11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (4937)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Magnús Jónsson:

Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. S.-Þ. skuli vera að reyna að fá mig út af þeirri braut, sem hann taldi mig vera á viðvíkjandi þessum skólum. Ég get ekki neitað því, að mér finnst hann vera með þessu að reyna að hola þessum skólum niður einhvers staðar í sel utan við fræðslul. í landinu, en ég vil bjóða þessum skólum inn í bæinn sjálfan með öðrum skólum. Mér finnst engin ástæða til þess, þó að hv. þm. S.-Þ. sé með einhverja skemmu úti á hlaði, sem hann vill setja húsmæðurnar í, að fylgja honum í því. Mér þykir leiðinlegt, ef ég geri honum rangt til um hugarfar til mþn., en sumir sögðu í fyrra, að hann hefði séð ofsjónum yfir því, að n. hefði fengið að borða á Laugarvatni, en mér finnst afstaða hans til þessa frv. bera keim af þessum sveltikúr fræðslumn. uppi við Langjökul. Ég er hræddur um, að þessi till. hv. þm. sé fram komin af því, að hann vilji bjarga þessum skólum og vilji geta gert það án þess að þurfa að gera það með frv. mþn. Ég vil svo segja það, bæði við hann og hv. þm. Dal., að það er ekki með nokkru móti örugglegar séð fyrir þessu með þeirra brtt., sem hér fylgja, heldur en með frv. í Nd. Ég veit ekki betur en að þessi frv. séu komin álíka langt áleiðis, bæði í fyrri d., og ég vil halda því fram, að það frv. sé fullt svo sigurvænlegt, sem borið er fram af mþn. í fullu samræmi við stefnu þeirrar stj., sem við völd er, eins og frv., sem einstaklingar bera fram. Annars hafa stundum frv., sem einn þingmaður úr stjórnarandstöðunni ber fram, ekki þótt sigurvænleg, a. m. k. ætti það ekki að vera sigurvænlegra en frv., sem borið er fram og undirbúið af mþn. Þetta frv. er ágætt, en það er ekki nema lítill hluti af hinu frv., sem skapar þessum skólum virðulegan sess í fræðslukerfi landsins. Þess vegna er allt, sem um það er talað, að þetta sé gert til þess að sjá fyrir þessum skólum, út í hött, því að það er gert með báðum frv. Ég á svo að liggja undir sök fyrir það, að ég hafi viljað eyðileggja húsmæðrafræðsluna með launal., en ég get ekki hugsað mér meira öfugmæli. Með launal. er einmitt fyrir því séð, að kennarar við þessa skóla séu sæmilega launaðir, og með launal. er því í fyrsta skipti slegið föstu. Það er meira að segja tekið fram, að konur og karlar skuli njóta sömu launa, og þær konur, sem þar kenna, þess vegna njóta sams konar réttinda og aðrir kennarar í landinu. Ég held nú, að þó að margt megi finna að launal., þá sé ekki hægt að hafa þetta á móti þeim, að þau hafi orðið til þess að spilla fyrir húsmæðraskólunum.

Ég skal ekki tala um þetta frekar, en ég vonast til þess, að frv., sem nú er fyrir Nd., nái samþykki þingsins, en ég tel það skaða að vera að setja inn í þetta frv. ákvæði, sem geta hindrað framgang þess, því að það tekur fram þessa skólastaði, sem þar eru taldir, án þess að fleyga þá í smærri flokka, áður en sú almenna regla er upp tekin. Þó að það sé kannske ósamræmi í því að taka þessa staði fram, var Alþ. búið að segja sinn vilja um þessa ákveðnu staði, og þess vegna á ekki að vera að fleyga þetta eins og hv. þm. S.-Þ. vill gera.