07.03.1946
Efri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 2. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Ég er nú ekki svo mjög samþykkur málflutningi hv. frsm. meiri hl., hv. 2. þm. Árn., yfirleitt, en um eitt atriði er ég honum sammála. Ég er honum sem sé sammála um það, að langar umr. um þetta mál muni ekki upplýsa mikið um málið. Það hafa farið fram um þetta óvenjulega miklar umr. í blöðum, á mannfundum og á Alþingi, og jafnvel hafa verið útvarpsumr. frá Alþingi um þetta mál. Þess vegna er ég hv. 2. þm. Árn. sammála um það, að langar umr. um það muni ekki upplýsa málið verulega, því að ég hygg, að málið sé orðið mönnum verulega ljóst.

Í nál. á þskj. 523 hef ég sett fram afstöðu mína til þessa máls, sem sé þannig, að ég bendi á það, að bráðabirgðal., sem hér á að gefa frambúðargildi, séu nú þegar búin að vera í gildi meira en hálft ár og þar af leiðandi að hafa sínar verkanir nú eins og stendur, aðalatriði sé því það að undirbúa breyt., gera breyt., sem koma til með að verða í gildi fyrir framtíðina, þar sem á annan hátt væri séð fyrir þessum málum en gert er í þessu frv. og bráðabirgðal. Þrátt fyrir þetta hef ég þó samt lagt það til, að þetta frv. verði fellt, og með leyfi hæstv. forseta, þá kemst ég um það svo að orði í nál.: „En þar sem mér þykir heildarblær þessa frv. þannig, að bændastéttin geti ekki unað við slík l., legg ég til, að frv. verði fellt.“

Þó að ég viðurkenni, að langar umr. um þetta mál muni ekki upplýsa það, þá tel ég mér skylt að færa nokkur rök fyrir þessari afstöðu minni.

Aðalefni þessa frv. og það, sem ég legg langmest upp úr við þetta sem stéttarmál, er það, að ríkisvaldið tekur að sér með þessum bráðabirgðal. og þessu lagafrv. að setja bændastéttinni fjárráðamenn með nokkurn veginn takmarkalausu valdi yfir fjármálum stéttarinnar, þar sem n. manna, sem stj. skipar eða velur, ræður algerlega verðlagi á öllum landbúnaðarvörum. Það þarf ekki að lesa það upp úr frv., það hafa menn áreiðanlega kynnt sér, að 6. gr. kemst svo að orði, að störf verðlagsn. er að ákveða verð á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði, þ. e, a. s. kjöti alls konar, mjólk og mjólkurvörum og garðávöxtum. Með þessu valdi ráða búnaðarráð og verðlagsn. alveg yfir fjárhag bænda, því að fjárhagur þeirra hlýtur að byggjast algerlega á því, hvaða verð þeir fá fyrir þessa vöru, því að úr þessu verði kemur það fé, sem þeir eiga að hafa til að lifa af. Þetta ákvæði finnst mér algerlega ranglátt eins og frá því er gengið. Mér finnst það ranglátt vegna þess, að fyrst verðlagsyfirvöldin eru skipuð á þennan hátt, þá fæ ég ekki séð, að það sé nein trygging fyrir því, að þessi verðlagsyfirvöld ákveði verðlagið einvörðungu með tilliti til þarfa og hagsmuna bænda. Landbrh. velur þessa menn. Nú vill svo til eins og stundum, að hæstv. landbrh. er jafnframt fjmrh., og öllum þingheimi er það ljóst, að verðlag á landbúnaðarvörum hefur þýðingu fyrir fjárhag ríkissjóðs. Landbúnaðarvörurnar eru einna þýðingarmesti þátturinn í því að ákveða verðlagsvísitöluna. Ég hef ekki beinlínis litið eftir því, hvað stór þáttur í verðlagsvísitölunni landbúnaðarvörurnar eru, en allir hv. þm. vita, að þær eru einn allra stærsti þátturinn. Verðlagsvísitalan ákveður svo verðlagsuppbótina, en verðlagsuppbótin er nú nærri því 2/3 hlutar af öllum launagreiðslum ríkissjóðs. Vísitalan er nú, eins og menn vita, 285, grunnlaunin 100 stig af þessu, en hitt er vísitöluuppbótin, svo að það má nærri geta, hvort það má ekki gera ráð fyrir því, að n. manna, sem skipuð er af fjmrh., sem líka er landbrh., hljóti ekki að taka talsvert tillit til kringumstæðna ríkissjóðs, þegar hún ákveður verðlagið.

En hvort sem þessir menn í verðlagsn. taka eingöngu tillit til þarfa og afkomu þeirra, sem landbúnað stunda, eða ekki, þá finnst mér ekki hægt að komast hjá því, og ýmsir og margir réttilega gera ráð fyrir því, að þessir menn líti að meira og minna leyti og kannske engu síður á þarfir og kringumstæðum ríkissjóðs, og af þeirri ástæðu einni virðist ekki koma til mála, að þeir, sem ráða á þennan hátt alveg óskorað yfir verðlagi landbúnaðarafurða og kjörum allra þeirra bænda, sem landbúnað stunda, séu til þess skipaðir á þennan hátt.

Að öðru leyti verð ég að telja, að það sé niðurlægjandi fyrir bændastéttina, að hún ein skuli á þennan hátt vera gerð ómyndug á þennan hátt, að henni sé settur fjárhaldsmaður, sem ræður alveg yfir fjárhag stéttarinnar.

Hv. frsm. meiri hl., 2. þm. Árn., var eitthvað að hugleiða um samtök bændastéttarinnar, og hann komst þannig að orði að mér skildist, að samtök bændastéttarinnar væru ákaflega óþroskuð. Hann var jafnframt að gera sér von um, að bændasamtökin kynnu kannske einhvern tíma að reynast heilsteypt og sjálfum sér trú. Ég er ekki sömu skoðunar og hv. 2. þm. Árn. um það, að samtök bændastéttarinnar séu ákaflega óþroskuð. Ég hef hins vegar litið svo á, að félagslega mundi bændastéttin vera þroskaðasta stéttin í landinu. Mér finnst það ekki óeðlilegt, vegna þess að ég hygg, að sú stétt eigi langlengsta félagslega sögu að baki bæði um búnaðarmál og svokölluð samvinnumál, sem einkum hafa verið verzlunarmál, og ýmislegt fleira. Ég tel því, að bændastéttin sé eiginlega stétta líklegust til þess að geta ráðið ein sínum málum, en ég tel hana hins vegar stétta ólíklegasta til þess að ráða málum sínum þannig í heild, að ríkinu stafi nokkur hætta af þeirri ráðsmennsku.

Ég legg til, að frv. verði fellt, og það er alveg sérstaklega vegna þess, að ég get ekki fyrir bændastéttarinnar hönd unað við, að í l. sé ákveðið fyrirkomulag um val trúnaðarmanna, sem ráða svo mjög yfir kjörum allrar bændastéttarinnar, eins og þeir menn gera, sem ákveða verðlag á landbúnaðarvörum. Ég get ekki sætt mig við, að þeir menn séu valdir á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta er algerlega án tillits til þess, hvernig landbrh. kann að hafa tekizt það í þetta eina sinn, sem þetta hefur verið gert, að velja mennina. Ég býst við, að það hafi tekizt upp og ofan. Ég geri ráð fyrir, að það hafi tekizt vel út frá sjónarmiði hæstv. ráðh., sem hann sem ráðh., bæði sem landbrh. og eins fjmrh., hlýtur að hafa. Ég veit það fyrir víst, að margir af þessum mönnum eru hinir nýtustu menn, kannske allir, en þeir eru valdir á þann hátt sem gert er, og við það vil ég ekki sætta mig fyrir bændanna hönd. Það er hálfgert aukaatriði, en ég hygg þó, þrátt fyrir það, að þetta séu nýtir menn, að bændur mundu ekki gegnum samtök sín hafa valið til þessa starfs marga af þessum mönnum, sem hæstv. ráðh. hefur valið og nú fara með þessi mál.

Ég geri mér ekki von um, að d. taki til greina bendingar mínar um það að fella þetta frv., en ef svo væri, þá mætti náttúrlega segja, að ekkert sé sagt um það, hvað þá skuli taka við. Það hefur verið gerð tilraun í Nd. um það að færa þetta frv. í það horf, að menn gætu sætt sig við það. Ég er þess vegna ekki að leggja það á mig að bera fram slíkar till. á ný, þar sem fram væri tekið, að í verðlagsn. væru eingöngu menn valdir af þeim, sem stunda landbúnað, en ekki menn, sem eru valdir af Alþingi eða ríkisstjórn.

Um brtt. þær, er fram hafa komið, vil ég segja það, að ég mun fylgja brtt. á þskj. 520, frá þm. Dal. Sú brtt. er til mikilla bóta, og er frv. mun þolanlegra, ef hún nær samþykki. Um brtt. á þskj. 511 er lítið að segja — ég tel hana alveg þýðingarlausa og sama, hvort hún nær samþykki eða ekki.

Ég taldi það skyldu mína að gera þannig grein fyrir afstöðu minni, en skal svo ekki fjölyrða frekar um málið á þessu stigi.