09.11.1945
Efri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (5029)

76. mál, vegalagabreyting

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 103 gerzt meðflm. að frv. með hv. þm. Dal. Ég hef lagt til hér, að í þjóðvegatölu verði teknir 3 vegir.

Fyrst er það Suðurfjarðavegur, sem lagt var til árið 1942, að tekinn yrði upp í þjóðvegatölu, en þá náði það ekki fram að ganga. Suðurfjarðahreppur hefur aðeins fengið tekinn í þjóðvegatölu sem svarar eins kílómetra vegar af vegum, sem í hreppnum eru. Og borið saman við aðra hreppa á landinu, þá er það svo lítið, en þörfin hins vegar mjög aðkallandi, að hreppurinn hefur í þessu efni farið mjög varhluta samanborið við aðrar sveitir landsins, þar sem á Bíldudal búa um 500 manns, sem þurfa að hafa beint samband við sveitina inn eftir, bæði um mjólkurflutninga og önnur viðskipti, auk þess sem ætlazt er til, að þessi vegur sé upphaf að vegi frá Bíldudal til Barðastrandar, til þess að stytta leiðina að aðalvegakerfi landsins. En verði hann ekki lagður þá leið, munu Bílddælingar jafnan þurfa að fara yfir þrjá fjallgarða til þess að fara til Barðastrandar. Sér hver maður, hve óviðunandi slíkt er í framtíðinni að hafa þann hátt, á þeim málum. Ég vænti því, að hv. samgmn., sem fær þetta mál til meðferðar, leggi til, að þessi vegur verði tekinn í þjóðvegatölu á þessu þingi.

Um Rauðasandsveg er það að segja, að þessi vegur var tekinn í þjóðvegatölu í tíð fyrrv. þm. Barð., Bergs Jónssonar, hlutinn frá Hvalskeri: að Saurbæ. Nú er síðan kominn í þjóðvegatölu kaflinn frá Patreksfirði inn Roknadalshlíð yfir Kleifaheiði og suður á Barðaströnd, og fer sá vegur fram hjá Ósá, sem í frv. er getið, við Patreksfjörð. Nú er bráðnauðsynlegt, að þessi þjóðvegur frá Hvalskeri að Rauðasandi verði tengdur við þjóðveginn við Patreksfjörð, sumpart til þess að hafa þjóðveg samanhangandi þarna og sumpart vegna þess, að það er alveg óhjákvæmilegt, að þessi hluti sé tengdur saman til þess að afla Patreksfirði mjólkurafurða frá Rauðasandi. En ástandið í þessum málum þarna er þannig nú, að Patreksfjörður, sem hefur nærri 800 manns, er í bókstaflegu mjólkurhungri allt árið um kring, þannig að ég þekki engan stað á landinu, þar sem ástandið er jafnslæmt í þessu efni. Hins vegar eru á Rauðasandi blómlegar jarðir með véltæk tún. En það er ekki hægt að koma mjólkurvörum til Patreksfjarðar nema með mjög ærnum kostnaði, vegna þess að mjólkurflutningur þaðan er bæði yfir land og sjó, þar til þessi vegur er fullgerður. Og hef ég þá talið nauðsynlegt, að vegurinn verði látinn liggja fram að Naustabrekku, fram með hinum blómlegu býlum á Rauðasandi, svo að þau geti í framtíðinni haft aðstöðu til þess að safna þar saman mjólk og koma henni á þann markað, sem bíður eftir að geta fengið hana. Ég vænti því einnig, að hv. samgmn. mæli með því, að þessi vegur verði tekinn í þjóðvegatölu.

Þriðji vegurinn, sem ég legg til, að verði tekinn í þjóðvegatölu, er Örlygshafnarvegur, og er hann frá Hvalskeri um Sauðlauksdal að Hnjóti í Örlygshöfn. En nú er vegur kominn í þjóðvegatölu frá Hvalskeri að Saurbæ. En í Sauðlauksdal á að setja upp í náinni framtíð heimavistarskóla fyrir allan hreppinn. En í Örlygshöfn er blómleg byggð, sem nú flytur mjólk til Patreksfjarðar, en sá flutningur er svo háður veðrum og vindum, að mjög oft verður að koma mjólkinni á þann hátt að nota skotlínu til þess að koma mjólkinni milli báts og lands til þess að hægt sé að koma henni yfir fjörðinn. Þess vegna hef ég flutt beiðni um það, að þessir vegir verði teknir í þjóðvegatölu.

Ég vænti þess, að lokinni þessari umr., að frv. þessu verði vísað til hv. samgmn. og að hún taki þannig þessi mál í heild, að þessir 3 vegir, ásamt þeim, sem hv. þm. Dal. gerir till. um, verði teknir inn í vegal. á þessu þingi.