnút. Þess vegna held ég því fram, að það verði að fresta að samþ. brtt. eða frv., þangað til búið er að afgr. fjárl. og sjá, hvort nauðsynlegt er að taka það fram í sérstökum l., ef framlagið nægði til rekstrar á húsmæðraskólunum á þessum vetri.