27.11.1945
Efri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (5075)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, að ég hef ekkert við það að athuga, að málið fari til iðnn., og býst ég við, að það fái þar góða afgreiðslu, því að ég veit, að form hennar gerir sér ljósa nauðsyn þess, að sveitir og þorp fái sína fagmenn, vegna þess að iðnnemar úr skóla þessum fái rétt sinn á ákveðnum svæðum. Iðnaðarmenn hafa sótt það fast að fá réttindi sín út yfir allt landið, en þeir hafa ekki haft þau í þorpum og bæjum minni en 300 íbúa. Því að einkarétt kalla ég það, eins og fagmennskunni er enn komið hjá okkur.

Ég er ekki sérfróður um þessi mál, og ég get ekki sagt eins og hæstv. iðnmrh., að ég hafi í síðustu 20 ár fylgzt með gangi þessara mála yfirleitt, að því er snertir löggjöf um þau og framkvæmd þeirra. En ég skal þó — til þess að hæla mér þó ofurlítið, eins og hæstv. ráðh. segja það hér, því að ég býst við, að fáir viti það, að ég hef þó stundað smíðar sem unglingur það mikið, að ég geri ráð fyrir, að ég sé eins góður smiður eins og a. m. k. sumir af fagmönnunum í þeirri grein, sem hafa próf. Kemur það að því, að ég vann mörg ár við smíðar með manni, sem lengi hafði verið erlendis við húsasmíð. Og af þessum ástæðum hef ég haft töluverðan áhuga á þessum málum og nokkurn skilning, þó að ég sé ekki fagmaður á þessu sviði. Enn fremur hef ég fylgzt með kennslumálum í þessum efnum, af því að ég var lögreglustjóri í mörg ár og hafði með að gera kærur út af þessum málum, sem við komu iðnnemum. En ég vildi sérstaklega taka það fram við iðnn., að það er vegna deilna, sem átt hafa sér stað undanfarið milli fagmanna annars vegar og meiri hl, þings hins vegar, að ég vildi ekki láta réttindi þessara manna, sem útskrifast frá þessum iðnskóla í sveitum, ef til kemur, að hann verði stofnaður, ná inn á einkaréttindasvið þeirra manna, sem slík einkaréttindi hafa nú í þessum efnum. Og ég gerði mér von um, að með því móti gengi þetta mál frekar fram. Því að allir, sem hlustað hafa á umr. um iðnaðarmálin hér fyrr á þingum, vita, að þar er við raman reip að draga og engin von til þess að koma frv. sem þessu fram fyrst um sinn, ef það væri látið grípa inn á einkaréttindasvið þeirra manna, sem nú hafa í þessum málum einkaréttaraðstöðu. (Samgmrh.: Þeir hafa ekki einkarétt). En viðvíkjandi skólanámi í þessum efnum og námi hjá meisturum er hægt að gefa þær upplýsingar, að deilur hafa verið milli sérfróðra manna í þessum greinum — sem sjálfir hafa sitt þing, sem hæstv. ráðh. minntist á — og hinna, sem utan við samtök þeirra standa og réttindi, víðar en hér á landi. Og skólar, sem komnir eru á Norðurlöndum í þessum greinum, hafa sumir komið í trássi við iðnaðarmenn, sem sérréttindi hafi haft. Í Svíþjóð t. d. vildu iðnaðarmenn alls ekki viðurkenna þá fyrst í stað, sem frá slíkum skólum útskrifuðust, vegna þess að þeir komu fyrst og fremst til þeirra starfa, sem ekki er ætlazt til eftir þessu frv., að nemendur, sem útskrifast úr iðnskóla í sveitum, takist á hendur, nefnilega vinnu við störf, sem fagmenn áður höfðu einkarétt á. Ég legg ekki út í slíka deilu hér, nefnilega þá deilu, sem átti sér stað ytra til þess að brjóta niður fagmennsku og lýst hefur verið í umr. hér á hæstv. Alþ. í fyrra, að ætti sér stað hér. Í þessu frv. er, eins og það ber með sér, gert ráð fyrir því að fara þær leiðir, að þetta sé í senn skóli og praktisk kennsla. Skólanámið á að standa fyrst og fremst yfir veturinn, en kennsla við smíðar, þar sem vinnuflokkar vinna við húsagerð, á sumrin.

Hæstv. ráðh. taldi það fjarstæðu að álíta, að tveggja ára skóli gæti sinnt því hlutverki að veita nemendum þá fræðslu, sem væri fullnægjandi, svo miklar kröfur sem gerðar væru til þessara manna samkv. 7. gr. frv. Um þetta atriði vil ég þá segja það, að kennsla í iðngreinum, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, hefur eins og kom fram í ræðum hæstv. iðnmrh., oft og einatt verið sáralítil, og þessu veit ég, að þessi hæstv. ráðh. er mjög vel kunnugur. Vinnan er svo einhliða fyrstu árin við þetta nám, og jafnvel öll árin, að það vantar mikið á, að húsasmiðir, t. d. hér í Reykjavík kunni allir að fara með vélar til þess að smíða glugga og hurðir. Þetta er allt keypt að. Og námið er svo einhliða, að þeir, sem því eru ekki kunnugir, gera sér ekki í hugarlund, hve einhliða það er. Enn fremur er þess að gæta að mikið af þeim fagmönnum, sem hér eru í þessum efnum, hafa aldrei á skóla komið og aldrei lært annað í þessum greinum en það, sem þeir hafa lært af því að vinna við húsbyggingar, svo sem að leggja dúka, mála, bréflíma veggi o. s. frv. Þeir hafa unnið að þessu án þess að hafa fengið tilsögn í því. Ég veit ekki, hve margir af hundraði af slíkum fagmönnum í Reykjavík hafa aldrei á skóla komið. En að þeir hafa fagmannaréttindi stafar af því, að þeir fengu þessi réttindi um leið og iðnlöggjöfin var sett, af því að þeir höfðu unnið áður við störf í þessum greinum, og gildir um það undanþáguákvæði í þeim lögum.

Hæstv. iðnmrh. sagði enn fremur, að það væri mjög vafasamt, að rétt væri að fela þeim mönnum að reisa hús í sveit, sem ekki fengju meiri tilsögn en gert er ráð fyrir í frv. þessu. En ég held, að hæstv. ráðh. ætti að gera sér það ljóst, að fjöldi af þeim mönnum, sem fást við húsbyggingar í sveit nú, hafa enga tilsögn fengið um þá hluti, og stafar þetta af því, hve mikill skortur hefur verið á sérfróðum mönnum í þessu efni. Það er ekki hægt að fá fagmenn frá Reykjavík til þess að annast þessar húsbyggingar, og húsin eru þá byggð af mönnum, sem algerlega hafa lært — eins og maður segir — af sjálfum sér. Ég hef í huga fjölda manns, sem ég þekki, sem fást við þessi störf og aldrei hafa neina kennslu í því fengið. Það er þess vegna fullvíst, að ef ekki verður bót á þessum málum ráðin, þá heldur það ástand áfram, sem nú er í þessum málum, skortur á fagmönnum, og svo hitt, að húsin verða reist af mönnum, sem hafa miklu minni þekkingu á því en þeir menn mundu hafa, sem útskrifuðust frá þessum skóla, sem frv. er um. Og ég er heldur ekki í neinum vafa um það — það er náttúrlega atriði, sem deila má um —, að þeir menn, sem eru tvö ár í skóla eins og þessum og hafa tvö ár samfleytt verið við nám, eins og gert er ráð fyrir, að því verði hagað eftir þessu frv., ef það verður að l., ég er ekki í neinum vafa um það, að þeir menn mundu þar með vera búnir að fá eins mikla þekkingu eins og meginið af þeim mönnum, sem útskrifaðir eru hér nú eftir 4 ára nám. Þetta er sannfæring mín. Það er að vísu gert ráð fyrir því í 7. gr. þessa frv., að þeir menn, sem útskrifast úr þessum skóla, kunni fleira en aðeins að reisa húsin, svo að ekki þurfi að fá annan mann til pípulagninga, þriðja til þess að mála, fjórða til þess að leggja dúka og fimmta manninn til þess að snerta á trésmíði o. s. frv. En það verða menn að gera sér ljóst, og ég geri ráð fyrir, að hæstv. iðnmrh. geri sér það ljóst, að það er ekki hægt á afskekktum stöðum í sveit og heldur ekki í þorpum að reisa hús með því móti að sækja sjö til átta fagmenn til þess að annast húsbygginguna, eins og gert er í kaupstöðum landsins. Við, sem hér í Reykjavík þurfum að láta lagfæra eitthvað í einu herbergi, þó að ekki sé meira, vitum, að það þarf oft að sækja marga fagmenn til þess. Ég ætla ekki að skipta mér af því, þó að þetta fyrirkomulag sé haft í kaupstöðum, og ekki reyna til að fá því breytt. En það verður aldrei fullnægt þörfinni fyrir byggingar í sveitum með þessu móti. Þess vegna yrðu það stórkostlegar framfarir frá því, sem nú er, ef þessum skóla yrði á komið, ef það tækist vel. Ég ætla að nefna það til dæmis, að maður norður í Skagafirði gerir mikið að því að leggja hitalagnir í hús og tekst vel, þó að aldrei hafi hann lært það nema af sjálfum sér, sem kallað er. Það, sem við biðjum um með þessu frv., er, að þeirri stefnu verði haldið áfram, sem fylgt hefur verið hingað til, að sveitirnar fái að hafa sitt fyrirkomulag á þessu og þeim verði forðað frá því, að tekinn verði upp gagnvart þeim sá sami háttur um fagmennsku, sem á sér stað í þeim efnum í kaupstöðum landsins.

Það er hægt að segja manni það, að á einhverju móti iðnaðarmanna í Kaupmannahöfn hafi menn verið sammála um það, að skólanám verði lakara en að læra hjá meistara í þessum efnum, því að því trúir hver einasti maður, af því að það er vitað, að fagmenn vilja ekki sleppa þessu út úr höndunum á sér. En það kemur bara ekki þessu máli við beinlínis. En við biðjum bara um, að sveitunum verði forðað frá þessu fyrirkomulagi, sem tekið hefur verið upp um fagmennsku í þessum efnum í kaupstöðunum. — Ef hæstv. ráðh. vill, get ég nefnt nokkur dæmi frá því er ég var lögreglustjóri, að tveir menn, sem eru beztu fagmenn nú, voru útilokaðir frá námi í fagi því, sem þeir vildu nema, og ég varð að koma þeim fyrir til náms erlendis með aðstoð sendiherrans í Kaupmannahöfn. Og það voru ekki þessir menn einir, sem útilokaðir voru þannig frá námi. Hitt skal ég taka fram, til þess að ekki valdi misskilningi, að slík lokun er eðlileg að vissu marki. Ég geri ráð fyrir, að ef ég væri einn af fagmönnunum, með því ástandi, sem er í þessum efnum, þá mundi ég fara eitthvað svipað að og þessir fagmenn. Það er ekki nema mannlegt. En það er þjóðfélagsins að sjá um, að ekki sé þannig ástand í þjóðfélaginu, að stéttir þurfi að taka upp vinnubrögð þeirrar tegundar, sem iðnaðarmenn hafa tekið upp, né beiti þeim.

Ég hef ekki á móti því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé borið saman við annað frv., sem er að koma fram hér á Alþ. um svipað efni. En ég vil alveg sérstaklega taka fram, að ég hef ekki þá trú, að þó að það frv. verði að l., þá geti það komið í staðinn fyrir að samþ. þetta frv., því að það verður ekki látið ná yfir þau svæði, sem fagmennskan hefur ekki náð yfir enn, heldur þar, sem fagmennskan hefur ráðið og ræður. En að sjálfsögðu má breyta þessu frv., sem hér liggur fyrir, svo að skólinn, sem reistur yrði eftir því sem l., verði fullkomnari en hér er gert ráð fyrir, en fái að sigla sinn sjó, þannig að þau svæði, sem utan við svið fagmennskunnar eru nú, fái að njóta hans. Og ég vona, að hæstv. iðnmrh. fallist á þau sjónarmið. Nú er þetta þannig, að hér sunnan við takmörk Reykjavíkur, sunnan við girðinguna, sem er á takmörkum Reykjavíkurumdæmis í Fossvoginum, þar getur hver og einn eftirlitslaust smíðað og unnið að múrsmíði og gert alla aðra vinnu við byggingu húsanna, nema það, sem lýtur að raflögnum, sem verður að sækja fagmenn til. Ég er alls ekki að hæla þessu ástandi og álít það alls ekki gott ástand. Vitanlega leiðir þetta til þess, að þarna vinna að húsagerð menn, sem alls ekki eru færir um það, og það er einmitt til þess að ráða bót á þessu ástandi, að þetta frv. er flutt. Ég sé, að hæstv. iðnmrh. brosir, er ég segi, að þetta sé alls ekki viðunandi, að menn vinni þannig að smíði húsa eftirlitslaust. En ég ætla að bæta því við, að það er þó þúsund sinnum betra en fagmennskan í augum almennings, og ég get fullvissað hæstv. ráðh. um, að það er almenn skoðun. — Ef þessi skóli, sem þetta frv. er um, verður að veruleika, þá er það trú mín, að ekki líði á löngu áður en litið verði á þá fagmenn, sem þaðan útskrifast, sem fullkomna jafnoka þeirra, sem útskrifast á fjórum árum, samkv. þeirri reglu, sem nú hefur gilt um nám til essa og væntanlega gildir framvegis. Það er þá líka auðvelt, þegar reynsla kemur á þetta, að endurbæta þetta. Og eins og sést á frv., er gert ráð fyrir því, að margt í þessu verði reglugerðaratriði, sem verður þá vitanlega hagað samkv. þeirri reynslu, sem af skólanum fengist.