27.11.1945
Efri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (5074)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Mér þykir rétt við þessa umr. málsins að segja nokkur orð um frv.

Á síðasta Alþ. var borið fram af hv. þm. Vestm. frv. um breyt. á iðnaðarl., einkanlega varðandi iðnnámið. Umr. lyktaði þannig, að frv. var vísað til ríkisstj., sem skyldi rannsaka málið nánar og leggja það síðan fyrir þetta Alþ. Hv. flm. taldi, að aðgangurinn að iðnaðarnáminu væri of þröngur. Afgreiðsla málsins varð til þess, að ráðuneytið skipaði mþn. í marz s. l. til að athuga málið. Mþn. hefur síðan gert það og skilað liti fyrir skömmu og frv., sem bráðlega mun verða lagt fyrir hv. Nd. til umr. Allir nm. voru sammála um frv. og gefur það von um, að málið verði afgr. fljótt á Alþ. — Ég gat um þetta vegna þess, að þetta frv. grípur inn í iðnaðarlöggjöfina. Iðnaðarnám mun einkum vera tvenns konar, annars vegar meistarakennsla, eins og hér er, eða skólakennsla. Ég sat einu sinni fyrir alllöngu síðan, eða 15 árum, á iðnaðarráðstefnu í Kaupmannahöfn, þar sem þessar tvær leiðir voru ræddar. Í Danmörku er engin skólakennsla. Öllum fundarmönnum kom saman um það, að meistarakennsla væri æskilegri og hagkvæmari, og mun svo vera álitið víðar. Engu að síður bar þeim saman um, að skólakennsla væri nauðsynleg að nokkru leyti. Í Noregi er fyrirkomulagið hins vegar þannig, að byrjað er með 18 mánaða forskólanámi og fara nemar síðan í verklegt nám, og er 18 mánaða forskólanám látið samsvara 24 mánuðum hjá meistara, en 12 mánaða forskólanám samsvarar 18 mánuðum hjá meistara. Flestir munu álíta fjarstæðu að ætla að veita mönnum iðnaðarfræðslu á 2 árum, eins og hér er mælt fyrir. Meistarakennslan hefur gefið góða raun hér, og munu meistarar alls vera um 1600. Á þennan hátt er mestur hluti af iðnaðarmönnum okkar menntaður.

Í 7. gr. þessa frv. segir svo um verklegt nám, með leyfi hæstv. forseta: Verklegt nám húsasmiða skal miðað við það, að þeir verði færir um að standa fyrir smíði íbúðarhúsa, allt að því tveggja hæða, auk kjallara, og leggja einfaldar lagnir fyrir rafmagn, vatn og hita. Skulu þeir læra að nokkru hvort tveggja, trésmíði og múrsmíði, en velja um það, hvort af þessu tvennu þeir gera að aðalnámi sínu. Þeir, sem gera múrsmíði að aðalnámi, skulu læra að leggja járn í steypu og leggja vatnsleiðslur og miðstöðvar eftir teikningum, en trésmiðir skulu læra málningu og veggfóðrun.“ — Hér eru nefndar hvorki meira né minna en 6 námsgreinir til lærdóms á 2 árum, þó að þar af sé sérnám í 2–3 greinum. Venjulegt iðnnám hjá meistara er 4–5 ár, og verður því hér ekki um neinn tilsvarandi iðnlærdóm að ræða, og menn litlu bættari í öllum þessum greinum. Auk verklega námsins er svo gert ráð fyrir bóklegu námi í íslenzku, teikningu, bæði almennri teikningu og verkteikningu, iðnsögu, eðlisfræði og efnafræði og einnig á að gefa nemendum kost á kennslu í íþróttum og söng. Ég geri því ráð fyrir, að þegar bóklega námið er frá skilið, verði aðeins 1–1½ ár til verklega námsins, og efa ég, að rétt sé að dreifa svona mörgu á nemendur og láta þá grauta í mörgum greinum, án þess að fá nokkra reglulega grundvallarþekkingu. Að vísu er ekki ráðgert, að menn, útskrifaðir úr þessum skóla, hafi rétt til að stunda smíði íbúðarhúsa í kaupstöðum með yfir 300 íbúa. En ég mundi telja varhugavert að taka þessa menn til jafnábyrgðarmikils starfs og smíði íbúðarhúsa er. Hæðin á húsunum er enginn mælikvarði á það, hve vandasamt er að byggja þau. Að sumu leyti getur verið meiri vandi að byggja í smærri kaupstöðum og kauptúnum, þar sem erfiðara er að fá ýmislegt, sem nauðsynlegt er til bygginga. Ég er raunar ekki að halda því fram, að engin skólakennsla ætti að vera. Ég teldi, að gott væri að hafa svipað form á þessu og Norðmenn hafa, með 1–1½ árs námi í forskóla. Það mundi bæði gera námið effektívara og e. t. v. fjölskrúðugra, því að hjá sumum meisturum vill brenna við, að það verði of einhæft. En samkv. þessu frv. yrði kröftunum drepið of mikið á dreif. Hv. flm. fullyrti, að hér mundu nemendur fá eins mikla leikni og í 4 ára iðnnámi. En ég trúi ekki á svona hraðan gang í þessu.

Mér finnst, að hv. flm. hafi ekki leitað til réttra aðila við samningu þessa frv., því að enda þótt þessir menn, sem hann tilnefnir sem sína aðstoðarmenn, séu annars ágætismenn, þá hafa þeir varla næga þekkingu í þessum efnum. Ég hef nú talsvert fylgzt með iðnkennslu í undanfarin 20 ár, en ég álít, að frv. þetta muni ekki ná þeim tilgangi, sem því er ætlað. Ég vildi, að n. sú, sem fær málið til athugunar, leitaði sér umsagnar fræðimanna þeirra, sem bezt skynbragð bera á þessi efni. Verkleg skólakennsla er nýmæli hér í iðnaðinum hér á landi, en ég teldi heppilegra, að þeim skóla yrði öðruvísi fyrirkomið en hér er ráð fyrir gert.