27.11.1945
Efri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (5076)

102. mál, iðnskóli í sveitum

samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að hafa neinar langar umr. um þetta mál við 1. umr., en taldi rétt að láta í ljós mína skoðun á frv. og þeim agnúum, sem ég teldi á því vera. Hv. flm. frv. hefur síður en svo getað sannfært mig um, að þetta væri allt eins og það ætti að vera, sem til er tekið í frv., enda er það yfirlýst af hv. flm. bæði í framsögu og í grg. Og öll frumsmíð stendur til bóta. Vænti ég þess vegna, að takast megi að gera þær breyt. á þessu frv., að það geti komið að gagni. Fyrir mér vakir ekki annað en það, að þessum málum verði komið í það horf, að ekki verði betur fyrir komið, innan þeirra takmarka, sem þeir möguleikar leyfa, sem við ráðum yfir.

Hv. flm. fullyrti — og það var aðalatriði ræðu hans — að það þyrftu að vera önnur l., sem giltu fyrir sveitir og minni kauptún í þessum efnum en fyrir landið í heild sinni að öðru leyti. Þetta sjónarmið fær hann mig aldrei til að viðurkenna, og getur ekki sannfært mig um, að það sé það rétta sjónarmið. Það er engu minni vandi að byggja hús í sveit eða kauptúni en í kaupstað. Ég færði rök fyrir því áðan, og endurtek þau ekki. Ef nokkur munur er þar á, þá er það kannske meiri vandi í dreifbýlinu, þar sem lengra er til verksmiðja og vinnuverkstæða en í kaupstöðum. Og það vil ég segja þessum hv. þm., að það hef ég séð raunalegast í sveitum og kauptúnum, hversu léleg hús þar hafa verið byggð. Þar hafa verið að verki menn, sem sýnilega hafa ekki nokkurt vit haft á því, sem þeir voru að fara með. Niðurstaðan af þessu hefur því orðið sú, að ekki aðeins hefur verkið verið verr unnið en ef góður fagmaður hefði leyst það af hendi, heldur líka miklu dýrara, eins og eðlilegt er. Og það hafa sagt mér bændur úti í sveit, sem ég hef talað við, sem bæði hafa haft lærða starfsmenn við byggingavinnu hjá sér og einnig ólærða, að þeir taki þá lærðu fram yfir þá ólærðu. (HermJ: Þess vegna vil ég hafa þá lærða). Ég ráðlegg mönnum að fara suður fyrir Fossvogslækinn og líta á húsin beggja megin við girðinguna. Þó að maður geri ekki annað en að fara um veginn, þá er sjónarmunurinn svo gífurlegur, að menn, sem fara um veginn, hljóta að veita honum eftirtekt. Nú kemur náttúrlega fleira til greina annað en fagmennskan, því að ýmsir byggja af vanefnum. En hv. þm. Str. getur ekki sannfært mig um, að ófaglærðir menn geti unnið eins vel og faglærðir menn. Og þó að hv. þm. Str. tiltaki mann norður í Skagafirði sem dæmi um það, að ófaglærðir menn geti lagt pípur, eins og sá maður gerir, þá hefur sá maður þar fyrir lært það starf af því að æfa sig upp í því og ganga upp í þessu allt sitt líf. Og ég þekki dæmi þess, að menn, sem einbeita sér að starfi á vissu sviði, svo sem handverki, geta unnið það starf ágætlega, þó að þeir hafi aldrei sem kallað er lært. En það hefur þá tekið þá miklu lengri tíma að komast vel niður í starfi sínu og ná fullkomnun í því heldur en ef þeir hefðu lært handverkið á réttum tíma. Og þó að þessi maður norður í Skagafirði sé ágætur pípulagningarmaður og hafi ekki lært það nema af reynslunni, og það á löngum tíma og með mikilli fyrirhöfn, þá sannar það ekki, að með því að fara á iðnskóla í sveit geti maður á tiltölulega mjög stuttum tíma lært að verða í einu múrari, trésmiður, pípulagningarmaður, veggfóðrari, málari og kannske eitthvað fleira. Mér skilst, að þetta eigi, eftir orðum hv. þm. Str. að dæma, sami maður að læra allt á 1½ ári á þessum iðnskóla í sveit, fagkunnáttu, sem mundi taka 24 ár að læra í kaupstað samkvæmt því, að námstíminn þar í hverri iðngrein er 4–4½ ár. Og ef hann á að læra sex iðngreinar, þá þyrfti hann eftir því a. m. k. 24 ára skólavist í kaupstað til þess að geta lært þetta. — Ég er ekki á móti því, að gert sé eitthvað til þess að bæta úr ástandi því, sem er í byggingarmálum sveitanna í þessu tilliti, heldur er ég sérstaklega áhugasamur fyrir því, að það verði gert, því að mér hefur oft verið mikil raun að því að sjá hús þar illa byggð, af því að þeir, sem átt hafa við það, hafa ekki kunnað til þeirra verka, sem þeim var trúað fyrir. En ég er sannfærður um, að það ástand lagast ekki fyrr en fullgildir iðnaðarmenn taka að sér þessi verk. Þar skilur á milli okkar hv. þm. Str. og mín um þetta efni. Hann vill hafa takmörkin þannig, að sveitir og kauptún verði laus við þá plágu, sem mér skilst hann álíta fagmennskuna í húsbyggingamálum vera. En ég vil vera laus við það, að húsin verði illa byggð í sveitum og kauptúnum, og heldur verði þau byggð af fulllærðum fagmönnum, sem mun reynast ekki aðeins bezt um vöndun húsanna, heldur líka ódýrast.

Hv. þm. Str. vildi halda því fram, að fagskólar erlendis hefðu verið stofnaðir á sínum tíma í trássi við iðnaðarmenn þar. Ég leyfi mér að efast um þessa fullyrðingu, að hún sé rétt. Og ég veit, að það er mjög almennt, t. d. í Noregi, að meistarar sækjast eftir því að fá nema í iðngreinar, sem hafa verið 1–1½ ár á forskóla. — Mér virtist, sem sagt, þetta vera höfuðsjónarmið hv. þm. Str., að það ætti ekki að sleppa fagmennskunni út um sveitir landsins og þorp og að það lægi til grundvallar hans málflutningi í þessu máli. En það álít ég hættulegt sjónarmið, einmitt fyrir sveitirnar. Ég vil stuðla að því, að einnig sveitirnar eigi a. m. k. kost á faglærðum mönnum til húsabygginga. Við skulum láta það vera svo, að það sé opið fyrir þá, sem vilja nota fúskara og ólærða menn til þess að byggja fyrir sig í sveitum og þorpum, þeim sé heimilt að nota þá, ef þeir, sem þar eiga heima, vilja það heldur. En við skulum ekki útiloka, að þeir, sem þar eiga heima, eigi kost á að fá faglærða menn til þessa, ef þeir óska þess. Og ég hygg, að ekki líði á löngu áður en augu manna í sveitum og kauptúnum opnast fyrir því, að betra er að láta faglærða menn reisa fyrir sig hús en ófaglærða. (HermJ: Þetta frv. útilokar það ekki, að faglærðir menn megi byggja hús í sveitum og þorpum fyrir þá, sem það vilja). Ekki beinlínis, heldur skapar frv., ef það verður óbreytt að l., stétt hálflærðra manna í faginu, sem kunna ekki nema lítinn hluta af því, sem þeir þyrftu að kunna í sínu fagi til þess að geta annazt húsbyggingar. Það er gefið, að eftir aðeins 1–½ árs nám kunna þeir ekki nema lítið brot af því, sem þeir þyrftu að kunna til þess að geta með góðu móti tekið að sér byggingarstörf. Og ef slíkir menn hafa leyfi til þess að sjá um húsbyggingar úti um sveitir, þá verður það til þess að tefja fyrir því, að hinir betri komist að. Ég tel, að í þessu liggi nokkur hætta, sem ég vil vara við. Og hv. þm. er inni á þessu, að það sé slæmt, að þeir, sem lítið kunna til byggingarstarfa, annist húsbyggingar í sveit og kauptúnum, því að hann segist ekki ætla að hæla þessu. En svo bætir hann við, að það sé þó þúsund sinnum betra en fagmennskan. Mér finnst þessi hv. þm. sveiflast svolítið til í þessu. Hann finnur, að ekki er allt eins og það á að vera um þetta, en vill þó ekki gagngerðar endurbætur á því.

Það vakti ekki fyrir mér að deila um þetta mál. Ég tel aðalatriði málsins, að sveitirnar og kauptúnin eigi þess virkilega kost að geta fengið faglærða menn til þess að annast sínar húsbyggingar, ef þau óska þess, alveg eins og kaupstaðarbúar nú eiga þess kost. En það þarf ekki endilega að setja útilokunarákvæði til þess að fagmenn einir geri þetta, vegna þeirra, sem ekki hafa fullan lærdóm. Við skulum láta þetta vera opið, en við skulum ekki girða fyrir, að þeir, sem betur eru að sér í faginu, komist að.