03.12.1945
Efri deild: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ræða hv. 1. þm. Eyf. (BSt) gefur mér ekki tilefni til neinna teljandi andsvara. Hann lagði aðaláherzluna á, að þetta frv., ef að l. verður, yrði þrælalög og bæri vott um einræðishneigð hjá ríkisstj. og að hún vildi leggja undir sig allt vald í verðlagsmálum landbúnaðarins. — Hann minnti á það, að eftir þeim l., sem úr gildi eru numin um verðlagningu landbúnaðarvara, var það landbrh., sem hafði úrslitavaldið um hana, þar sem hann skipaði oddamann verðlagsn. Hver maður hlýtur því að sjá, og ég veit, að hv. 1. þm. Eyf. er alltof skynsamur maður til þess að treysta sér að neita því, að það er auðveldara fyrir landbrh. að hafa tök á slíkum málum með því að tilnefna aðeins einn mann heldur en 25 menn í þá n., sem á að fara með þessi mál. — Ég hef ekki heyrt það á hv. 1. þm. Eyf., að verðlagsl. frá 1934–1935 hafi verið þrælal., þrátt fyrir það, að ríkisstj. hafði svo mikið vald um verðlagningu, og meðan hann getur ekki bent á, að hann hafi mótmælt ákvæðum þeirra l., getur hann ekki vænzt þess, að menn taki undir það með honum, að ríkisstj. sýni með þessu frv. einræðishneigð og beiti bændastétt landsins ofbeldi, og ef hann hefði mótmælt þeim ákvæðum, sem sett voru með l. 1934–1935, hefði hann núna styrkari aðstöðu til þess að beita sér gegn þeim ákvæðum, sem hér um ræðir.