09.11.1945
Efri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (5028)

76. mál, vegalagabreyting

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er þannig til orðið, að okkur flm. þess þótti tímabært að bæta vegum í þjóðvegatölu í sýslum okkar. Reyndar mun meðflm. minn gera grein fyrir sínum vegum og skoðun á þessu máli. En við töldum, að sýslur þær, sem hér um ræðir og lagt er til, að vegir verði teknir í þjóðvegatölu í, hafi orðið afskiptar við fyrri úthlutanir í slíkum efnum. Þegar úthlutað var þessum réttindum til nærri hverrar einustu sýslu landsins árið 1933, þá fékk Dalasýsla ekki nema smávegarspotta. Þannig hefur Dalasýsla orðið frekar afskipt. Og sérstaklega kom til orða, að einn vegur yrði tekinn í þjóðvegatölu við síðustu breyt. á vegal., Haukadalsvegur, en samgmn. taldi þá ekki hægt að fullu að fullnægja vegabeiðni sýslunnar, svo að hann komst ekki þá í þjóðvegatölu. — Ég tel hina mestu nauðsyn á því að fá þennan veg í þjóðvegatölu. Bændur hafa verið að fást við það á eigin spýtur að gera við verstu torfærurnar á þeim vegi og auðvitað gengið hægt.

Um Laugaveg, undir b-lið, er það að segja, að sá vegur liggur til skóla- og samkomustaðar héraðsins, og er sjálfsagt, að hann komist einnig í þjóðvegatölu, en hann er örstuttur, og mundi vegur sá verða fljótlagður.

Um þriðja veginn er ekkert sérstakt að segja, fremur en aðra vegi, sem nú á tímum eru teknir í þjóðvegatölu. Hann liggur upp þéttbyggðan dal og svo eftir svokölluðum Hvammsdal, að Sælingsdalsheiði, sem skilur á milli Hvammsfjarðar- og Gilsfjarðarbyggðanna, og er mjög gott að létta undir með þessu byggðarlagi og geta fengið þennan veg einnig í þjóðvegatölu.