22.10.1945
Efri deild: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (4944)

33. mál, jarðræktarlög

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem nú liggur hér fyrir, er kunnugt þessari hv. deild, þess vegna get ég sparað henni tíma með því að hafa ekki langa framsöguræðu fyrir frv.

Frv., sem var nokkuð svipað þessu, var lagt fyrir þessa hv. deild árið 1943. Eftir að það hafði fengið athugun í n., var því af meiri hl. þessarar hv. d. vísað frá með rökst. dagskrá. Það var gert ráð fyrir í þeirri dagskrá, að málið væri rannsakað af mþn. búnaðarþings. Enn fremur þótti nauðsynlegt að upplýsa ýmis atriði, t. d. það, hvernig reyndust þau stórvirku tæki, sem þá voru nýflutt til landsins til notkunar við jarðvinnslu, en þá lá ekki fyrir nægileg þekking um reynslu þeirra. Málið var svo tekið fyrir og rannsakað af mþn. Búnaðarfélagsins og því skipt í tvö frv. frv. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, sem var lagt fyrir síðasta þing og fékkst samþ., og þetta frv., sem var lagt fyrir Nd. og afgr. þaðan með verulegum breyt. frá því, sem það kom frá mþn. búnaðarþings. Þegar það kom til þessarar hv. d., þótti frv. verulega gallað. Og þótti sumum hv. dm. sem megingallarnir hefðu verið settir í það með breyt. hv. Nd. Málinu var því enn á ný vísað frá með rökst. dagskrá. Nú er málið flutt hér inn í þessa hv. d., til þess að hún geti tekið afstöðu til þess eins og það var, þegar það var lagt fyrir hv. Nd. af mþn. Búnaðarfélagsins. En eins og hv. dm. muna, voru breyt. Nd. aðallega fólgnar í því, að ríkið átti í aðalatriðum að taka að sér framkvæmdir, sem frv. gerir ráð fyrir, og framkvæma þær, en síðan áttu bændur að borga nokkurn hluta af framkvæmdunum.

Ég sagði það í upphafi þessa máls, að ég þyrfti ekki að rekja í löngu máli ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er flutt hér inn í þessa hv. d. Ég vænti þess, að frv. verði vel tekið, þótt því verði ekki neitað, að nú virðist uppi sú skoðun meðal ráðamanna þjóðarinnar að líta á íslenzkan landbúnað og ræktun sem aukaatriði í íslenzku þjóðlífi og atvinnulífi. Sjórinn hefur verið ákaflega stórgjöfull nú undanfarið, og allir vona, að svo verði framvegis. En ég er ákaflega hræddur um, að mörgum hætti til að láta sér sjást yfir það, að þær stóru gjafir, sem hafið hefur veitt okkur á undanförnum árum, eru af höndum inntar undir sérstökum kringumstæðum, þeim kringumstæðum, að við höfum setið einir að fiskimiðunum og getað mokað upp þessum auðæfum, án þess aðrir hafi þar verið að verki samhliða okkur. Og fyrir þennan mikla afla, sem okkur hefur tekizt að ná, höfum við svo fengið margfalt verð öll styrjaldarárin. Margir álíta, að við höfum fengið tífalt verð fyrir aflann miðað við það, sem við fengum fyrir styrjöldina. Þetta virðist hafa slegið ryki í augu margra manna um landbúnaðinn íslenzka, sem öðruvísi stendur á um, og þeir virðast líta á hann sem aukaatriði í íslenzku atvinnu- og þjóðlífi. Þetta álítum við flm. mikla yfirsjón. Þótt erfiðlega standi nú fyrir íslenzkum landbúnaði um alla framleiðslu, þá má þetta missýni ekki valda því, að það gleymist, að fyrir styrjöldina framleiddu íslenzkir bændur, án nokkurra styrkja nema jarðræktarstyrks, landbúnaðarvörur fyrir lægra verð en var í flestum nágrannalöndum okkar. Og þeir lifðu af þessari framleiðslu sæmilegu lífi, eftir því sem aðstæður voru þá, þar sem kreppa var í flestum löndum.

Á þessum sama tíma voru fiskveiðar stundaðar með tapi og ríkisstyrkjum í flestum löndum bæði hér og annars staðar, hér með óbeinum styrkjum, þar sem voru hin gífurlegu töp bankanna. Annars staðar var sjávarútvegurinn styrktur meira eða minna eða tollverndaður. Í Frakklandi var ekki hægt að gera út dieseltogarana, vegna þess að þeir voru dýrari í rekstri en kolakyntu togararnir. Á Spáni, þar sem framleiðendur þurftu ekki að borga toll, eins og við, var togaraflotinn styrktur stórkostlega af ríkinu. Og sama ástand var í flestum löndum. Hætt er við, að sama ástand skapist, þegar samkeppni við aðrar þjóðir hefst að nýju, sem sýnilega verður innan stundar. En það, sem við eigum, er moldin. Og ég held, að það sé því betra sem við skiljum það fyrr, að það er hrapalleg missýn að líta á íslenzkan landbúnað sem aukaatriði í atvinnulífinu. Og það er því betra sem við skiljum það fyrr, að það verður að leggja íslenzkan landbúnað og sjávarútveg að jöfnu í þjóðlífinu. Ég er einn af þeim mönnum, sem álít, að það muni fara svo fyrir okkur sem öðrum þjóðum, sem hafa lagt landbúnað og ræktun til hliðar með eins konar fyrirlitningu, eins og nú virðist gæta í íslenzku þjóðlífi, þá reki þjóðin sig á það og það hrapallega síðar meir. Ef slíkt er gert lengi, þá er það stórkostleg yfirsjón. Við gætum tekið nágranna okkar, Englendingana, hér til fyrirmyndar: Vegna hins stórkostlega iðnaðar, sem reis þar upp, sem er nokkuð hliðstætt sjávárútveginum, sem hér kom til sögunnar, þá vanræktu þeir landbúnað sinn. En eftir reynslu þá, sem þeir fengu í þessari styrjöld, eru þeir ákveðnir í því, að slíkt skuli aldrei koma fyrir aftur í sögu Englands. Og eins og flestir munu vita, sem hlusta á mál mitt, hefur enskur landbúnaður margfaldazt á styrjaldarárunum, og nú er lögð meiri áherzla á hann en nokkru sinni fyrr. Ég held það muni fara alveg eins fyrir okkur, ef það sjónarmið fær að sigra, sem nú virðist ríkja meðal íslenzkra ráðamanna.

En ég vil segja það, þótt ég tali hér meðal alþm., sem taka yfirleitt lítið tillit til raka, að ég er sannfærður um, að sagan um Hrafna-Flóka er sönn og er ekki hvað sízt dæmisaga. Ég er sannfærður um, að eins fer fyrir íslenzku þjóðinni og Hrafna-Flóka, ef hún vanrækir landbúnað sinn og leggur eingöngu áherzlu á sjósókn. Við munum ekki lifa lengi í þessu landi, nema við kunnum að stunda ræktun og landbúnað. Það er þess vert fyrir alla, sem vilja hugsa um þjóðmál af alvöru, að gæta sín fyrir þeirri hugsun, sem nú virðist ríkja meðal ráðamanna þjóðarinnar gagnvart ræktun og landbúnaði.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta frv. fleiri orð, en ég óska, að því verði vísað til 2. umr. og landbn.