11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (4936)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson) :

Ég var mjög hrifinn af því fyrir nokkrum dögum að heyra hv. 1. þm. Reykv. lýsa yfir sinni miklu umhyggju ekki einungis fyrir húsmæðraskólunum, heldur sérstaklega fyrir fröken Árnýju, þannig að því sárari vonbrigði eru það, þegar maður heyrir, að þessi ágæti vinur kvenfólksins vill láta þetta dankast þannig, að engin laun séu tryggð þessum skólum, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Dal., og að ekki sé heldur neitt til þess að standa undir þeim launum, og því svífur Árný nú í lausu lofti fyrir tilverknað þessa hv. þm. Ég vona því, að hann sjái, þegar hann athugar þetta, að slíkt er fjarstæða. Í öðru lagi fataðist þessum hv. þm. í því, þegar hann talaði um, að þetta frv. væri brot á einhverju kerfi. Þetta frv. var samþ. í fyrra í báðum d. sem stækkun á kerfi frá 1938, og átti það að verða til þess að bæta úr því, að launal. höfðu eyðilagt þetta kerfi. Þetta var það gamla kerfi, sem ég vil halda, en hv. 1. þm. Reykv. hefur villzt frá. Þess vegna er það, að þetta frv. með þeim brtt., sem við það eru, er miðað við þá reynslu, sem verið hefur. Svo kemur fram frv. í Nd., sem samið er af ókunnugu fólki, og þar eru gerðar fráleitar till. um rekstrarkostnað, því að þeir, sem að því standa, hafa enga þekkingu á því, hvað þessum skólum hentar.

Hv. þm. vildi saka mig um það, að ég væri með vondar hugleiðingar í sambandi við brtt., en ég vildi benda hv. þm. á það, að ég hef tekið upp það frv., sem samþ. var hér í fyrra og var stutt af hv. þm. Barð. og öðrum, sem þar áttu hlut að. En hv. þm. N.-M., sem hefur engan hug á að sprengja frv. í Nd., hefur komið með þá sorglegu reynslu í sambandi við skóla, sem hann ber ábyrgð á, að hv. þm. hlýtur að verða ljóst, að það verður að breyta þessu, ekki eins og í Nd., heldur eins og reynslan hefur sýnt, að er bezt, að gera kerfið út frá því, sem byrjað var á, að ríkið taki að sér rekstrarkostnaðinn. Þess vegna er ekkert annað að gera en að ríkið taki að sér normalan kostnað við reksturinn. Ég vona þess vegna, að hv. þm. sjái, að honum er engin önnur leið opin en að styðja þetta, til þess að þeir í Nd., sem eru með ófullkomna byrjun á því kerfi, sem hér var byrjað á, fái af því einhverja hugleiðingu.