13.12.1945
Neðri deild: 52. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (4986)

53. mál, verkfræðingar, húsameistarar, iðnfræðingar

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál. Ég vildi aðeins vekja athygli n. á málinu, sem fær það til meðferðar. Geri ég ráð fyrir, að það verði allshn.

Ég tel, að frekari athugun þyrfti að gera á þessu máli, enn frekari athugun en gerð hefur verið í Ed. Mér skilst, að sú breyt., sem gerð er með þessu frv. á l., sé ekki nema lítils háttar kákbreyt. og að það sé því ástæða til að taka málið til frekari meðferðar. Það hefur komið í ljós, síðan l. gengu í gildi, megn óánægja með löggjöfina meðal manna, sem lokið hafa prófi í þessum greinum, og það hafa komið kvartanir frá þeim mönnum með beiðni til Alþ. um að breyta löggjöfinni. Ég sé ekki þá breyt., sem gerð yrði á l., sem leiðrétti á neinn hátt þá vankanta, sem eru á framkvæmd þeirra, með þeim ákvæðum, sem hér liggja fyrir. Það hefur verið reynt að bæta lítils háttar úr þessu gagnvart mönnum, sem lokið hafa prófi í þessum greinum fyrir löngu, en þeir, sem síðar komu til mála, eru sama ranglætinu seldir og þeir, sem koma undir ákvæði l. samkv. þessu frv.

Það hefur komið í ljós, að þeir menn, sem samkv. þessum l. hafa fengið vald til þess að ákveða, hverjir skuli teljast fullfærir verkfræðingar, hafa neitað að viðurkenna verkfræðinga frá erlendum háskólum, ekki aðeins frá háskólum í Kanada og Bandaríkjunum, heldur öllu brezka heimsveldinu og ráðstjórnarríkjunum; þeir hafa neitað að viðurkenna þá sem fullgilda verkfræðinga og setja þeim stólinn fyrir dyrnar með atvinnuréttindi hér á landi. Virðist manni það nokkuð djarft af fámennri klíku verkfræðinga að setja sig í dómarasæti yfir verkfræðikunnáttu þessara þjóða, sem ég hef upptalið, og segja fyrir, hvað megi gera og hvað megi ekki gera. Mér skilst, að það sé ótækt að fá þetta mikið vald í hendur þessum fáu mönnum, sem telja sig sjálfkjörna til að segja allt um þessi mál hér, að þeir eigi að geta lagt dóm á það, hvaða háskólar í veröldinni séu færir um að útskrifa verkfræðinga, sem færir séu til að starfa hjá okkar litlu þjóð.

Mér finnst sjálfsagt, að sú breyt. verði gerð á löggjöfinni, að það heyri undir Háskóla Íslands að löggilda þá háskóla, sem mega útskrifa verkfræðinga handa Íslendingum, en ekki falið þeirri fámennu verkfræðingaklíku, sem hefur komið upp hjá sér þeim félagsskap, sem allt vald hefur á himni og jörðu í þessum efnum.

Það er þetta, sem ég vil benda n. á, sem fær þetta mál til athugunar, að það er áreiðanlega fullkomin þörf á, að þetta mál fái rækilega athugun.