06.03.1946
Neðri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (4993)

53. mál, verkfræðingar, húsameistarar, iðnfræðingar

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál. En úr því að það er hér á ferðinni, komið frá Ed., þykir mér hlýða að segja um það nokkur orð. En í rauninni finnst mér ekki gangur þess hér á hæstv. Alþ. vel skynsamlegur að sumu leyti. Það er þó ekki að því leyti til, að ég hafi ekki frá upphafi séð, að nokkurt misrétti hafi átt sér stað í þessum efnum, sem l. frá 1937 voru völd að, að sumir þeirra manna, sem áður voru tilkomnir sem verkfræðingar úr hinum og öðrum skólum, voru nú aðskildir í tvo hópa, heldur hitt, að mér hefur virzt, að hér sé í rauninni farið fram á of lítið. Ég minnist þess, að ég hafði nokkur afskipti af málinu 1937 og var eins konar milligöngumaður á milli þessara stofnana, sem komu þessu af stað, en það voru stéttarfélög þessara fræðimanna. Og var frá upphafi ásteytingarsteinn hér á Alþ., að hér var gert svo upp á milli manna og erlendra fræðistofnana, að að mínum dómi náði það ekki nokkurri átt. Nú voru l. samþ. í fullu trausti þess, og ég get bezt um það borið, að það traust kom af því, að það var fengið loforð frá þessum stéttarfélögum um, að þau tækju þannig á málinu, að þeir, sem stundað höfðu verkfræðistörf, voru komnir inn í landið og höfðu tekið próf frá tekniskum háskóla annars staðar og höfðu réttindi sem „ingeniörar“, þeir áttu að verða jafnréttháir og verkfræðingar og þeim yrði ekki hnjaskað á einn eða annan hátt, heldur teknir inn í löggjöfina. En tilefnið til þess, að félagsskapurinn notaði þetta heiti, mun vera það, að í 1. gr. l. var til glöggvunar sett innan sviga orðið „ingeniör“, eins og í 3. gr. var sett á eftir „húsameistari“ orðið „arkitekt.“ Þess vegna er það óskiljanlegt, að það skuli eiga að breyta þessu, það megi ekki standa „ingeniör“, því að það áhrærir ekkert atriði, því að þeir menn voru komnir til áður en l. gengu í gildi. Það er algerlega formlegt tilefni, að þessir menn standa í þessari gr. En mér virtist skörin færast upp í bekkinn, þegar það kom fram í blaði verkfræðingafélagsins, að verkfræðingar, sem komu frá Politekniska háskólanum í Kaupmannahöfn, ættu að vera settir skör lægra en verkfræðingar frá öðrum tekniskum háskólum. Og þýzkir verkfræðingar, sem höfðu próf frá tekniskum háskólum í Þýzkalandi, eins og þeir væru ekki jafnfærir til þess hér á Íslandi að vera verkfræðingar, þó að þeir nefndust „ingeniörar“? En hvað um það, þessu félagi var treyst til að framkvæma þetta. Og viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði, að það væri ekkert á móti því að fá húsameistarafélagið líka, þá kemur það til af þessu, að í framkvæmdinni var það svo, að allir húsameistarar voru teknir inn, en verkfræðingafélagið þrjózkaðist við það, og út af þessu varð rekistefnan. Það var reynt að fá félagið til að breyta hátterni sínu og taka þessa menn inn, en það fékkst ekki. Og þessir menn reyndu að fá ríkisstj. og Alþ. til að breyta þessu þannig, að þeir væru réttbornir, en það fékkst ekki. Hvorki stj. né þing treysti sér til að bera þetta fram, svo að þeir kæmu þessu inn, og við það hefur setið. Nú koma þessir menn og vilja fá þessa leiðréttingu, en mér finnst þetta vera svo lítilfjörlegt, það er ennþá komið undir stéttarfélagi verkfræðinga, hvort þeir mega heita þetta. Mér finnst óskiljanlegt að vera að sleppa úr orðinu „ingeniör“, þegar í 3. gr. l. stendur áfram „arkitekt“. Þetta er í samræmi við málvenju annars staðar í löndum, og það á að gilda það sama hér. Verkfræðingur er í rauninni þýðing á „ingeniör“ og „húsameistari“ þýðing á „arkitekt“. Þetta er komið inn í málið. Ég vildi láta þessi orð falla til þess að þeir hv. alþm, og aðrir, sem ekki eru kunnugir þessu máli, færu nær um það, að það er ekki að ófyrirsynju að liðka hér til. En ef það er málhreinsun að sleppa þessu „ingeniör“, þá á líka að taka 3. gr.

Ég er samþykkur brtt. hv. þm. Mýr. um það, að í stað stéttarfélags verkfræðinga komi Háskóli Íslands, því að það er öruggast, þá þurfa menn ekki að kvarta. Háskólinn ætti að geta gefið úrskurð án tillits til hagsmuna einstaklinga eða félaga.