08.03.1946
Efri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (4951)

33. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Ég vil þakka forseta fyrir það að hafa tekið Þetta mál nú strax á dagskrá, eftir að ég bar fram ósk um það í gær. Þetta er nú mál, sem er mjög kunnugt hv. þdm. frá undanförnum þ., og má segja, að þetta sama mál hafi legið fyrir tveimur þ., sem sé hér í Ed. á þ. 1943 og í báðum d. þingsins á fjárlögum þ. 1942. Ég býst því við, að ekki sé til neins að fara að skýra efni þessa frv., tel víst, að allir þdm. hafi áttað sig á því. Ég vil aðeins geta þess, að það, sem þetta frv. fer fram á, er það, að til nýræktunar og þurrkunar landsins verði jarðræktarstyrkurinn hækkaður á sama hátt og hann hefur nú verið hækkaður vegna sléttunar á gömlum túnum, eða m. ö. o. tvöfaldaður frá því, sem verið hefur. Landbn. hefur haft þetta mál til meðferðar, eins og vitað er, og voru aðeins 2 nm. af fimm, sem voru við því búnir að mæla með frv., hv. þm. Dal. og ég. Aðrir tveir nm., sem á fundi voru, töldu sig ekki geta gert það þá, en mér er ekki kunnugt um, hvaða afstöðu þeir taka til málsins. Um fimmta nm., hv. 2. þm. Árn., er það að segja, að hann var ekki á fundi, þegar ákvörðun var tekin.

Í nál. á þskj. 242 gerum við hv. þm. Dal. grein fyrir skoðun okkar á þessu máli og rekjum þar nokkuð sögu málsins á undanförnum árum, og teljum við, að hv. d. eigi að samþ. þetta frv. Menn minnast þess, að á síðasta þingi tók þetta mál þeirri breyt. í Nd., að í staðinn fyrir að breyta jarðræktarstyrk einstaklinga eins og gert hefur verið og í stað þess að hækka hann, eins og farið var fram á, var gengið inn á nýja leið, þá, að ríkið kostaði vinnslu landsins, en jarðræktarmenn áburð, útsæði og umhirðu. Og þykist ég muna það rétt, að það var álit fróðra manna þá, að ef af því hefði orðið, þá svaraði það til þess, að ríkið bæri 3/5 af ræktunarkostnaði landsins, en ræktunarmennirnir 2/5. Allir vita, að ef gera á örar jarðræktarframkvæmdir, sem nú mun vera ásetningur landsmanna yfirleitt, mundi það kosta ríkissjóð mikið fé, og er ekki því að leyna. Á þingi í fyrra haust ætla ég, að hafi verið áætlað þannig, að sú ræktun, sem nauðsynlega þyrfti að gera til þess að heyfengur fengist yfirleitt allur á ræktuðu landi, muni kosta í heild nærri 100 millj. kr., og ef hugsað væri til þess að framkvæma það verk á svona h. u. b. 10 árum, yrði það því sem næst 10 millj. kr. tilkostnaður á ári, sem mundi skiptast milli ríkisins annars vegar og ræktunarmannanna hins vegar, kannske næstum til helminga, en kannske væri það þó heldur meira, sem ríkið yrði að leggja fram, eða sem svaraði nálægt 5–6 millj. kr. á ári eftir núverandi peningagildi.

Annars ætla ég ekki að halda langa ræðu um þetta á þessu stigi, því að það ætti að vera óþarft, þar sem þetta mál er svo kunnugt hér á þinginu. Við, sem höfum gefið út þetta minnihl. álit, höfum óskað eftir að fá þetta mál til meðferðar ekki til þess að hefja um það langar umr., heldur til þess að málið gæti fengið afgreiðslu, og eiginlega verðum við að líta svo á, eftir því sem gerzt hefur í málinu og undirtektir manna um þetta hafa verið, eiginlega allra, að flest bendi til þess, að í báðum d. Alþingis sé nægilegt meirihlutafylgi fyrir því að hækka til muna framlag ríkisins og hjálp við ræktunarframkvæmdir í landinu. Læt ég svo að öðru leyti nægja að vísa hv. þdm. til nál. okkar hv. þm. Dal. á þskj. 242.