31.10.1945
Efri deild: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (4976)

53. mál, verkfræðingar, húsameistarar, iðnfræðingar

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af allshn. samkv. beiðni félagsins Tækni, sem er félagsskapur manna, sem lokið hafa tæknilegri menntun, en mega þó ekki, samkv. núgildandi l., kalla sig verkfræðinga. Þessum mönnum finnst því gengið á rétt sinn í núgildandi lögum. Frv. miðar ekki í þá átt að umsteypa löggjöfinni, heldur fái þeir að kalla sig ingeniöra án tillits til íslenzkrar löggjafar, ef þeir hafa unnið að verkfræðistörfum áður en l. voru samþ. Það virðist engin ósanngirni felast í þessu, og taldi n. því rétt að koma því á framfæri, án þess hún hafi tekið afstöðu til málsins.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn., en því hefur verið skotið að mér, að frekar bæri að vísa frv. til iðnn., en ég álít, að ef því yrði ekki vísað til allshn., þá bæri frekast að vísa því til menntmn.